Gísli Guðmundsson (1884-1928)

Gísli Guðmundsson gerlafræðingur (f. 6. júlí 1884 í Hvammsvík í Kjós, d. 26. september 1928 í Reykjavík) var líklega fyrsti menntaði örverufræðingurinn á Íslandi. Hann var einnig frumkvöðull í atvinnulífi Reykvíkinga, stofnaði og rak gosdrykkjagerðina Sanitas 1905 og Smjörlíkisgerðina h/f 1918. Hann var einnig hvatamaður eða aðili að stofnun margra annarra matvælaframleiðslufyrirtækja á árunum í kring um 1920, svo sem Ölgerðar Egils Skallagrímssonar, Brjóstssykurgerðarinnar Nóa og Mjólkurfélags Reykjavíkur[1]

Æviágrip breyta

Gísli var sonur Guðmunds Guðmundssonar bónda í Hvammsvík og síðar daglaunamanns í Reykjavík og Jakobínu Jakobsdóttur frá Valdastöðum í Kjós. Árið 1898 flutti hann til Reykjavíkur með foreldrum sínum, en dvaldi þó lengstum hjá Jóni Jónssyni útvegsbónda í Melhúsum á Seltjarnarnesi. Hann tók strax virkan þátt í félagslífi Seltirninga, var formaður Framfarafélags Seltirninga í 12 ár, sat í skólanefnd hreppsins og stofnaði kóra Framfarafélagsins og KFUM.

Nám í gosdrykkjagerð og stofnun Sanitas breyta

Um tvítugt hélt Gísli til náms í Svíþjóð. Hann lærði gosdrykkjagerð í Hälsans Laboratorium í Helsingjaborg og naut þar leiðsagnar Eriks Berselius efnafræðings og N. Viktorsen verkfræðings. Að námi loknu var hann tvo mánuði í Stokkhólmi þar sem hann kynnti sér gerð ávaxtasafa. Að því loknu hél Gísli heim og stofnaði gosdrykkjagerðina Sanitas ásamt þeim Jóni í Melshúsum og Guðmundi Ólafssyni óðalsbónda í Nýjabæ á Seltjarnarnesi. Að ráði Guðmundar Björnssonar, sem síðar varð landlæknir, var verksmiðjan reist á Seltjarnarnesi vegna þess að þar var brunnvatn mun hreinna en í Reykjavík og ólíklegra til að vera smitað taugaveikibakteríum. Þrátt fyrir það var allt vatn til gosdrykkjagerðarinnar gerilsneytt í loftþéttum katli[2].

Nám í örverufræði breyta

Hugur Gísla stóð mjög til þess að stofna ölgerð í tengslum við gosdrykkjagerðina og kom hann sér raunar upp litlu brugghúsi í tilraunaskyni. Hann rak sig þó fljótt á að hann skorti fullnægjandi þekkingu og kunnáttu í örverufræði. Hann sótti því í fyrstu undirbúningsnám hjá Ásgeiri Torfasyni efnaverkfræðingi og forstöðumanni Efnarannsóknastofu landsins og hélt síðan utan til náms í annað sinn árið 1910. Gísli fór víða í tæplega þriggja ára námsför sinni. Hann hóf nám í efnafræði og örverufræði ölgerðar í München, en síðan beindist hugur hans að sýklafræði og var hann meðal annars við rannsóknir á sárasóttarbakteríunni hjá August von Wasserman í Berlín. Hann starfaði einnig við bakteríurannsóknir í Düsseldorf, Vín, Liége og Kaupmannahöfn.

Gerlarannsóknastofa Gísla Guðmundssonar breyta

Þó Gísli hafi orðið sér úti um mikla bóklega og verklega þekkingu í örverufræði og fleiri greinum, þá hafði hann ekki lokið formlegu háskólaprófi. Hinn nýstofnaði Háskóli Íslands þáði því ekki boð Gísla um að hann tæki að sér verklega eða bóklega kennslu í sýklafræði fyrir læknanema þrátt fyrir að öðrum örverufræðimenntuðum einstaklingum væri ekki til að dreifa og Gísli nyti stuðnings landlæknis. Gísli hafði haft heim með sér frá Þýskalandi all nokkuð af rannsóknabúnaði og gat því komið sér upp sinni eigin rannsóknaraðstöðu, sem hann og gerði og birtust af og til auglýsingar í Læknablaðinu og Lögrjettu þar sem hann auglýsti þjónustu sína við gerla- og blóðrannsóknir.[1]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 Ólafur Grímur Björnsson. „Gísli Guðmundsson 1884-1928 Gerlafræðingur á Íslandi“. Bók Davíðs. Rit til heiðurs Davíð Davíðssyni eftir 35 ára starf sem prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landsspítala (ritstj.: Ólafur Grímur Björnsson). Síðara bindi, bls. 943-1000. Háskólaútgáfan. Háskóli Íslands. Reykjavík, 1996: . .
  2. Franzisca Gunnarsdóttir. „Sanitas, eitt elzta starfandi iðnfyrirtæki á landinu, áttrætt“. Morgunblaðið. 72 (270) (1985): 14-15.

Tenglar breyta