Vilhjálmur 1. Englandskonungur

(Endurbeint frá Guillaume le Conquérant)

Vilhjálmur 1. (um 10289. september 1087), oft nefndur Vilhjálmur sigursæli (franska: Guillaume le Conquérant) var konungur Englands frá 1066 til dauðadags og jafnframt hertogi af Normandí frá 1035. Hann var fyrsti Normannakonungur Englands. Í Heimskringlu er hann nefndur Vilhjálmur bastarður Rúðujarl.

Vilhjálmur bastarður. Hluti af Bayeux-reflinum.

Hertogi af Normandí

breyta

Vilhjálmur fæddist líklega í Falaise-höll í Normandí haustið 1028 en hugsanlega þó ári fyrr. Hann var óskilgetinn einkasonur Róberts 1. hertoga af Normandí og frillu hans, Herleifar. Vilhjálmur var fimmti liður í beinan karllegg frá Göngu-Hrólfi Rögnvaldssyni. Afasystir hans var Emma af Normandí, sem gift var Aðalráði ráðlausa Englandskonungi og síðan Knúti mikla og var móðir Englandskonunganna Hörða-Knúts og Játvarðar góða.

Faðir Vilhjálms lést í Níkeu 2. júlí 1035 á heimleið úr pílagrímsferð til Jerúsalem. Áður en hann hélt af stað hafði hann útnefnt Vilhjálm erfingja sinn og varð hann hertogi þótt óskilgetinn væri en ýmsir töldu sig þó eiga gildara tilkall til hertogadæmisins og var líf hans því í stöðugri hættu þegar hann var barn. Hann naut þó stuðnings Hinriks 1. Frakkakonungs og náði snemma góðum árangri í baráttu við fjandmenn sína og uppreisnarmenn.

Árið 1053 gekk Vilhjálmur að eiga Matthildi af Flæmingjalandi, sem var fjarskyld frænka hans (hún var líka afkomandi Göngu-Hrólfs í fimmta lið) og styrkti hjúskapurinn hann mjög í sessi. Hjónaband þeirra virðist hafa verið gott og þau eignuðust tíu börn saman.

Innrásin í England

breyta

Þegar Játvarður góði Englandskonungur dó barnlaus 5. janúar 1066 gerðu þrír tilkall til ensku krúnunnar: Haraldur Guðinason, jarl af Wessex, Haraldur harðráði Noregskonungur og Vilhjálmur, sem var skyldur Játvarði gegnum Emmu móður hans en þó ekki sjálfur afkomandi Englandskonunga. Vilhjálmur hélt því fram að Játvarður, sem hafði dvalið langdvölum í Normandí í útlegð á meðan danskir konungar réðu Englandi, hefði heitið sér ríkinu árið 1052 og svarið sér hollustueið árið 1064. Játvarður hafði þó arfleitt Harald Guðinason að krúnunni á banabeði.

 
Fall Haraldar Guðinasonar. Mynd á Bayeux-reflinum.

Haraldur var krýndur konungur daginn eftir lát Játvarðar en Vilhjálmur undirbjó innrás og safnaði saman miklum flota við strendur Normandí. Sagt er að hann hafi haft 696 skip. Haraldur safnaði jafnframt saman miklu herliði á suðurströnd Englands. Vilhjálmur gat þó ekki lagt af stað strax í innrásina vegna óhagstæðra vinda og má segja að það hafi orðið honum til happs að innrásin tafðist í marga mánuði. Honum tókst að halda liði sínu saman en Haraldi gekk það verr og þegar kom að uppskerutímanum um haustið sendi hann menn sína heim að gæta búa sinna. En örskömmu síðar bárust þær fréttir að Haraldur harðráði væri kominn með her frá Noregi og hefði tekið land skammt frá York. Haraldur kallaði þá lið sitt saman að nýju, skundaði norður á bóginn og vann sigur á innrásarliðinu í bardaga 25. september.

Vindáttin hafði breyst 12. september og floti Vilhjálms sigldi úr höfn, þurfti að vísu að leita vars og bíða átekta, en 28. september tók Vilhjálmur land á strönd Sussex og hélt til Hastings, þar sem hann lét reisa virki úr timburflekum sem hann hafði haft með sér, rændi vistum frá bændum í kring og beið komu Haraldar.

