Aðalráður ráðlausi

Aðalráður ráðlausi (enska: Æthelred the Unready, fornenska: Æthelred unræd, um 96823. apríl 1016) var konungur Englands á árunum 978 til 1013 og aftur frá 1014 til dauðadags.

Aðalráður ráðlausi.

Aðalráður var sonur Játgeirs friðsama og Álfþrúðar konu hans. Hann varð konungur þegar hálfbróðir hans, Játvarður píslarvottur, var myrtur 18. mars 978. Það voru menn móður hans sem myrtu Játvarð en sjálfur var Aðalráður aðeins um 10 ára að aldri og hefur varla átt beinan þátt í verkinu. Morðið varð þó til þess að gera hann óvinsælan þegar í upphafi valdaferils hans, ekki síst þar sem bróðir hans var fljótt talinn helgur maður og varð seinna dýrlingur.

Víkingar höfðu að mestu látið England í friði eftir að Játgeir lagði Danalög undir sig um miðja 10. öld en snemma á valdaferli Aðalráðs fóru þeir aftur að láta á sér kræla og Danir gerðu strandhögg á ýmsum stöðum á 9. áratug aldarinnar. Árið 991 fóru Englendingar halloka fyrir dönskum víkingum í bardaga við Maldon í Essex. Árið 994 sigldu víkingar flota upp Thames og stefndu á London. Aðalráður samþykkti að greiða þeim stórfé til að losna við árásir þeirra. Þeir sneru þó aftur 997 og herjuðu víða á Suður-England næstu árin. Aðalráður samþykkti hvað eftir annað að greiða víkingunum geysimikið fé og voru þessar greiðslur kallaðar Danagjöld.

Aðalráður greip til þess 13. nóvember 1002 að skipa svo fyrir að allir norrænir menn búsettir á Englandi, karlar, konur og börn, skyldu drepnir, þar sem þeir hefðu lagt innrásarmönnum lið. Ekki er ljóst hve víðtæk slátrunin var en talið er að mannfall hafi verið töluvert. Á meðal hinna drepnu var Gunnhildur systir Sveins tjúguskeggs Danakonungs, maður hennar og barn, og í hefndarskyni réðist Sveinn á England ári síðar og varð vel ágengt. Danir herjuðu mjög á England næstu árin og innheimtu stórfé í Danagjöld.

Árið 1013 sneri Sveinn aftur og hugðist nú leggja England undir sig. Hann hafði í árslok brotið mótstöðu Englendinga á bak aftur að mestu og hrakið Aðalráð í útlegð í Normandí. Sveinn lýsti sjálfan sig konung Englands. En í byrjun febrúar 1014 dó hann. Danir tóku Knút son hans þegar til konungs en enskir höfðingjar sendu eftir Aðalráði og tóku hann aftur til konungs gegn því að hann féllist á allar kröfur þeirra. Er það fyrsti skrásetti samningurinn sem gerður var á milli konungs og þegna hans. Aðalráður réðist síðan gegn Knúti, sem var óviðbúinn, hörfaði undan og hvarf frá Englandi að sinni.

Knútur sneri þó aftur haustið 1015 og lagði mestallt England undir sig um veturinn. Sonur Aðalráðs, Játmundur járnsíða, hafði gert uppreisn gegn föður sínum en stóð þó með honum gegn innrásarliðinu og höfðu þeir feðgar búist til varnar í London þegar Aðalráður dó 23. apríl 1016. Um haustið kom til bardaga milli Knúts og Játmundar; Knútur hafði betur en samþykkti þó að deila ríkinu með Játmundi. Hann lést hins vegar 30. nóvember og Knútur varð þá einn konungur Englands.

Fyrri kona Aðalráð var Ælfgifu, jarlsdóttir frá Norðymbralandi.Þau áttu allmörg börn, þar á meðal Játmund járnsíðu. Árið 1002 giftist Aðalráður svo Emmu af Normandí, systur Ríkharðs 2. hertoga af Normandí. Sonur þeirra var Játvarður góði.

Heimild

breyta


Fyrirrennari:
Játvarður píslarvottur
Konungur Englands
(978 – 1013)
Eftirmaður:
Sveinn tjúguskegg
Fyrirrennari:
Sveinn tjúguskegg
Konungur Englands
(1014 – 1016)
Eftirmaður:
Játmundur járnsíða