Gamli Vesturbærinn
Gamli Vesturbærinn er gróið hverfi í vestanverðri Reykjavík. Hann afmarkast af Hringbraut í suðri og Suðurgötu, Kirkjugarðsstíg og Garðastræti, Vesturgötu, Norðurstíg og Geirsgötu í austri, og strandlengjunni í vestri og norðri. Mörg af elstu húsum borgarinnar eru í gamla vesturbænum, og meðal helstu gatna má nefna Vesturgötu, Ægisgötu, Öldugötu, Stýrimannastíg, Hofsvallagötu, Túngötu, Sólvallagötu, Bræðraborgarstíg, Framnesveg og Ánanaust. Efst á Landakotshæðinni eru smágöturnar Hrannarstígur, Marargata og Unnarstígur. Eitt helsta einkenni gamla vesturbæjarins er Landakotstún -- með kirkju, skóla og spítala, sem voru öll stofnuð af Rómversk-kaþólsku kirkjunni og rekin af henni enn í dag, fyrir utan spítalann, sem ríkið tók yfir á tíunda áratugnum. Meðal annarra áberandi einkenna má nefna Hólavallakirkjugarð og vesturhöfn Reykjavíkurhafnar. Tveir barnaskólar eru nú í vesturbænum, Landakotsskóli sem áður var nefndur og Vesturbæjarskóli. Áður fyrr var Stýrimannaskólinn einnig þar, í miklu timburhúsi við suðurenda Stýrimannastígs, þar sem seinna var rekinn Gamli Vesturbæjarskólinn. Mikið er til ritað um mannlíf og sögu vesturbæjarins nú og áður. Má benda á bókina Gvendur Jóns og ég eftir Hendrik Ottósson, en hún geymir mikinn og lipurlega skrifaðan fróðleik um uppvöxt drengs í vesturbænum upp úr aldamótunum 1900.