Dmítríj Medvedev

Fyrrum forseti og forsætisráðherra Rússlands
(Endurbeint frá Dímítrí Medvedev)

Dmítríj Anatoljevítsj Medvedevrússnesku: Дмитрий Анатольевич Медведев), fæddur 14. september 1965) er rússneskur stjórnmálamaður og fyrrum forseti Rússneska sambandsríkisins. Hann er jafnframt fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands. Hann fæddist í Sankti Pétursborg, þá nefnd Leningrad í fyrrum Sovétríkjunum.

Dmítríj Medvedev
Дмитрий Медведев
Forseti Rússlands
Í embætti
7. maí 2008 – 7. maí 2012
ForsætisráðherraVladímír Pútín
ForveriVladímír Pútín
EftirmaðurVladímír Pútín
Forsætisráðherra Rússlands
Í embætti
8. maí 2012 – 16. janúar 2020
ForsetiVladímír Pútín
ForveriVladímír Pútín
EftirmaðurMíkhaíl Míshústín
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. september 1965 (1965-09-14) (59 ára)
Leníngrad, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
StjórnmálaflokkurSameinað Rússland
MakiSvetlana Linnik (g. 1993)
Börn1
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Medvedev var sem óháður frambjóðandi (en þó studdur af Sameinuðu Rússlandi, stærsta stjórnmálaflokki landsins), kjörinn þriðji forseti Rússlands þann 2. mars 2008 með 71,25% atkvæða í almennum kosningum, og tók embætti þann 7. maí 2008. Þar áður hafði hann gengt stöðu fyrsta aðstoðarforsætisráðherra rússnesku ríkisstjórnarinnar frá 14. nóvember 2005. Áður var hann starfsmannastjóri Vladímírs Pútín forseta. Frá árinu 2000 gengdi hann einnig stjórnarformennsku í olíufyrirtækinu Gazprom. Framboð Medvedev var stutt af Pútín þáverandi forseta.

Hann gerði efnahagslega nútímavæðingu Rússlands sem sitt meginviðfangsefni sem forseti. Á forsetatíð hans háði Rússland einnig stutt stríð gegn Georgíu árið 2008. Medvedev gaf ekki kost á sér til endurkjörs að loknu kjörtímabili hans árið 2012 og studdi þess í stað endurkomu Pútíns á forsetastól. Eftir að Pútín varð forseti á gerðist Medvedev forsætisráðherra landsins. Medvedev sagði af sér sem forsætisráðherra ásamt ríkisstjórn sinni í janúar 2020 eftir að Pútín tilkynnti fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá landsins til að færa völd frá forsetaembættinu til þings­ins og rík­is­ráðs lands­ins.

Bakgrunnur

breyta
 
Dmítríj Medvedev tveggja ára árið 1967.

Dmítríj Medvedev fæddist í Sankti Pétursborg, þá nefnd Leníngrad í fyrrum Sovétríkjunum. Hann er sonur hjónanna Anatolíj Afanasevítsj Medvedev (f. 19. Nóvember 1926, d. 2004) prófessor við Tækniháskólann í Leníngrad, og móðir hans er Júlía Veníamínovna Medvedeva, (f. 21. nóvember 1939), fræðimaður og kennari við Kennaraskóla kenndan við AI Herzen, starfaði einnig sem leiðsögukona í Pavlovsk.

Móðurleggur Medvedev eru Úkraínumenn frá Belgorodfylki við landamæri Úkraínu. Í föðurlegg er hann afkomandi smábænda í Kúrsk.

Námsár

breyta

Medvedev var framúrskarandi nemandi í framhaldsskóla. Hann var félagi í Komsomol, ungliðahreyfingu Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, frá 1979 til 1991. Framtíðar eiginkona hans, Svetlana Línník var bekkjarfélagi hans. Hann útskrifaðist frá lagadeild Ríkisháskólans í Leníngrad árið 1987. Á háskólaárunum gerðist hann flokksfélagi í kommúnistaflokknum, var áhugasamur um íþróttir, einkum lyftingar, og aðdáandi ensku rokksveitanna Black Sabbath og Deep Purple.

Árið 1990 hlut hann gráðu í almennum lögum frá sama háskóla. Hann var nemandi Anatolíjs Aleksandrovítsj Sobtsjak, sem snemma varð í forystu fyrir lýðræðisumbætur í Ráðstjórnarríkjunum á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Medvedev gekk til liðs við lýðræðishreyfingu Sobtsjaks árið 1988 og stýrði í reynd kosningabaráttu Sobtsjaks á þing. Sobtsjak varð síðast fyrsti borgarstjóri Leníngrad og lét það verða eitt sitt fyrsta verk að endurnefna borgina Sankti Pétursborg. Hann var borgarstjóri 1991-1996. Hann var kennari og lærifaðir bæði Pútíns og Medvedev.

