Charles-Maurice de Talleyrand-Périgord

Charles-Maurice de Talleyrand-Périgord (2. febrúar 1754 – 17. maí 1838), yfirleitt kallaður Talleyrand,[1] var franskur stjórnmálamaður og ríkiserindreki. Hann var af aðalsættum en var hvattur af fjölskyldu sinni til að gerast prestur í þeirri von að hann gæti tekið við af frænda sínum sem erkibiskup af Reims. Talleyrand var vígður sem prestur árið 1779 og gerður að biskupi Autun árið 1788. Hann sagði af sér sem prestur og lét skilið við guðfræðistörf á meðan á frönsku byltingunni stóð og hóf veraldlegan stjórnmálaferil.

Charles-Maurice de Talleyrand-Périgord
Forsætisráðherra Frakklands
Í embætti
9. júlí 1815 – 26. september 1815
ÞjóðhöfðingiLoðvík 18.
EftirmaðurArmand-Emmanuel du Plessis de Richelieu
Utanríkisráðherra Frakklands
Í embætti
15. júlí 1797 – 20. júlí 1799
Í embætti
22. nóvember 1799 – 9. maí 1807
Í embætti
13. maí 1814 – 19. mars 1815
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. febrúar 1754
París, Frakklandi
Látinn17. maí 1838 (84 ára) París, Frakklandi
ÞjóðerniFranskur
TrúarbrögðKaþólskur
HáskóliParísarháskóli
StarfPrestur, erindreki, stjórnmálamaður
Undirskrift

Talleyrand gegndi áhrifastöðum í frönskum stjórnmálum mestalla ævi sína í mörgum mismunandi ríkisstjórnum sem komust til valda á þessum tíma. Hann var fulltrúi klerkastéttarinnar á stéttaþinginu sem kallað var saman á lokaárum Búrbónaveldisins; forseti stjórnlagaþingsins og sendiherra í frönsku byltingunni; utanríkisráðherra í þjóðstjóraveldinu, konsúlaveldinu og fyrsta keisaraveldinu; forseti bráðabirgðastjórnar eftir fall Napóleons; utanríkis- og forsætisráðherra í hinu endurreista franska konungdæmi; og loks sendiherra á dögum júlíríkisins. Hann var viðstaddur krýningarathafnir Loðvíks 16. (1775), Napóleons 1. (1804) og Karls 10. (1825). Þjóðhöfðingjarnir sem Talleyrand vann fyrir treystu honum jafnan ekki en þótti hann þó afar gagnlegur.

Talleyrand var helsti erindreki Napóleons á árunum sem hernaðarsigrar keisarans þöndu ört út landamæri og áhrifasvæði Frakklands. Hann beitti sér þó helst fyrir friði svo Frakkland gæti tryggt sér stjórn á landvinningum sínum. Talleyrand tókst að semja um frið við Austurríki árið 1801 með Lunesville-sáttmálanum og við Bretland árið 1802 með Amiens-sáttmálanum. Honum tókst ekki að koma í veg fyrir að stríð brytist út á ný árið 1803 en var þó á móti átökum keisarans við Austurríki, Prússland og Rússland. Talleyrand sagði af sér sem utanríkisráðherra en var áfram í innsta hring Napóleons og vann að því að grafa undan áætlunum keisarans með leynilegum bréfaskiptum við Alexander 1. Rússakeisara og kanslara Austurríkis, Klemens von Metternich. Talleyrand vildi semja um frið svo hægt væri að tryggja að framförunum sem franska byltingin hafði náð fram yrði ekki snúið við. Napóleon hafnaði tillögum um friðarviðræður og eftir fall keisarans árið 1814 tók Talleyrand að sér endurreisn Búrbónaveldisins.

Talleyrand hafði mikil afskipti af efnahagsmálum og átti meðal annars frumkvæði að þjóðnýtingu kirkjueigna í Frakklandi. Hann er þó helst þekktur fyrir starf sitt sem ríkiserindreki og hlutverk sitt á Vínarfundinum, þar sem hann samdi um hagstæða skilmála fyrir hið sigraða Frakkland þótt landvinningar Napóleons væru hafðir af því. Talleyrand var maður Upplýsingarinnar, aðhylltist efnahagslega og samfélagslega frjálslyndishyggju og sóttist eftir því að koma á valdajafnvægi stóru Evrópuveldanna. Hann var rómaður fyrir greind sína og samningasnilli og fékk á sig viðurnefnið „halti djöfullinn“ (le diable boiteux). Talleyrand er umdeildur meðal fræðimanna og er ýmist sakaður um að hafa verið gerspilltur svikahrappur sem gróf undan hverri ríkisstjórninni á fætur annarri eða hugsjónamaður sem þjónaði Frakklandi á bak við hverja ríkisstjórn.

Tilvísanir

breyta
  1. Jean-Marie Pierret, Phonétique historique du français et notions de phonétique générale, Peeters, Louvain-la-Neuve, 1994, bls. 104.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forsætisráðherra Frakklands
(9. júlí 181526. september 1815)
Eftirmaður:
Armand-Emmanuel du Plessis de Richelieu