Júlíus Caesar

(Endurbeint frá Caesar)
„Sesar“ vísar hingað, sjá Sesar (mannsnafn) fyrir karlmannsnafnið.

Gaius Julius Caesar (latína: CAIVS IVLIVS CAESAR) eða Júlíus Cæsar, stundum ritað Júlíus Sesar, 12. eða 13. júlí um 100 f.Kr.[1]15. mars 44 f.Kr.) var rómverskur herforingi, sagnaritari, stjórnmálamaður og síðar einvaldur í Róm.

Brjóstmynd af Cæsari

Æska breyta

Gaius Júlíus Cæsar var fæddur í Róm um 100 f.Kr. Hann var af júlísku ættinni sem var ein tignasta og elsta patríseaættin í Róm til forna. Cæsar var upphaflega auknefni manna af júlíönsku ættinni. Síðan hefur nafnbótin Cæsar verið höfð um alla Rómarkeisara. Faðir Cæsars hét einnig Gaius Júlíus Cæsar og var meðal annars landstjóri í skattlandinu Asiu. Móðir Cæsars hét Aurelia Cotta. Föðursystir Cæsars, Júlía, var eiginkona Gaiusar Maríusar sem var einn valdamesti maður Rómar þegar Cæsar var að vaxa úr grasi. Árið 85 f.kr. lést faðir Cæsars og varð hann þá höfuð fjölskyldunnar. Stuttu síðar giftist Cæsar Corneliu sem var dóttir Luciusar Corneliusar Cinna, en hann var helsti stuðningsmaður Gaiusar Mariusar. Í æsku Cæsars geisaði borgarastríð á milli Mariusar og Luciusar Corneliusar Sullu. Marius lést árið 86 f.Kr. en stuðningsmenn hans héldu völdum í Rómaborg til ársins 83 f.Kr., en þá hertók Sulla borgina og tók sér alræðisvald. Sulla hóf að taka fjölmarga stuðningsmenn Mariusar af lífi og senda aðra í útlegð. Tengsl Cæsars við Marius settu hann í hættu og var honum skipað að skilja við Corneliu en Cæsar neitaði og flúði borgina. Cæsar gekk í herinn og hélt til Anatólíu, en Rómverjar stóðu þá í landvinningum á því svæði.

Leiðin til valda breyta

Upphaf stjórmálaferils breyta

Eftir að Sulla lést, árið 78 f.Kr., sneri Cæsar aftur til Rómaborgar þar sem hann klifraði hinn hefðbundna metorðastiga ungra aðalsmanna í Róm (cursus honorum). Til að byrja með einbeitti hann sér að lagalegum málaflutningi, þar sem hann varð þekktur fyrir ræðusnilli. Árið 76 f.Kr. fæddist Júlía dóttir Cæsars og Corneliu en árið 69. f.Kr. lést Cornelia. Árið 68 f.Kr. var Cæsar kosinn kvestor. Árið 63 f.Kr. tryggði hann sér embætti yfirmanns trúarleiðtoga í Róm, Pontifex maximus, en því embætti hélt hann til dauðadags. Árið 62 f.Kr. var hann kosinn pretóri og ári seinna landsstjóri í Hispaniu Ulterior (í núverandi suð-austurhluta Spánar).

Ræðismannsár breyta

Árið 60. f.Kr. var Cæsar kjörinn ræðismaður fyrir árið 59 f.Kr. Á hverju ári voru kjörnir tveir ræðismenn og var samstarfsmaður Cæsars maður að nafni Marcus Bibulus. Cæsar og Bibulus náðu ekki vel saman enda var Bibulus hluti af íhaldssama hluta öldungaráðsins, optimates, á meðan Cæsar tilheyrði frjálslynda hlutanum, populares. Ræðismannsár þeirra einkenndist af miklum deilum þeirra á milli um hin ýmsu mál, en ljóst er að Cæsar var mun valdameiri og talað var um að árið 59 f. Kr. hafi verið ræðismannsár Júlíusar og Cæsars en ekki Bibulusar og Cæsars. Cæsar fetaði í fórspor bræðranna Tiberiusar og Gaiusar Gracchusar og lét afhenda ríkisjarðir til fátækra og hermanna og lækka tollheimtu í skattlöndum um þriðjung.[2] Til að almenningur gæti fylgst með gerðum öldungaráðsins lét Cæsar gefa út blöð sem voru fest á veggi borgarinnar.

