Lúcretíus
Títus Lúcretíus Carus (uppi um 98 f.Kr. – 55 f.Kr.) var rómverskt skáld og heimspekingur. Meginverk hans er De Rerum Natura eða Um eðli hlutanna, sem er af flestum talið vera meðal mestu meistaraverka latnesks kveðskapar - dýpra verk en kvæði annarra skálda og hugmyndaríkara en verk nokkurs heimspekings.
Ævi Lúcretíusar
breytaLítið er vitað um ævi Lúcretíusar. Ein heimildin er þýðing heilags Hýerónýmusar á verki Evsebíosar Chronicon. Hýerónýmus bætir við vitnisburði frá Súetóníusi en umfjöllun Hýerónýmusar telst raunar ekki vera mjög örugg heimild. Samkvæmt Hýerónýmusi, fæddist Lúcretíus árið 94 f.Kr. og lést 43 ára að aldri. Hann segir að Lúcretíus hafi orðið vitstola af ást og að verkið hafi verið ritað er líðan Lúcretíusar varð betri inn á milli, og að seinna hafi Lúcretíus fyrirfarið sér. Þessar staðhæfingar um ævi Lúcretíusar hafa verið dregnar í efa af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi leggur epikúrisminn sem Lúcretíus útlistar í kvæði sínu mikla áherslu á skynsemi og rétta dómgreind og hvetur menn til að halda sig frá allri rómantík; í öðru lagi viðist líklegt að Hýerónýmus, sem var einn af kirkjufeðrunum, hefði viljað grafa undan heimspeki Lúcretíusar, sem felur í sér vantrú á hvers kyns handanlíf eftir dauðann og á guði sem láta sig mál manna varða.
Cíceró gefur í skyn í einu bréfa sinna til bróður síns að þeir hefðu einu sinni lesið kvæði Lúcretíusar. Eftir þetta er ekki minnst á Lúcretíus í heimildum fyrr en Aelius Donatus gerir það í ævisögu Virgils þar sem hann segir að Virgill hafi hlotið toga virilis þann 15. október, 55 f.Kr. og bætr við að það hafi gerst „sama dag og skáldið Lúcretíus lést.“ Hafi Hýerónýmus á réttu að standa um aldur Lúcretíusar þegar hann dó (43 ára), þá getum við ályktað út frá öðrum vitnisburði sem segir að Lúcretíus hafi andast 55 f.Kr. að hann hafi fæðst árið 98 f.Kr.
Eina örugga staðreyndin um ævi Lúcretíusar er hins vegar sú að hann var annað hvort vinur eða skjólstæðingur of Gaiusar Memmíusar, en honum tileinkaði hann verkið Um eðli hlutanna. Sumir telja að verkið sé óklárað, en Hýerónýmus segir að Cicero hafi „lagað“ það - sem getur þýtt að hann hafi ritstýrt því til útgáfu.
Um eðli hlutanna
breytaEnda þótt Um eðli hlutanna sé álitið eitt af meistaraverkum latneskra bókmennta myndu flestir fræðimenn þó segja að stílfræðilega hefði latneskur hetjulags-kveðskapur náð hámarki sínu með Virgli. Um eðli hlutanna er hins vegar gríðarlega mikilvægt vegna áhrifa sinna á Virgil og önnur rómversk skáld. Megintilgangur verksins er að frelsa hugi manna frá hindurvitnum og ótta við dauðann. Markmiðinu er náð með hjálp epikúrisma, en kvæði Lúcretíusar er ein besta og fyllsta varðveitta heimildin um heimspeki Epikúrosar. Í verkinu er víða vísað til stjórnmálaástandsins í Róm á tímum Lúcretíusar og borgarastríðsins. Lúcretíus fer varlega í kennslunni til þess að styggja ekki hefðakæra Rómverja og setur rólega fram umdeildari og byltingarkenndari atriði kenningarinnar. Í Um eðli hlutanna er lögð minni áhersla á siðfræði en fyrri epikúringar höfðu gert í ritum sínum, en Lúcretíus miðlar náttúruspeki þeirra og sálfræði af kostgæfni. Lúcretíus var fyrsti epikúringuinn sem ritaði á latínu og e.t.v. sá fyrsti sem ritaði í bundnu máli.
Tilvitnanir
breyta- Því heimskingjar dást meira að öllu og elska það, sem þeir sjá falið í myrkum orðum, og telja að allt sé satt, sem vegna fegurðar sinnar nær eyrum manna og er litað með fögrum frösum. (Um eðli hlutanna I.641-644)
- Því til hvers eigum við að höfða? Hvað gætum við fundið öruggara en skilningarvitin sjálf sem við notum til að dæma satt og ósatt? (Um eðli hlutanna I.699-700)
Helstu handrit og útgáfur
breyta- Meginhandritin af De Rerum Natura eru tvö, bæði frá 9. öld, og eru nefnd Oblongus og Quadratus (stytt O og Q).
- Fyrsta prentaða útgáfa verksins eða editio princeps var gefin út af Fernando frá Brescia árið 1473.
- Fræðileg útgáfa textans í almennri notkun: C. Bailey (ritstj.), Lvcreti De Rervm Natvra Libri Sex, 2. útg. (Oxford: Oxford University Press, 1898/1921).
- Skýringarrit: W.E. Leonard og S.B. Smith (ritstj.), T. Lvcreti Cari De Rervm Natvra Libri Sex (Madison: University of Wisconsin Press, 1942/1970). Í ritinu er ítarlegur inngangur um Lúcretíus, höfundareinkenni hans og varðveislu textans.
- Þýðingar: (a) Lucretius, De Rerum Natura. W.H.D. Rouse (þýð.), M.F. Smith (endursk.) (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1975). Í ritinu er ensk þýðing í óbundnu máli með latneskum texta; (b) Lucretius, On The Nature of The Universe. R.E. Latham (þýð.), J. Godwin (endursk.) (London: Penguin Books, 1994). Þýðingin er í óbundnu máli; (c) Lucretius, The Way Things Are: The De Rerum Natura of Titus Lucretius Carus. R. Humphries (þýð.) (Bloomington, In.: Indiana University Press, 1969). Ensk þýðing í bundnu máli.
Heimildir
breytaTextinn byggður á lauslegri þýðingu af ensku Wikipedia.
Tengt efni
breytaTenglar
breyta- De Rerum Natura Geymt 31 ágúst 2005 í Wayback Machine eftir Lúcretíus á The Latin Library
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Lucretius“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Lucretius“