Georg 4. (Georg Ágústus Friðrik; 12. ágúst 1762 – 26. júní 1830) var konungur Stóra-Bretlands og Írlands og Hanover frá dauða föður síns, Georgs 3. þann 29. janúar 1820 til dauðadags. Frá 1811 hafði hann verið ríkisstjóri Bretlands vegna geðkvilla föður síns.

Skjaldarmerki Hannover-ætt Konungur Stóra-Bretlands og Írlands
Hannover-ætt
Georg 4.
Georg 4.
Ríkisár 29. janúar 182026. júní 1830
SkírnarnafnGeorge Augustus Frederick
Fæddur12. ágúst 1762
 Höll heilags Jakobs, London
Dáinn26. júní 1830 (67 ára)
 Windsor-höll, Windsor, Englandi
GröfKapella Heilags Georgs, Windsor-höll
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Georg 3.
Móðir Karlotta af Mecklenburg-Strelitz
DrottningKarólína af Brúnsvík
BörnKarlotta prinsessa af Wales

Georg 4. lifði lúxuslífi og hafði mikil áhrif á tísku ríkisstjóratímans auk þess sem hann fann upp á ýmsum nýjum tómstundaiðjum. Hann réð arkitektinn John Nash til að byggja nýja konungshöll (Royal Pavilion) í Brighton og endurbæta Buckinghamhöll. Hann réð einnig Sir Jeffry Wyatvile til að endurbyggja Windsor-kastala.

Persónutöfrar Georgs og háttvísi urðu til þess að fólk kallaði hann „fremsta herramann Englands“ en hann varð þó óvinsæll vegna slæms sambands síns við föður sinn og eiginkonu sína, Karólínu af Brúnsvík. Hann bannaði Karólínu að mæta á krýningarathöfn sína og bað ríkisstjórn sína að setja óvinsæl lög árið 1820 svo hann gæti skilið við hana, sem tókst þó ekki.

Mestalla stjórnartíð Georgs sem ríkisstjóri og konungur fór Liverpool lávarður með flest völd sem forsætisráðherra. Ráðherrum Georgs þótti hann eigingjarn, óáreiðanlegur og óábyrgur. Hann var ætíð undir miklum áhrifum frá vinum sínum.[1] Skattgreiðendur reiddust honum fyrir eyðslusemi hans á meðan á Napóleonsstyrjöldunum stóð. Hann var lélegur leiðtogi á óeirðartímum og reyndi ekki að vera þegnum sínum góð fyrirmynd. Ríkisstjórn Liverpool lávarðs náði fram fullnaðarsigri Breta, samdi um skilmálana og reyndi að leysa úr samfélags- og efnahagsörðugleikum sem fylgdu í kjölfarið. Eftir að Liverpool settist í helgan stein neyddist Georg til þess að samþykkja að kaþólikkum yrðu veitt borgaraleg réttindi á ný þvert gegn vilja sínum. Eina skilgetna barnið hans, Karlotta prinsessa af Wales, lést á undan honum árið 1817 og því varð bróðir hans, Vilhjálmur, konungur eftir hans dag.

Tilvísanir

breyta
  1. Baker, Kenneth (2005). „George IV: a Sketch“. History Today. 55 (10): 30–36.


Fyrirrennari:
Georg 3.
Konungur Bretlands og Írlands
(1820 – 1830)
Eftirmaður:
Vilhjálmur 4.