T. E. Lawrence
Thomas Edward Lawrence (16. ágúst 1888 – 19. maí 1935) var breskur fornleifafræðingur, hermaður, erindreki og rithöfundur. Hann er best þekktur fyrir aðkomu sína í hernaðaraðgerðum Breta í Sínaí og Palestínu og uppreisn Araba gegn Tyrkjaveldi í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann varð frægur á heimsvísu undir gælunafninu Arabíu-Lawrence vegna hernaðaraðgerða sinna og lifandi frásagna hans af þeim, sérstaklega eftir að kvikmynd var gerð um líf hans árið 1962 með Peter O'Toole í aðalhlutverki.
Lawrence fæddist utan hjónabands í Tremadog, Wales árið 1888. Foreldrar hans voru Thomas Chapman, ensk-írskur aðalsmaður frá Westmeath, og Sarah Jonner, skosk yfirþerna. Chapman hafði skilið óformlega við konu sína og fjölskyldu í Írlandi til að búa með Junner og tóku þau saman upp nafnið Lawrence. Árið 1896 fluttu hjónin til Oxford ásamt syni sínum þar sem hann gekk í háskóla og nam sagnfræði á árunum 1907–1910. Á árunum 1910 til 1914 vann Lawrence sem fornleifafræðingur, aðallega í Carchemish þar sem nú er Sýrland.
Fljótlega eftir byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar bauð Lawrence sig fram í breska herinn og var staðsettur í Egyptalandi. Árið 1916 var hann sendur til Arabíu til að safna upplýsingum og blandaðist fljótt inn í Arabauppreisnina sem milliliður breska hersins og Arabanna. Lawrence vann náið með byltingarleiðtoganum Faisal emír og tók þátt í og leiddi ýmsar herferðir gegn her Tyrkjaveldisins. Herferðunum lauk með hertöku á Damaskus í október 1918.
Eftir stríðið fékk Lawrence starf hjá utanríkisráðuneytinu og vann bæði með bresku ríkisstjórnini og með Faisal. Árið 1922 dró hann sig úr sviðsljósinu og gegndi herþjónustu, aðallega í lofthernum en einnig í hernum til stutts tíma. Á þessum árum skrifaði hann og birti sitt þekktasta verk, Sjö súlur viskunnar (Seven Pillars of Wisdom), þar sem hann segir frá þátttöku sinni í Arabauppreisninni. Hann þýddi einnig ýmsar bækur á ensku og skrifaði bókina The Mint, sem fjallar um störf hans í breska flughernum. Einnig var Lawrence í sambandi við ýmsa fræga listamenn, rithöfunda og stjórnmálamenn og átti þátt í þróun vélknúinna björgunarbáta.
Lawrence lést eftir slys á vélhjóli árið 1935.
Ímynd Lawrence byggðist að miklu leyti á skrifum bandaríska fréttamannsins Lowell Thomas og á Sjö súlum viskunnar, en margir sagnfræðingar telja að Lawrence hafi farið frjálslega með staðreyndir við rit þeirrar bókar.[1]
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „T. E. Lawrence“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. júní 2017.