Fyrstu starfsár og stjórnmálaþátttaka fyrir forsetakosningar

breyta

Á árunum 1991 og 1999 sinnti Medvedev í viðskiptum auk starfa við Sankti Pétursborg. Hann gegndi einnig stöðu dósents við fyrrum háskóla sinn sem nú hafði fengið nýtt nafn Ríkisháskólinn í Sankti Pétursborg.

Á árunum 1991-1996 starfaði Medvedev sem lögfræðingur fyrir alþjóðanefnd borgarstjóraskrifstofu Sankti Pétursborgar sem Vladímír Pútín stýrði undir Sobtsjak borgarstjóra.

Árið 1993 varð Medvedev lögmaður fyrirtækisin Ilim Pulp Enterprise, sem var timburfyrirtæki í Sankti Pétursborg. Síðar var fyrirtækið skráð undir nafninu Fincell, þá að helmingshlut í eigu Medvedev. Árið 1998 var hann einnig kjörinn í stjórn Bratskiy LPK sem var pappírsverksmiðja. Hann vann fyrir Ilim Pulp allt til 1999.

 
Kosningastjórinn Medvedev og forsetaframbjóðandinn Pútín 27. mars 2000, daginn eftir kosningasigur Pútíns.

Medvedev varð einn nokkurra frá Sankti Pétursborg sem í nóvember 1999 leiddu Vladímír Pútín til æðstu valda í Moskvu. Medvedev var kosningastjóri hans. Í desember árið 2000 varð hann næstráðandi í starfsmannastjórn forsetaskrifstofunnar. Medvedev varð einn þeirra stjórnmálamanna sem stóðu Pútín forseta næst.

Sem hluta af herferð Pútíns gegn spillingu í Rússlandi, ólígarka og efnahagslegri óstjórn, skipaði hann Medvedev sem stjórnarformann hins valdamikla olíufyrirtækis Gazprom árið 2000. Þar var bundin endi á stórfelld skattsvik og eignamissi félagsins undir fyrrum spilltum stjórnendum. Medvedev starfaði síðar einnig sem varaformaður stjórnar á árunum 2001-2002 og varð formaður í annað sinn í 2002. Í október 2003 varð hann síðan starfsmannastjóri forsetaskrifstofu Pútin.

Í nóvember 2005 var hann skipaður af Pútín sem fyrsti aðstoðarforsætisráðherra og hlaut síðan ýmsar aðrar valdastöður.

Medvedev var á þessum tíma lýst sem prúðum manni, í meðallagi frjálslyndum pragmatista, færum stjórnanda og stuðningsmanni Pútín. Hann hefur þótt gagnrýninn á alræðisstjórnun fyrrum Ráðstjórnarríkjanna. Hann er einnig þekktur sem leiðtogi „lögfræðinga Sankti Pétursborgar“, sem var einn af pólitískum hópum sem mynduðust í kringum Pútín forseta. Hefur sá hópur reynst valdamikill í Rússlandi.

Forsetakosningar 2008

breyta
 
Dmítríj Medvedev og Vladímír Pútín árið 2008.

Eftir skipun hans sem fyrst aðstoðarforsætisráðherra, fóru margir stjórnmálaskýrendur að gera ráð fyrir því að Medvedev yrði tilnefndur sem arftaki Pútíns fyrir forsetakosningarnar 2008. Ýmsir aðrir voru nefndir en 10. desember 2007, tilkynnti Pútín forseti að hann styddi Medvedev sem eftirmann sinn. Það tilkynnti hann í kjölfar þess að fjórir stjórnmálaflokkar höfðu hvatt til framboðs Medvedev; Sameinað Rússland, Sanngjarnt Rússland, Landbúnaðarflokkur Rússlands og Borgaralegt Vald. Á flokksþingi stærsta flokks landsins, Sameinaðs Rússlands, 17. desember 2007 var kjörinn sem frambjóðandi þeirra. Hann skráði formlega forsetaframboð sitt 20. desember 2007 og tilkynnti að hann myndi stíga niður sem formaður Gazprom, þar sem samkvæmt lögum, sem forseti er ekki heimilt að halda önnur störf. aðra færslu.

 
Medvedev sver forsetaeið í Kremlinu þann 7. maí 2008.

Stjórnmálasérfræðingar sögðu val Pútín á eftirmanni myndi tryggja auðvelda kosningu, enda höfðu skoðanakannanir gefið til kynna að umtalsverður meirihluti kjósenda myndi velja þann er Pútín styddi. Fyrst verk Medvedev sem forsetaframjóðenda var tilkynna að hann myndi skipa Pútin í stöðu forsætisráðherra yrði hann kjörinn forseti.

