Ennio Morricone
Ennio Morricone (f. 10. nóvember 1928, látinn 6. júlí 2020) var ítalskt tónskáld, hljómsveitarstjóri og fyrrverandi trompetleikari. Hann samdi margs konar tónlist og er talinn eitt fjölhæfasta, fjölbreyttasta og tilraunagjarnasta tónskáld allra tíma.[1] Frá árinu 1946 samdi Morricone rúmlega 500 tónverk fyrir kvikmyndir og sjónvarp auk þess sem hann samdi um 100 verk í klassískum stíl. Um sjötíu af kvikmyndum Morricone unnu til verðlauna. Meðal þeirra má nefna allar kvikmyndir Sergio Leone frá og með myndinni A Fistful of Dollars (Per un pugno di dollari) og allar myndir Giuseppe Tornatore frá og með Cinema Paradiso. Morricone vann í fyrsta skipti til Óskarsverðlauna fyrir bestu tónlistina fyrir tónlist sína við myndina The Hateful Eight eftir Quentin Tarantino árið 2015.[2] Hann varð þá elsti maðurinn sem hefur nokkurn tímann unnið til Óskarsverðlauna sem keppt var um.
Ennio Morricone | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fæddur | Ennio Morricone 10. nóvember 1928 Róm, Ítalíu |
Dáinn | 6. júlí 2020 (91 árs) Róm, Ítalíu |
Uppruni | Ítalskur |
Ár virkur | 1946–2020 |
Stefnur | Kvikmyndatónlist, klassísk tónlist, djass, popptónlist, rokktónlist |
Hljóðfæri | Trompet |
Vefsíða | enniomorricone.org |
Æviágrip og ferill
breytaMorricone lék á trompet í djasshljómsveitum á fimmta áratuginum en varð síðan umsjónarmaður hljóðvers í eigu fyrirtækisins RCA Records og byrjaði að semja tónlist fyrir kvikmyndir og leikhús. Á ferli sínum hefur Morricone samið tónlist fyrir listamenn á borð við Paul Anka, Minu, Milvu, Zucchero og Andrea Bocelli. Frá 1960 til 1975 varð Morricone frægur um allan heim fyrir tónlist sína í spagettívestrum. Þar á meðal var tónlist hans í kvikmyndinni The Good, the Bad and the Ugly (Il buono, il brutto, il cattivo) árið 1966 einna frægust og er talin með frægustu kvikmyndatónlist allra tíma.[3] Tónlistarplötur Morricone úr myndinni Once Upon a Time in the West (C'era una volta il West) hafa selst í um 10 milljón eintökum og eru með söluhæstu kvikmyndatónlist á heimsvísu.[4] Morricone samdi einnig tónlist fyrir sjö vestra eftir Sergio Corbucci, Ringo-tvíleikinn eftir Duccio Tessari og myndirnar The Big Gundown (La resa dei conti) og Face to Face (Faccia a faccia) eftir Sergio Sollima.
Morricone hefur unnið í ýmsum kvikmyndageirum með leikstjórum á borð við Bernardo Bertolucci, Mauro Bolognini, Giuliano Montaldo, Roland Joffé, Roman Polanski og Henri Verneuil. Tónlist hans fyrir myndina The Mission (1986) hlaut gullverðlaun hljóðritunarfyrirækisins Recording Industry Association of America í Bandaríkjunum.[5] Hljómplatan Yo-Yo Ma Plays Ennio Morricone var í 105 vikur á topplista Billboard fyrir klassíska tónlist.[6]
Meðal frægustu laga Morricone eru „L'estasi dell'oro“, „Se Telefonando“, „Man with a Harmonica“, „Here's to You“, „Chi Mai“, „Gabriel's Oboe“ og „E Più Ti Penso.“ Frá 1966–1980 var Morricone einn helstu meðlima Il Gruppo, samtaka tilraunagjarnra tónskálda. Árið 1969 var Morricone einn stofnenda hljóðversins Forum Music Village. Morricone samdi tónlist fyrir margar Hollywood-stórmyndir frá og með áttunda áratugnum og vann með leikstjórum á borð við Don Siegel, Mike Nichols, Brian De Palma, Barry Levinson, Oliver Stone, Warren Beatty og Quentin Tarantino. Árið 1977 samdi Morricone opnunartónlist fyrir heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem haldin var næsta ár. Hann hélt áfram að semja tónlist fyrir evrópskar myndir og sjónvarpsþætti, þar á meðal Marco Polo, La piovra, Nostromo, Fateless, Karol: The Pope, The Man og En mai, fais ce qu'il te plait. Oft hefur verið vitnað í tónlist Morricone í sjónvarpsþáttum, þar á meðal í The Simpsons og The Sopranos, og í fjölmörgum kvikmyndum, þar á meðal Inglourious Basterds og Django Unchained.
Árið 2013 hafði Morricone selt rúmlega 70 milljónir hljómplatna um allan heim. Árið 1971 hlaut hann kvikmyndaverðlaunin Targa d'Oro fyrir að hafa selt um 22 milljónir platna á heimsvísu.[7] Morricone hlaut heiðursverðlaun Óskarsverðlaunanefndarinnar árið 2007 fyrir „stórkostleg og fjölbreytt framlög til kvikmyndatónlistar“. Hann hafði sex sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndatónlist áður en hann vann árið 2016 fyrir myndina The Hateful Eight. Hann vann einnig þrjú Grammy-verðlaun, þrjú Golden Globe-verðlaun, sex BAFTA-verðlaun, tíu David di Donatello-verðlaun, ellefu Nastro d'Argento-verðlaun, tvenn evrópsk kvikmyndaverðlaun, heiðursverðlaun Gullljónsins á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og sænsku Polarpris-verðlaunin árið 2010.
Morricone lést árið 2020, 91 árs að aldri.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Italian composer Morricone scores honorary Oscar“. Reuters.com. 23. febrúar 2007. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. október 2015. Sótt 9. júní 2018.
- ↑ „Quentin Tarantino says The Hateful Eight will have Ennio Morricone score“. www.theguardian.com. 11. júlí 2015. Sótt 9. júní 2018.
- ↑ „10 most influential film soundtracks“. Telegraph. Sótt 9. júní 2018.
- ↑ „Ennio Morricone Discusses 85th Anniversary Before Moscow Concert“. themoscowtimes.com. Sótt 9. júní 2018.
- ↑ „Pros score all-time classics“. variety.com. Sótt 31. desember 2015.
- ↑ „Billboard Classical Albums“. 18. mars 2006.
- ↑ „Che Fine Hanno Fatto I Best Sellers Di Ieri“ (PDF). Musicaedischi.it. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 22. júlí 2011. Sótt 19. desember 2012.