Garnaveiki

Garnaveiki er sjúkdómur í sauðfé, geitum og nautgripum af völdum Mycobacterium paratuberculosis, sem er náskyld bakteríum sem valda berklum og holdsveiki í fólki. Til er bóluefni við garnaveiki.

SagaBreyta

Þjóðverjinn Heinrich A. Johne uppgötvaði veikina árið 1905. Veikin barst til Íslands árið 1933 með karakúlfé sem flutt var til landsins til kynbóta. Garnaveiki kom fyrst upp á Útnyrðingsstöðum í Suður-Múlasýslu árið 1938. Á 6. áratug 20. aldar fóru fram fjárskipti um nær allt land til að útrýma hinum svokölluðu karakúlsjúkdómum en ekki tókst að uppræta garnaveikinni því sýkillinn getur lifað lengi í jarðvegi, lengur en sá tími sem jarðir voru fjárlausar, og nautgripir geta borið veikina í sauðfé.

OrsökBreyta

Baktería veldur sjúkdómnum en hún dreifist með saur sýktra kind. Sýkingarhættan er mest í þröngum högum eða húsum. Sauðfé og geitur geta sýnt einkenni sjúkdómsins frá 1 árs aldri en nautgripir frá 2ja ára aldri. Einkennin sjást 1-2 árum eða lengur eftir sýkingu.

EinkenniBreyta

Sjúkdómurinn veldur ólæknandi bólgu í slímhúð garna og meðfylgjandi skituköstum. Kindin þrífst illa, verður sútarleg og horast niður þrátt fyrir ágætis átlyst. Það tekur hana nokkurn tíma að veslast upp og drepast. Kindur sem virðast heilbrigðar geta verið smitberar. Hraustur einstaklingur virðist stundum geta haldið aftur af sjúkdómseinkennum en aukið álag, t.d. meðganga eða léleg fóðrun leiða sjúkdómseinkenni í ljós.

AðgerðirBreyta

Garnaveiki er ólæknandi. Varnir geng henni felast í því að bólusetja öll ásetningslömb sem fyrst eftir að þau hafa verið valin. Bóluefnið inniheldur dauða garnaveikisýkla sem vekja upp mótefnamyndun hjá lambinu. Vel heppnuð bólusetning ver lambið langoftast ævilangt gegn garnaveiki. Hafi bólusetning heppnast vel skila ásetningsgimbrarnar mótefni gegn garnaveiki til væntanlegra lamba sinni með broddi en það virðist verja þau gegn smiti fram í september. Eftir það er öruggast að bólusetja sem fyrst, því frá þessum tíma eru lömbin óvarin gegn smiti alveg þar til 3-4 vikum eftir bólusetningu. Þar sem talin er hætta á garnaveikismiti er öruggast að taka lömbin sem fyrst frá fullorðnu fé og beita þeim á land sem hefur verið friðað fyrir sauðfé a.m.k. á síðastliðnu vori og forðast um megn að beita mjög þétt.

Á Íslandi bera sveitarstjórnir ábyrgð á að garnaveikibólusetningar séu framkvæmdar (þar sem það á við). Lengst af sáu sérstakir bólusetningarmenn í hverri sveit um að öll ásetningslömb væru bólusett. Á síðustu árum hafa héraðsdýralæknar á hverju svæði haft alla umsjón með garnaveikibólusetningum og yfirleitt framkvæmt þær sjálfir. Vel heppnuð bólusetning skilur eftir sig bólguhnút á bólusetningarstað (gjarnan í hárlausa blettinum aftan við bóg) sem finnst oftast ævilangt. Finnist engin merki um bólgu nokkrum vikum eftir bólusetningu er öruggast að sprauta lambið aftur.

Útbreiðsla á ÍslandiBreyta

Garnaveiki er nokkuð útbreidd um landið en þó hefur sumstaðar tekist að útrýma henni og annars staðar hefur hún aldrei komið upp. Þar sem lítil sem engin hætta er talin á garnaveiki, eru ásetningslömb ekki bólusett. Þau svæði þar sem ásetningslömb eru nú ekki bólusett gegn garnaveiki eru eftirtalin: Vestfjarðakjálkinn allur, Miðfjarðarhólf, Norðurland austan Skjálfandafljóts, Austurland allt að Berufirði og Suðurland frá Jökulsá á BreiðamerkursandiMarkarfljóti. Annarsstaðar eru ásetningslömb bólusett. Garnaveiki eru einna útbreiddust í Árnessýslu, Borgarfirði, einkum norðan Hvítár allt vestur í Kolbeinsstaðahrepp og í Skagafirði.