Gertrude Margaret Lowthian Bell (14. júlí 1868 – 12. júlí 1926) var breskur rithöfundur, skáld, sagnfræðingur, fornleifafræðingur, málvísindamaður, kortagerðamaður, landkönnuður og fjallgöngumaður. Hún er þekkt best fyrir að hafa verið njósnari í Mið-Austurlöndum og ráðgjafi fyrir bresku ríkisstjórnina.[1] Hún var oft kölluð drottning eyðimerkunnar (e. Desert Queen).

Gertrude Bell
Gertrude Bell við rústir Babýlon í Írak árið 1909.
Fædd14. júlí 1868
Washington New Hall, Durham-sýslu, Englandi
Dáin12. júlí 1926 (57 ára)
StörfRithöfundur, skáld, sagnfræðingur, fornleifafræðingur, málvísindamaður, kortagerðamaður, landkönnuður og fjallgöngumaður
ForeldrarSir Hugh Bell & Mary Bell

Æska og menntun breyta

Gertrude Bell var elsta barn hjónanna Sir Hugh Bell og Mary Bell, og fæddist þann 14. júlí 1868 í Washington, Durham-sýslu. Móðir Gertrude dó stuttu eftir fæðingu yngri bróður hennar, Maurice. Gertrude var einungis þriggja ára þegar hún missti móður sína, og dauði hennar leiddi til ævilangs náins sambands við föður sinn, Sir Hugh Bell. Faðir hennar giftist aftur þegar hún var átta ára, og hann eignaðist þrjú börn til viðbótar.[1] Þegar Gertrude var 15 ára var hún send til Queen's College í London til þess að klára framhaldsskólamenntunina. Þrátt fyrir að sýna lítinn áhuga á eldamennsku, tónlist, textíl, trúarbragðafræði og stafsetningu, þá gekk henni mjög vel í sögu. Vegna þess var hún samþykkt inn í háskólann Lady Margaret Hall í Oxford, 17 ára að aldri.[2]

Samnemandi hennar, Janet Hogarth, lýsir ungri Gertrude á sínum fyrstu dögum við Oxford-háskólann: „Hún var aðeins sautján, hálft barn, hálf kona, frekar óróleg, með rautt hár, græn augu, ljómandi yfirbragð, beitt nef, og fullviss um að vera velkomin í okkar samfélag. Hindranir áttu til að hverfa þegar hún rakst á þær, og fáar þeirra gátu hægt á henni. Hún gat stundað sund, skylmingar, róður, hún gat spilað tennis og hokkí, hún gat fyglst með nútíma bókmenntum og hafði mikið að segja um nútíma rithöfunda, þar sem þeir voru flestir æskuvinir hennar. En hún gat, og gerði það að taka frá sjö klukkutíma á dag fyrir lestur.“[2]

Hún kláraði námið á tveimur árum, og var ein af fyrstu konunum til þess að útskrifast úr nútímasögu (e. Modern History) með fyrstu einkunn (e. first-class honours).[2]

Ferðalög um Mið-Austurlönd breyta

Sama ár og hún útskrifaðist, 1888, fór hún til frænku sinnar í Búkarest, Rúmeníu, þar sem frændi hennar vann sem breskur sendiherra. Þar hitti hún Hardinge lávarð af Penshurst, sem myndi síðar senda hana til Írak þegar hann yrði landstjóri Indlands. Bell ferðaðist síðan frá Rúmeníu yfir til Ottómanveldisins, til Konstantínópel. Hún fór aftur til Englands, en ekki löngu eftir það var frænda hennar, Sir Frank Lascelles, boðin diplómatísk staða í Teheran, sem var þá í Persíu. Hún elti hann þangað, árið 1892, og varð ástfangin af lágsettum ríkisstarfsmanni, Henry Cadogan. Foreldrar Bell voru á móti sambandinu, sem kom í veg fyrir að þau giftu sig. Nokkrum mánuðum eftir að þau tóku upp sambandið dó Cadogan, og Bell fór aftur til Englands, niðurbrotinn. Hún ferðaðist um Evrópu á milli 1893–1897, áður enn hún flutti aftur til frænku sinnar og frænda, sem voru nú flutt til Berlínar í Þýskalandi. Á þessum árum hafði Bell lært arabísku og persnesku (farsi), og gefið út tvær bækur, Safah Nameh–Persian Pictures (1894) og Poems from the Divan of Hafiz (1897), sem hún hafði þýtt yfir frá persnesku til ensku.[2]

Eftir að frænka hennar lést, ferðaðist Bell enn og aftur til Mið-Austurlanda, þar sem hún fékk leyfi til þess að vinna í fylgdarliði fjölskylduvinar, Dr. Fritz Rosen, sem var þá þýskur konsúll í Jersúsalem. 1899–1900 fór Bell í sínar fyrstu ferðir í eyðimörkinni í Jersúsalem. Einnig voru dagsferðir til Petra, Daraa, Palmýra, Beirút, Damaskus og aðra staði í bæði Sýrlandi og Palestínu.[3] Á árunum 1901–1905 ferðast Bell um Evrópu, Asíu og Bandaríkin. Fyrri hluta 1905 skoðaði hún fornleifarústir í Sýrlandi, Palestínu, Líbanon og Litlu-Asíu. Frá seinni hluta 1905 til 1906 ferðaðist hún á milli London og Parísar, þar sem hún var að læra. 1911 bjó hún fyrri helming ársins í Sýrlandi, þar sem hún fór þvert yfir eyðimörk til Mesópótamíu, og hitti þar T. E. Lawrence, sem var ekki enn orðinn frægur. 1913 flúði hún England til Mið-Austurlanda þar sem hún hafði orðið ástfangin af giftum manni, Cpt. Charles Doughty Wylie. Ekki mikið er vitað um sambandið þeirra, þar sem þetta var feimnismál.[4]