Samkvæmt stjórnarskránni gat Pútín ekki gengt stöðu forseta í þriðja kjörtímabilið, en skipun hans í forsætisráðherrastöðu tryggði honum áfram mikil völd. Stjórnarskráin heimilar honum endurkjör síðar. Sumir töldu því að Medvedev yrði því einungis forseti til málamynda.

Í forsetakosningunum birtust myndir af þeim Medvedev og Pútin undir slagorðinu „Saman vinnum við“ („Вместе победим“).

Landskjörstjórn Rússlands hafnað forsetaframboðum stjórnarandstöðuleiðtoganna Kasparov og Kasjanov. Þremur frambjóðendum sem var leyft að taka þátt sem ekki voru taldir ógna framboði Medvedev og gerði lítið til að ógna honum. Hann neitaði ma. að taka þátt í pólitískum umræðum við aðra frambjóðendur.

Í framboðsræðum talaði Medvedev fyrir eignarrétti, afnámi reglugerðarhafta, lægri sköttum, óháðu dómskerfi, baráttu gegn spillingu, og talaði fyrir persónulegu frelsi manna í stað ánauðar. Medvedev var á þessum tíma gjarnan talinn frjálslyndari en fyrirrennari hans Pútin.

 
Medvedev forseti í heimsókn hjá Barack Obama forseta Bandaríkjanna árið 2010.

Medvedev var kjörinn forseti Rússlands 2. mars 2008, með stuðningi 70,28% atkvæða. Kjörsókn var yfir 69,78%.

Sanngirni forsetakosninganna varð ýmsum vestrænum eftirlits- og embættismönnum ágreiningsefni. Þannig sagði fulltrúi Evrópuráðsins, Andreas Gross, að kosningarnar hefðu „hvorki verið frjálsar né sanngjarnar“. Vestrænir eftirlitsmenn sögðu ójafna skráningu frambjóðanda óeðlilega og að Medvedev hefði einokað alla sjónvarpumfjöllun.

Forsetatíð (2008-2012) og forsætisráðherratíð (2012-2020)

breyta

Forsetatíð Medvedevs var óvenjuleg meðal rússneskra leiðtoga því forveri hans, Vladímír Pútín, hélt áfram að gegna mikilvægu hlutverki sem forsætisráðherra í stjórn hans og naut mikilla valda sem slíkur. Fyrri forsætisráðherrar Rússlands höfðu jafnan verið algjörlega undirgefnir þjóðhöfðingjanum en valdatíð Medvedevs einkenndist þess í stað af nokkurs konar tvímenningabandalagi þeirra Pútíns. Haft var fyrir satt meðal flestra stjórnmálaskýrenda að annaðhvort væru þeir Medvedev og Pútín báðir jafnvoldugir í stjórninni eða þá að Pútín væri í reynd enn æðsti valdsmaður Rússlands og Medvedev forseti væri lítið meira en staðgengill eða strengjabrúða hans.[1][2]

Snemma á forsetatíð Medvedevs árið 2008 háði Rússland stutt stríð við nágrannaríki sitt, Georgíu. Stríðið hófst eftir að Georgíumenn sendu herlið inn í héraðið Suður-Ossetíu, sem er talið til yfirráðasvæða Georgíu en hefur haldið fram sjálfstæði og í reynd ráðið sér sjálft frá tíunda áratugi síðustu aldar. Rússar brugðust við með því að senda eigin herafla inn í Suður-Ossetíu til að reka Georgíumenn burt og réðust síðan inn í Georgíu sjálfa í gegnum Suður-Ossetíu og Abkasíu. Á fimm dögum unnu Rússar sigur gegn Georgíumönnum og hertóku bæði Abkasíu og Suður-Ossetíu. Í kjölfar stríðsins átti Medvedev fund með forsetum Abkasíu og Suður-Ossetíu og viðurkenndi sjálfstæði beggja ríkjanna, fyrstur þjóðarleiðtoga.[3] Ríkin Níkaragva, Venesúela, Nárú og Sýrland hafa síðan fylgt fordæmi Medvedevs og viðurkennt sjálfstæði ríkjanna tveggja en annars hefur alþjóðasamfélagið enn haldið áfram að skilgreina þau sem hluta af Georgíu.

