Jökulsá (Breiðamerkursandi)

Jökulsá er jökulá í Austur-Skaftafellssýslu, vatnsmikil (meðalrennsli 250-300 m³/s) en mjög stutt, aðeins um 500 metra löng. Hún rennur úr lóni, Jökulsárlóni, við sporð Breiðamerkurjökuls, sem er skriðjökull suður úr Vatnajökli. Áin er á miðjum Breiðamerkursandi, á milli Öræfasveitar og Suðursveitar.

Jökulsá á Breiðamerkursandi
Jökulsá á Breiðamerkursandi og brúin yfir hana
Map
Einkenni
UppsprettaJökulsárlón
Hnit64°02′49″N 16°10′54″V / 64.04689167°N 16.18158889°V / 64.04689167; -16.18158889
Árós 
 • staðsetning
Atlantshaf
Lengd0,5 km
Rennsli 
 • miðlungs250- 300 m3/sec
breyta upplýsingum

Jökulsá rann áður beint undan jöklinum, 1-1,5 km til sjávar, en um 1935 fór lónið að myndast við jökulröndina og upp úr 1950 fór það að stækka ört samfara því sem jökullinn hopaði vegna bráðnunar. Um leið hefur áin styst vegna brimrofs við ströndina og ef sú þróun heldur áfram má búast við að áin hverfi innan tíðar og lónið fyllist af sjó, en raunar gætir þegar sjávarfalla í því. Mun þá myndast þar fjörður inn að jökulröndinni. Reynt hefur verið að vinna gegn þessu með því að leitast við að hindra landbrot og hækka vatnsstöðu lónsins.

Áin var brúuð á árunum 1966-1967 og er brúin 108 metrar á lengd. Ferja var á ánni frá 1932 en áður var hún mjög erfið yfirferðar, bæði vegna straumhörku og jakaburðar, og oft ófær með öllu og drukknuðu margir þegar þeir reyndu að komast yfir hana. Ef ekki var hægt að ríða yfir ána, til dæmis þegar hún féll í einum straumhörðum ál fram í sjó en ekki í mörgum kvíslum, var oft gripið til þess að fara yfir jökulinn fyrir ofan upptök hennar en það var hættuspil þar sem hann var oft mjög sprunginn. Farið var að merkja leið yfir jökulinn um 1870.

Heimildir

breyta
  • Samtíningur um Jökulsá á Breiðamerkursandi og Jökulsárlón. Af vefnum thorbergur.is. Skoðað 20. desember 2011“.