1913–1914 fór Gertrude Bell til Haïl (e. Hayil) á Arabíuskaganum, til Ibn Rasjid, sem var talinn vera lykilmaður uppreisnarinnar á móti Ottómanveldinu. Hann hélt henni fanginni, þar til samið var um frelsi hennar. Á heimleið frá Haïl stoppaði hún í Konstantínópel og gaf breska sendiherranum, Sir Louis Mallet, upplýsingar sem hún öðlaðist í Haïl.[4] Fyrri heimstyrjöldin braust út þremur mánuðum eftir þetta ferðalag, og sinnti Bell mörgun störfum í stríðinu fyrir breska herinn. Gertrude skrifaði ritgerð um araba eftir stríðið sem heitir „Self-Determination in Mesopotamia“, og þessi ritgerð gerði það að verkum að hún var boðin á friðarráðstefnuna í París 1919.[5] 1920 gaf Þjóðarbandalagið Bretlandi umboð yfir Mesópótamíu-svæðinu.[6]

Starf í Írak og síðustu árin hennar breyta

Á Kaíró-ráðstefnunni sem var haldin 1920, voru landmæri Íraks mynduð. Á ráðstefnunni var Gertrude Bell og meðal annars Winston Churchill, og eiga þau, meðal þeirra sem voru með, heiðurinn á hönnun Íraks.[5] Bretar hjálpuðu syni Sharifsins af Mekka (Hussein bin Ali), Amir Faisal að verða tilnefndur konungur Íraks.[6] Gertrude Bell flutti til Baghdad og mótaði konunginn Faisal I. Bell studdi mikið við Faisal frá upphafi, og hélt áfram að styðja hann til dauðadags. Frá 1923, þá skipti hún vinnunni sinni í tvennt: opinber vinna vegna stöðu sinnar sem „Austurlandaritari“ (e. Oriental Secretary), og að sjá um deild fornleifamuna Íraks, í safni sem hún hjálpaði að stofna. [7]

Bell þjáðist af nokkrum pestum og veikindum seinustu árin sín. Hún fór til Englands í seinasta skiptið í 1925. Það er sagt að ástæða hennar fyrir sleppa því að fara til Englands 1926 var vegna þess að hún væri viss um að læknarnir í Englandi mundu ekki hleypa henni aftur til Íraks vegna veikinda. Þann 11.júlí 1926, tók Gertrude Bell stóran skammt af svefnlyfum, fór að sofa, og vaknaði ekki aftur. Hún dó snemma morguns 12. júlí 1926, tveimur dögum frá 58 ára afmæli sínu.[7] Ekki er enn vitað hvort hún gerði það viljandi eða ekki.[8]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 Bullock, David L., Bell, Gertrude“, Women in World History. A Biographical Encyclopedia. Vol.2, Ba-Brec, ritstýrt af Anne Commire og Deborah Klezmer (Bandaríkin, 1999) bls.370
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Bullock, David L., Bell, Gertrude“, Women in World History. A Biographical Encyclopedia. Vol.2, Ba-Brec, ritstýrt af Anne Commire og Deborah Klezmer (Bandaríkin, 1999) bls.372
  3. Bullock, David L., Bell, Gertrude“, Women in World History. A Biographical Encyclopedia. Vol.2, Ba-Brec, ritstýrt af Anne Commire og Deborah Klezmer (Bandaríkin, 1999) bls.372
  4. 4,0 4,1 Bullock, David L., Bell, Gertrude“, Women in World History. A Biographical Encyclopedia. Vol.2, Ba-Brec, ritstýrt af Anne Commire og Deborah Klezmer (Bandaríkin, 1999) bls.373
  5. 5,0 5,1 Mead, Wendy, „Gertrude Bell: Queen of the Desert“, Biography.com, 13. júlí 2016. Sótt 13. febrúar 2019.
  6. 6,0 6,1 Bullock, David L., Bell, Gertrude“, Women in World History. A Biographical Encyclopedia. Vol.2, Ba-Brec, ritstýrt af Anne Commire og Deborah Klezmer (Bandaríkin, 1999) bls.374
  7. 7,0 7,1 Bullock, David L., Bell, Gertrude“, Women in World History. A Biographical Encyclopedia. Vol.2, Ba-Brec, ritstýrt af Anne Commire og Deborah Klezmer (Bandaríkin, 1999) bls.375
  8. „Gertrude Bell“. Britannica Academic, Encyclopædia Britannica, 10. júlí 2018. Sótt 13 febrúar 2019.