Þegar kjörtímabili Medvedevs lauk árið 2012 sóttist hann ekki eftir endurkjöri. Þess í stað mælti hann með því á flokksþingi stjórnarflokksins, Sameinaðs Rússlands, að Pútín yrði forsetaefni flokksins á ný. Pútín vann auðveldan sigur í kosningunum og skiptist á hlutverkum við Medvedev: Pútín varð forseti á ný og Medvedev varð forsætisráðherra. Rússar kölluðu þessi hlutverkaskipti „hrókeringu“ innan ríkisstjórnarinnar.

Medvedev baðst lausnar ásamt ríkisstjórn sinni þann 15. janúar árið 2020 eftir að Pútín tilkynnti fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá landsins. Breytingarnar, sem áætlað er að verði lagðar í þjóðaratkvæðagreiðslu, eiga að færa völd frá forsetaembættinu til þings­ins og rík­is­ráðs lands­ins. Í stað Medvedevs útnefndi Pútín ríkisskattstjórann Míkhaíl Míshústín nýjan forsætisráðherra.[4]

Einkahagir

breyta
 
Dmítríj Medvedev með eiginkonu sinni Svetlönu Medvedevu.

Nokkrum árum eftir útskrift úr framhaldsskóla kvæntist Medvedev æskuvinkonu sinni og kærustu úr framhaldsskóla, Svetlönu Vladímírovnu Medvedevu. Svetlana og hann eiga soninn Ílja (f. 1995).

Medvedev er mikill aðdáandi ensks rokks. Uppáhaldshljómsveitirnar eru Led Zeppelin, Black Sabbath, Pink Floyd og Deep Purple. Hann þykir álitlegur safnari upprunalegra vinyl platna þeirra og ku eiga allar upptökur Deep Purple. Hann sótti Deep Purple tónleika í Moskvu í febrúar 2008.

Þrátt fyrir þétta dagskrá tekur Medvedev alltaf klukkutíma á hverjum morgni og aftur að kvöldi í að synda 1.500 metra. Að auki lyftir hann lóðum. Hann skokkar, spilar skák og stundar jóga. Hann er líka aðdáandi fótboltaliðsins FC Zenit í Pétursborg. Og sem Moskvubúi styður hann fótboltaliðið PFC CSKA Moskva.

Hann þykir liðtækur áhugaljósmyndari. Í janúar 2010, var ein ljósmynda hans seld á góðgerðaruppboði fyrir 51 milljón rúblur ($1.750.000 USD).

Medvedev heldur fiskabúr á skrifstofu sinni og fóðrar fiskana sjálfur. Hann á fresskött af Siberíukyni sem heitir Dorofei. Sá stóð í slagsmálum við kött nágrannans, Míkhaíls Gorbatsjov, þannig að gelda þurfti Dorofei.

Medvedev talar ágæta ensku, en vegna siðareglna talar hann eingöngu rússnesku í viðtölum.

Medvedev er 162 cm á hæð.

Útgáfa

breyta

Medvedev hefur ritað tvær stuttar greinar um efni doktorsritgerðar sinnar í rússnesk lagatímarit. Hann er einnig meðhöfundur kennslubókar um borgaraleg lög fyrir háskólaútgáfu árið 1991. Hann er höfundur kennslubókar fyrir háskóla sem heitir „Spurningar um þróun Rússlands“ og kom út árið 2007, og fjallar um hlutverk rússneska ríkisins í félagslegri stefnumótun og efnahagsþróun. Hann er einnig meðhöfundur bókarinnar „Athugasemd um alríkislög".

Í október 2008, setti Medvedev af stað kremlin.ru enskt video-blogg Geymt 30 ágúst 2009 í Wayback Machine á forsetavef sínum. Frá 21. apríl 2009 hafa vídeoblogg hans hafa einnig verið birt á "blog_medvedev" sem er opinbert „LiveJournal“ Kremlverja.

Heimildir

breyta

Íslenskar heimildir

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Telja aðeins rými fyrir einn keisara í Rússlandi“. mbl.is. 10. desember 2008. Sótt 8. október 2021.
  2. „Samþykkja að lengja kjörtímabil forseta Rússlands“. Vísir. 10. desember 2008. Sótt 4. mars 2008.
  3. Halldór Arnarson (27. ágúst 2008). „Enn hitnar í kolunum“. Morgunblaðið. Sótt 21. febrúar 2019.
  4. Arnar Þór Ingólfsson (15. janúar 2020). „Rík­is­stjórn Rúss­lands sagði af sér“. mbl.is. Sótt 15. janúar 2020.


Fyrirrennari:
Vladímír Pútín
Forseti Rússlands
(2008 – 2012)
Eftirmaður:
Vladímír Pútín
Fyrirrennari:
Vladímír Pútín
Forsætisráðherra Rússlands
(2012 – 2020)
Eftirmaður:
Míkhaíl Míshústín