Halldóra Bjarnadóttir

skólastjóri barnaskólans á Akureyri, fyrsti formaður Sambands norðlenskra kvenna og ritstjóri tímaritsins Hlínar

Halldóra Bjarnadóttir (fædd 14. október 1873Ási í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, dó 28. nóvember 1981 á Blönduósi) var skólastjóri barnaskólans á Akureyri, fyrsti formaður Sambands norðlenskra kvenna og ritstjóri tímaritsins Hlínar.

Foreldrar Halldóru voru Bjarni Jónasson bóndi á Hofi í Vatnsdal og Björg Jónsdóttir. Þau skildu og fór faðir hennar til Vesturheims árið 1883. Halldóra fylgdi móður sinni og fluttu þær til Reykjavíkur á heimili Jóns Árnasonar þjóðsagnaritara sem var frændi hennar. Halldóra fékk áhuga á handavinnu og heimilisiðnaði og fór til náms í Noregi árið 1896 og lauk kennaraprófi þar árið 1899. Hún fór þá til Íslands og kenndi við barnaskólann í Reykjavík en sneri aftur til Noregs og var þar við kennslu 1901 til 1908 m.a. í bænum Moss. Árið 1908 kom hún til Íslands og gerðist skólastjóri Barnaskólans á Akureyri.

Halldóra leiddi framboðslista kvenna við bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri árið 1921 og náði kjöri. Hún sagði hins vegar af sér bæjarfulltrúastarfinu tveimur árum síðar.

Halldóra flutti síðar til Reykjavíkur og varð stundakennari við Kennaraskóla Íslands í handavinnu og ráðunautur almennings í heimilisiðnaði frá 1922.

Árið 1937 fór hún til Vesturheims og stóð þar fyrir mikilli heimilisiðnaðarsýningu á vegum Vestur-Íslendinga. Árið 1946 stofnaði Halldóra Tóvinnuskólann á Svalbarði við Eyjafjörð og starfaði þar til ársins 1955. Hún stóð fyrir sýningum á Íslandi og erlendis og var ritstjóri ársritsins Hlín en það rit kom fyrst út árið 1917.

Árið 1955 flutti Halldóra á ellideild Héraðshælisins á Blönduósi og dvaldi þar til dauðadags 1981. Hún var eftir sem áður ritstjóri Hlínar og var einnig formaður Sambands norðlenskra kvenna og var mikilvirk í bréfaskrifum og ritaði Vefnaðarbókina sem koma út árið 1966.

Halldóra var kjörinn fyrsti heiðurborgari Blönduóss á 100 afmæli sínu.

Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1931 og stórriddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1971.

Halldóra gaf eigur sínar og safn hannyrða til heimilisiðnaðarsafns Sambands norðlenskra kvenna á Blönduósi.

Heimildir

breyta