Haraldur og menn hans fóru 388 kílómetra á fimm dögum til að mæta innrásarhernum og þegar nálgaðist Hastings sló í bardaga, 14. október 1066. Orrustan við Hastings stóð allan daginn og þótt hersveitirnar væru álíka fjölmennar voru menn Vilhjálms mun betur búnir vopnum og öðrum hergögnum. Þeim gekk þó verr í fyrstu en síðan snerist bardaginn Normönum í hag, Haraldur féll og bræður hans einnig, og þeir Englendingar sem eftir lifðu voru reknir á flótta.

Andspyrna gegn Vilhjálmi

breyta

Vilhjálmur bjóst við að verða útnefndur konungur eftir fall Haraldar en þess í stað tóku Englendingar unglinginn Játgeir, bróðursonarson Játvarðar góða, til konungs, en hann var þó ekki krýndur. Vilhjálmur hélt þá til London og hugðist taka borgina en mætti mótspyrnu. Eftir að Vilhjálmi barst liðsauki frá Normandí tókst honum þó að þvinga Englendinga til að gefast upp, Játgeir sagði af sér og Vilhjálmur var tekinn til konungs. Hann var krýndur í Westminster Abbey á jóladag 1066.

Andspyrna gegn Vilhjálmi hélt þó áfram í Norður-Englandi og víðar allt til 1072. Íbúar Norðymbralands gerðu uppreisn árið 1068 undir forystu Játgeirs, sem naut einnig stuðnings Skota og Dana. Vilhjálmi tókst þó að bæla þessa uppreisn og aðrar niður og lagði hluta Norðymbralands í auðn, brenndi allt sem brunnið gat, drap búfénað og sáði salti í akra að sögn. Þegar honum hafði tekist að berja niður alla mótspyrnu í Norður-Englandi gerði hann innrás í Skotland.

Ríkisstjórn Vilhjálms

breyta
 
Ensk mynt frá ríkisárum Vilhjálms 1. með andlitsmynd hans

Vilhjálmur dvaldi lítið í Englandi. Hann var um kyrrt í Normandí og stýrði með tilskipunum. Eftir að hann náði Englandi á sitt vald jukust áhrif og mikilvægi hertogadæmisins Normandí til mikilla muna og Vilhjálmur reyndi að ná Bretagne á sitt vald. Hann átti í útistöðum og deilum við ýmsa aðra franska hertoga en alvarlegasta ógnunin var þó uppreisn sem elsti sonur hans, Róbert, efndi til gegn honum og þurfti Vilhjálmur að leita aðstoðar Frakkakonungs. Í bardaga árið 1079 veitti Róbert föður sínum sár með sverði en áttaði sig þá á því hvern hann var að berjast við og hlífði honum. Árið 1080 tókst Matthildi drottningu þó að sætta feðgana. Hún er sögð hafa haft góð áhrif á Vilhjálm og stjórn hans varð mun harðari eftir að hún lést 1083.

Miklar breytingar urðu í Englandi á konungsárum Vilhjálms. Hann dró úr áhrifum aðalsmanna og jók miðstýringu. Hann lét byggja kastala og virki víða um landið og kom þar fyrir liði til að bæla niður uppreisnir. Hann setti normannska aðalsmenn í staðinn fyrir nær allan engilsaxneska aðalinn; suma hrakti hann í útlegð eða rak af landi sínu og lét eignir þeirra og titla í hendur Normanna. Árið 1086, þegar Dómsdagsbókin var skráð, voru aðeins 8% jarðeigna í höndum engilsaxneskra aðalsmanna.

Dauði og erfingjar

breyta

Í umsátri um borgina Mantes árið 1087 féll Vilhjálmur af hestbaki og hlaut meiðsli sem drógu hann til dauða. Hann dó í Rouen 9. september og hafði áður skipt löndum sínum og eignum milli þriggja eftirlifandi sona sinna, en sá næstelsti, Ríkharður hertogi af Bernay, var þá látinn. Róbert fékk hertogadæmið Normandí, Vilhjálmur rauður fékk England í sinn hlut og varð Vilhjámur 2. og yngsti sonurinn, Hinrik, fékk fimm þúsund pund silfurs sem hann átti að nota til að kaupa sér land. Hann varð seinna Hinrik 1. Englandskonungur þar sem Vilhjámur 2. dó barnlaus.

Vilhjálmur og Matthildur áttu líka sex dætur en aðeins ein þeirra, Adela af Blois, átti afkomendur. Hún var móðir Stefáns Englandskonungs.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Játgeir Ætheling
Konungur Englands
(1066 – 1087)
Eftirmaður:
Vilhjálmur 2.
Fyrirrennari:
Róbert 1. af Normandí
Hertogar af Normandí
(1035 – 1087)
Eftirmaður:
Róbert 2. af Normandí