Gullaldarlatína
Gullaldarlatína (á latínu Latinitas aurea) eða snemmklassísk latína er það skeið í latneskri málsögu og bókmenntasögu nefnt sem nær frá 80 f.Kr. til 14 e.Kr., þ.e. frá endalokum lýðveldistímans eftir að valdatíma Súllu lauk til upphafs keisaratímans allt til loka valdatíma Ágústusar. Margir fornfræðingar telja að á þessu tímabili hafi latneskar bókmenntir náð mestum þroska. Bókmenntir þessa tímabils hafa ætíð verið viðmið „réttrar“ og „góðrar“ latínu. Tímabilið eftir gullöldina er nefnt silfuraldarlatína en saman eru þessi tvö tímabil nefnd klassísk latína.
Gullaldarlatína |
---|
80 f.Kr. - 14 e.Kr. |
Helstu höfundar |
Sagnaritarar: |
Caesar • Sallustius • Cornelius Nepos • Livius • Velleius Paterculus |
Heimspekingar: |
Cicero |
Fræðimenn: |
Varró |
Skáld: |
Lucretius • Catullus • Tibullus • Propertius • Virgill • Hóratíus • Ovidius |
Klassísk latína er frábrugðin fornri latínu m.a. í því að -om og -os endingar fornlatínunnar hafa orðið að -um og -us endingum. Einhver breyting átti sér einnig stað í orðanotkun, t.d. með því að merking ýmissa orða víkkaði.
Höfundar gullaldarinnar
breytaBundið mál
breytaElsta skáldið sem telst til gullaldarinnar er epikúríska skáldið Lucretius, sem samdi langt kvæði um epikúriska heimspeki, nefnt Um eðli hlutanna (lat. De rerum natura).[1]
Catullus (87 – 47 f.Kr.) er þekktastur hinna svokölluðu nýju skálda (poetae novi á latínu eða neoteroi á grísku).[2] Meðal annarra „nýrra skálda“ mætti nefna Valerius Cato, Furius Bibaculus, Varro Atacinus, Cinna og Calvus.[3] Catullus átti mikinn þátt í að laga bragarhætti grísks lýrísks kveðskapar að latínunni.[4] Ljóð Catullusar voru persónuleg, stundum erótísk, oft fjörug en ekki síður bitur persónuleg ádeila. Öll kvæði hans eru undir grískum bragarháttum.
Áhrif grísks kveðskapar á latínu þessa tímabils náði ef til vill hámarki í kvæðum Virgils, Hóratíusar og Ovidiusar.[5] Eneasarkviða Virgils var söguljóð eftir fyrirmynd Hómers. Kvæði Hóratíusar voru að grískri fyrirmynd og undir grískum bragarháttum og Ovidius samdi m.a. löng kvæði um gríska goðafræði, svo sem Myndbreytingar. Tibullus og Propertius sömdu einnig ljóð eftir grískum fordæmum, undir elegískum hætti.[6] Ovidius var síðasta skáld gullaldartímans.
Óbundið mál
breytaMeginhöfundar gullaldartímans á óbundnu máli voru Julius Caesar og Marcus Tullius Cicero.[7] Rit Caesars um Gallastríðin (lat. Commentarii de Bello Gallico) og Borgarastríðið (Commentarii de Bello Civili) eru hnitmiðuð og kjarnyrt, líkt og stíll flestra rómverskra sagnaritara.
Cicero var lögfræðingur, stjórnmálamaður og heimspekingur. Rit hans, einkum varðveittar ræður en einnig rit hans um heimspeki og mælskufræði, hafa öldum saman verið fyrirmynd óbundins máls á latínu. Cicero skrifaði auk þess fjöldan allan af einkabréfum en rúmlega 900 þeirra eru varðveitt. Stíll Ciceros er „fyllri“ en Caesars, nákvæmur og skýr en ekki eins kjarnyrtur.
