Grjótaþorp

(Endurbeint frá Grjótaþorpið)

64°08′54″N 21°56′34″V / 64.14833°N 21.94278°V / 64.14833; -21.94278

Unuhús var eitt sinn mikill samkomustaður listamanna. Þekkt skáld eins og Halldór Laxness, Þórbergur Þórðarson og Steinn Steinarr voru þar tíðir gestir.

Grjótaþorp er hverfi í Reykjavík og telst vera fyrsta úthverfi hennar. Það afmarkast af Aðalstræti, Túngötu, Garðastræti, og Vesturgötu. Húsaskipan og lega gatna eru nokkuð óregluleg, enda náði bæjarskipulag Reykjavíkur ekki yfir Grjótaþorp fyrr en eftir að stór hluti þess var þegar byggður. Meðal sögufrægra húsa í Grjótaþorpi má telja Hlaðvarpann, Unuhús og hús Sögufélags. Í austurjaðri Grjótaþorpsins, við Aðalstræti, stóð auk þess kvikmynda- og samkomuhúsið Fjalakötturinn.

Saga Grjótaþorpsins

breyta

Grjótaþorpið er nefnt eftir bæ sem nefndist Grjóti og var upphaflega hjáleiga frá Vík og er þannig talið í Jarðabókinni. Fyrir norðan bæinn var Grjótatún. Þegar farið var að byggja Dómkirkjuna, var grjótið til hennar rifið upp úr Grjótatúni og það ónýtt. Komu þar þá kálgarðar. Um miðbik 18. aldar var komið þarna bæjarhverfi sem nefndist Grjótaþorpið. Heimir Þorleifsson sagnfræðingur hefur sagt að Grjótaþorp sé fyrsta úthverfi Reykjavíkur. Það heyrði ekki beinlínis undir þorpið Reykjavík og byggðin þar er því sundurleitari og handahófskenndari en gamli bærinn almennt.

Ekki má gleyma að nefna Vinaminni (Mjóstræti 3) meðal sögufrægra húsa í Grjótaþorpi. Þar rak Sigríður Einarsdóttir (sem reisti húsið), kona Eiríks Magnússonar bókavarðar, kvennaskóla veturinn 1891 til 1892. Síðar voru bæði Verslunarskólinn og Iðnskólinn settir á koppinn í þessu húsi.

Fullyrðing Heimis Þorleifssonar sagnfræðings í þá veru að Grjótaþorp sé fyrsta úthverfi Reykjavíkur er nokkuð hæpin. Gæta ber þess að Grjótaþorp stendur aðeins steinsnar frá Innréttingum Skúla fógeta en þær teljast upphaf þéttbýlismyndunar í Reykjavík. Grjótaþorp er því frá fyrstu tíð hluti þess þorps, sem kennt er við landnámsjörð Ingólfs Arnarsonar. Hingað til hefur verið talað um Skuggahverfi, sem fyrsta úthverfi Reykjavíkur.

 
Balsamösp í garði við Garðastræti 11a í Grjótaþorpinu í miðbæ Reykjavíkur. Tréð stendur við mót Fischersunds og Mjóstrætis. Öspin var valin tré ársins 2016.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
   Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.