Robert Jenkinson, jarl af Liverpool

Robert Banks Jenkinson, annar jarlinn af Liverpool, (7. júní 17704. desember 1828) var breskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Bretlands frá 1812 til 1827. Hann leiddi Bretland í Napóleonsstyrjöldunum þegar gæfan snerist gegn Napóleon og Frakkland var sigrað. Liverpool hafði áður verið utanríkisráðherra í ríkisstjórnum Williams Pitt yngri og Henry Addington.

Jarlinn af Liverpool
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
8. júní 1812 – 9. apríl 1827
ÞjóðhöfðingiGeorg 3.
Georg 4.
ForveriSpencer Perceval
EftirmaðurGeorge Canning
Persónulegar upplýsingar
Fæddur7. júní 1770
London, Englandi
Látinn4. desember 1828 (58 ára) Kingston upon Thames, Surrey, Englandi
StjórnmálaflokkurTorýar
MakiLouisa Hervey (g. 1795; d. 1821)
Mary Chester (g. 1822)
ForeldrarCharles Jenkinson, fyrsti jarlinn af Liverpool; Amelia Watts
HáskóliChrist Church (Oxford)
Undirskrift

Þótt Liverpool hafi verið forsætisráðherra þegar Bretland vann Napóleonsstyrjaldirnar er hans aðallega minnst fyrir harðræði sitt eftir að þeim lauk. Árið 1819 gerði riddaraliðssveit árás á samkomu um 60.000–80.000 friðsamlegra mótmælenda í Manchester sem kröfðust umbóta í kjördæmakerfinu. Fimmtán manns létu lífið og 400–700 særðust. Eftir uppákomuna, sem var kölluð „Peterloo-fjöldamorðin“, setti ríkisstjórn Liverpool ýmis lög sem takmörkuðu borgaraleg réttindi, þar á meðal með heftingu á tjáningarfrelsi og takmörkun á rétti til réttarhalda og til að halda fjöldasamkomur. Lögin voru svo óvinsæl að misheppnað samsæri var gert til að koma Liverpool og öðrum ríkisstjórnarmeðlimum fyrir kattarnef.[1]

Á Vínarfundinum hvatti Liverpool Evrópuveldin til þess að banna þrælahald og heima fyrir hvatti hann til þess að lög sem bönnuðu verkamönnum að mynda stéttarfélög yrðu afnumin.[2] Mestallan feril sinn var Liverpool á móti því að kaþólikkar fengju borgaraleg réttindi á Bretlandi og sagði að endingu af sér árið 1827 þegar George Canning mælti formlega með því að ríkisstjórnin styddi lagafrumvarp þess efnis.

Á ráðherratíð Liverpool háði Bretland stríð við Bandaríkin í annað og síðasta sinn. Ríkisstjórn Liverpool bannaði einnig innflutning á hveiti með kornlögunum svokölluðu árið 1815 til þess að hækka verð á brauði í Bretlandi. Lögin leiddu til fjöldamótmæla og uppþota í London.[3]

Tilvísanir

breyta
  1. Ann Lyon (2003). Constitutional History of the UK. Routledge. bls. 319.
  2. W. R. Brock. Lord Liverpool and Liberal Toryism 1820 to 1827. CUP Archive. bls. 3.
  3. Hirst, F. W. (1925) From Adam Smith to Philip Snowden. A history of free trade in Great Britain, London: T. Fisher Unwin, bls. 15.


Fyrirrennari:
Spencer Perceval
Forsætisráðherra Bretlands
(8. júní 18129. apríl 1827)
Eftirmaður:
George Canning