Sagnaritun var mikilvæg bókmenntagrein í klassískri latínu. Meðal helstu sagnaritara gullaldartímans má nefna Sallustius, sem samdi m.a. ritin Samsæri Catilinu og Stríðið gegn Jugurthu.[8] Stíll Sallustiusar er um sumt líkur stíl Caesars, kjarnyrtur, en Sallustius tók sér einnig forngríska sagnaritarann Þúkýdídes til fyrirmyndar. Stílnum er oft lýst með orðinu brevitas (stuttleiki). Titus Livius var annar merkur sagnaritari gullaldartímans.[9] Rit hans Frá stofnun borgarinnar (Ab Urbe Condita) var saga Rómar frá stofnun hennar árið 753 f.Kr. fram til samtíma höfundar í 145 bókum en þar af eru 35 varðveittar. Liviusar er eini rómverski sagnaritarinn sem ritaði ekki hinn kjarnyrta stíl sem Sallustius hafði kosið og Tacitus kaus síðar. Stíl Liviusar hefur verið lýst sem lactea ubertas („mjólkurfylling“). Livius var síðasti merki höfundur gullaldartímans á óbundnu máli.
Tilvísanir
breyta- ↑ Um Lucretius, sjá Conte (1994), 155-174, og Frank (1930), 225-250.
- ↑ Um Catullus, sjá Conte (1994), 142-154, og Martin (1992).
- ↑ Conte (1994), 140-142.
- ↑ Raunar höfðu rómversk skáld allt frá tímum Enníusar ort undir grískum bragarháttum. Um áhrif grísks kveðskapar á rómverskan kveðskap, sjá m.a. Geir Þ. Þórarinsson, „Hvaða áhrif hafði grísk menning á hina rómversku?“[óvirkur tengill]. Vísindavefurinn 8.11.2005. (Skoðað 10.12.2006) og Braund (2002), 242-264.
- ↑ Um Virgil, sjá Conte (1994), 262-291 og Slavitt (1992). Um Hóratíus, sjá sjá Conte (1994), 292-320, og Armstrong (1989). Um Ovidius, sjá Conte (1994), 340-366, og Mack (1988).
- ↑ Um Tibullus og Propertius, sjá Conte (1994), 321-339.
- ↑ Um Caesar sem rithöfund, sjá Conte (1994), 225-233. Um Cicero sem rithöfund, sjá Conte (1994), 175-208, og Frank (1930), 130-168 og 197-224.
- ↑ Um Sallústíus, sjá Conte (1994), 234-245, og Syme (2002).
- ↑ Um Livius, sjá Conte (1994), 367-376, og Frank (1930), 169-196.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Golden Age of Latin literature“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. desember 2006.
- Armstrong, David, Horace (New Haven: Yale University Press, 1989).
- Braund, Susanna Mortin, Latin Literature (London: Routledge, 2002).
- Conte, Gian Biagio, Latin Literature: A History. Joseph B. Solodow (þýð.) (Baltimore: Johns Hopkins University Press, 1994).
- Frank, Tenney, Life and Literature in the Roman Republic (Los Angeles: University of California Press, 1930).
- Mack, Sara, Ovid (New Haven: Yale University Press, 1988).
- Martin, Charles, Catullus (New Haven: Yale University Press, 1992).
- Slavitt, David R., Virgil (New Haven: Yale University Press, 1992).
- Syme, Ronald, Sallust (Los Angeles: University of California Press, 2002).
Tengt efni
breyta
Tímabil í sögu latínunnar | ||||||
---|---|---|---|---|---|---|
—80 f.Kr. | 80 f.Kr. – 14 e.Kr. | 14 e.Kr. – 180 e.Kr. | 2. – 8. öld | 9. – 15. öld | 15. – 17. öld | 17. öld – nútíminn |
Fornlatneska tímabilið | Gullaldarlatína | Silfuraldarlatína | Síðfornaldarlatína | Miðaldalatína | Latína endurreisnartímans | Nýlatína |