Lucila Godoy Alcayaga (7. apríl 1889 – 10. janúar 1957), þekktari undir listamannsnafninu Gabriela Mistral var síleskt skáld, kennari, erindreki og húmanisti. Hún hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1945, fyrst rithöfunda frá Rómönsku Ameríku. Í ljóðum sínum fjallaði Mistral meðal annars um svikráð, ást, móðurást, sorg og hvernig sjálfsmynd Rómönsku Ameríku hefur þróast út frá áhrifum bæði Evrópumanna og amerískra frumbyggja. Mynd af Mistral er á síleskum 5.000 pesa seðlum.

Gabriela Mistral
Gabriela Mistral
Gabriela Mistral árið 1945.
Fædd: 7. apríl 1889
Vicuña, Síle
Látin:10. janúar 1957 (67 ára)
Hempstead, New York, Bandaríkjunum
Starf/staða:Skáld, kennari, erindreki
Þjóðerni:Sílesk
Virk:1914–1957
Bókmenntastefna:Húmanismi
Undirskrift:

Æviágrip

breyta

Lucila Godoy Alcayga fæddist árið 1889 í bænum Vicuña í dalnum Elqui í norðurhluta Síle.[1] Hún ólst upp í sveitinni og tók við skólakennarastöðu af föður sínum þegar hún var 15 ára. Á svipuðum tíma fór hún að skrifa greinar og birta þær í blöðum sem gefin voru út í grenndinni. Þegar Lucila var tæplega tvítug felldi hún hug til járnbrautarverkamanns að nafni Romelio Ureta en hann endurgalt ekki ást hennar og framdi síðar sjálfsmorð. Dauði hans og ástarsorg hennar áttu þátt í því að vekja skáldgáfuna hjá Lucilu.[2]

Lucila hóf kveðskap til að fá útrás fyrir tilfinningar sínar og sendi árið 1914 ljóðabálkinn Sonetos de la Muerte í kvæðasamkeppni í Santíagó undir dulnefninu Gabriela Mistral. Mistral vann keppnina og varð í kjölfarið þjóðþekkt og ástsælt ljóðskáld í Síle. Hún hélt áfram að yrkja og varð brátt fræg um alla Rómönsku Ameríku. Árið 1922 nálgaðist menningarstofnunin Instituto de la Españas í Bandaríkjunum hana og gaf út safn af ljóðum Mistral í bók með titlinum Desolacion. Í eftirmála bókarinnar baðst Mistral afsökunar fyrir það hve beisk kvæðin væru og hét því að snúa sér þaðan í frá að geðþekkari sviðum mannlegrar tilveru í kveðskap sínum. Í næstu ljóðum sínum fór Mistral meðal annars að kveða um náttúrufegurð Síle.[2]

Samhliða kveðskapnum hélt Mistral kennslustörfum áfram og var um hríð forstöðukona í kvennaskóla. Hún gat sér gott orð fyrir uppeldishæfileika sína og því ákvað menntamálaráðuneyti Mexíkó árið 1922 að ráða hana til að aðstoða við endurskipulagningu mexíkóska skólakerfisins og flytja erindaflokk um menntamál. Mistral ferðaðist um Ameríku, hélt fyrirlestra við fjölda háskóla og hlaut doktorsnafnbót í spænsk-amerískum bókmenntum frá háskólanum í Púertó Ríkó. Á sama tíma vann hún sem erindreki fyrir Þjóðabandalagið og var útnefnd af ríkisstjórn Síle sem sendifulltrúi til ýmissa landa, meðal annars Spánar, Portúgals, Frakklands og Argentínu.

Gabriela Mistral hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1945.[3] Hún var fyrsti Nóbelsverðlaunahafinn í þeim flokki frá Rómönsku Ameríku og fimmta konan sem hlaut bókmenntaverðlaunin.[1][4]

Mistral lést árið 1957 úr briskrabbameini. Á áttunda og níunda áratugnum reyndi hin íhaldssama einræðisstjórn Augustos Pinochet í Síle að nýta sér ímynd Mistrals og benda á hana sem dæmi um „undirgefni gagnvart yfirvöldum og samfélagsreglum“. Endanlega var flett ofan af hugmyndum Pinochet-stjórnarinnar um Mistral sem eins konar „skírlífan dýrling“ árið 2007 þegar sannað var með birtingu sendibréfa frá henni að hún hefði lengi átt í lesbískum ástarsamböndum og að Doris Dana, sem erfði eignir Mistrals, hefði verið kærasta hennar til langtíma áður en hún dó.[5][6]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Málfríður Einarsdóttir (1. apríl 1951). „Gabriela Mistral“. Melkorka. Sótt 9. júní 2019.
  2. 2,0 2,1 „Nóbelsskáldkonan Gabriela Mistral“. Samtíðin. 1. apríl 1946. Sótt 9. júní 2019.
  3. Hjörtur Pálsson (18. desember 1995). „Gabriela Mistral og bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir hálfri öld“. Morgunblaðið. Sótt 9. júní 2019.
  4. Sigurður Þórarinsson (20. nóvember 1945). „Gabriela Mistral fékk bókmenntaverðlaun Nóbels“. Þjóðviljinn. Sótt 9. júní 2019.
  5. „Gabriela Mistral: poeta y lesbiana“. El Tiempo. 7. júní 2003. Sótt 9. júní 2019.
  6. Gabriela Mistral (2009). Niña errante: Cartas a Doris Dana. Editorial Lumen. ISBN 9568856005.