Gallastríðið (Caesar)
Athugasemdir um Gallastríðið, Um Gallastríðið eða bara Gallastríðið (á latínu Commentarii de Bello Gallico, De Bello Gallico, stundum einnig nefnt Bellum Gallicum) er rit eftir rómverska herforingjann og stjórnmálamanninn Júlíus Caesar. Það fjallar um níu ára langt stríð hans í Gallíu, frá 58 til 50 f.Kr.
Ritið Gallastríðið skiptist í átta bækur, og fjallar hver bók um eitt ár, nema sú áttunda, sem fjallar um árin 51-50 f.Kr. Áttunda bókin er ekki eftir Caesar. Höfundur hennar mun vera Aulus Hirtius (90–43 f.Kr.), sem var einn af herforingjum Caesars og fylgismaður hans. Hirtius var af alþýðuættum, vel menntaður og rithöfundur góður, en nokkuð skortir þó á að 8. bókin sé með sama snilldarbrag og fyrstu sjö bækurnar, sem Caesar gekk frá.
Í frásögn Caesars kemur fram að hann sendi til Rómar skýrslur um gang styrjaldarinnar í Gallíu, og eru þessar skýrslur eflaust stofninn að riti hans, sbr. nafnið Commentarii de Bello Gallico. Ritið er lofað fyrir fágaðan en einfaldan og skýran stíl.
Árið 1933 komu Gallastríð út í íslenskri þýðingu Páls Sveinssonar menntaskólakennara, með 45 bls. ritgerð um Júlíus Caesar og ítarlegum skýringum.
Tengt efni
breytaHeimild
breyta- Cajus Júlíus Caesar: Bellum Gallicum, eða Gallastríð. Þýtt hefir á íslensku Páll Sveinsson. Reykjavík 1933.