Þremenningasamband breyta

Árið 59 f.Kr. myndaði Cæsar þremenningasamband með Gnæusi Pompeiusi og Marcusi Liciniusi Crassusi. Markmiðið með bandalaginu var að ná fram öllum helstu baráttumálum þremenninganna með því nota auð, völd og vinsældir þeirra svo hægt væri að sniðganga verklagsreglur lýðveldisins og allar þær hindranir og tafir sem þær gátu haft í för með sér. Crassus var mesti auðjöfur Rómaborgar og lagði hann fram hið pólitíska auðvald til að múta, en hann var mjög umdeildur maður vegna ríkidæmis síns. Cæsar var í mikilli skuld við Crassus sem hafði að stórum hluta fjármagnað stjórnmálaferil Cæsars. Pompeius var vinsælasti og sigursælasti hershöfðingi Rómaveldis á þessum tíma. Bandalagið var treyst með því að Pompeius giftist Júlíu dóttur Cæsars og Cæsar giftist Calpurniu, dóttur eins helsta bandamanns Crassusar. Upphaflega var bandalagið leynilegt en stuðningur Pompeiusar og Crassusar við landúthlutanir Cæsars opinberaði samstarf þeirra. Eftir þetta náðu þremenningarnir fram flestum sínum málum, oft með valdníðslu og mútum. Andstæðingar þrístjórnarinnar áttu á hættu að missa líf sitt. Cæsar varð landstjóri í Gallíu árið 58 f.Kr. að loknu ræðismannsári sínu.

Hernám Gallíu breyta

 
Vercingetórix gefst upp fyrir Cæsari

Cæsar gersigraði Gallíu handan Alpa, núverandi Frakkland, á sjö árum 58-52 f.Kr. Tiltölulega auðveldur sigur Cæsars yfir Göllum átti sér langan aðdraganda. Gallastríðið var einskonar innbyrðis borgarastyrjöld þar sem tekist var á um samskipti við menningarsvið Miðjarðarhafsins en hluti gallísku þjóðarinnar var þegar orðinn þátttakandi í viðskiptakerfi Miðjarðarhafsins og því átti Cæsar öfluga bandamenn í Gallíu.

Bakgrunnur breyta

Þegar ræðismannsári í Rómaveldi lauk var vaninn að öldungaráðið úthlutaði fráfarandi ræðismanni landstjórn. Cæsari var úthlutað landstjórn yfir skóglendi Ítalíu. Cæsar varð móðgaður yfir þessu enda var markmið öldungaráðsins að takmarka völd hans. Cæsar fékk þessu hnekkt, í krafti þremenningasambandsins, og fékk stjórn yfir Norður-Ítalíu og Illyricum (norðvesturhluta Balkanskagans) og þar með stjórn yfir fjórum herdeildum. Cæsar var stórskuldugur eftir ræðismannsár sitt og hugðist bæta fjárhag sinn með hernaðar-ránsfeng. Upphaflega virðist hann hafa ætlað sér að gera innrás í Daciu (núverandi Rúmeníu) en í Gallíu var vaxandi ólga vegna ásóknar germannskra þjóða vestur og suður um Rín. Gallar skiptust í nokkra þjóðahópa og fjölmargar smáþjóðir sem vildu halda sjálfstæði sínu. Margir þjóðflokkar í Gallíu stunduðu viðskipti við Rómverja og voru undir áhrifum rómverskrar menningar. Borgarsamfélög voru farin að myndast í Gallíu og þar réðu höfðingjar sem voru siðmenntaðir og auðugir. Cæsar leit á þá sem bandamenn Rómverja og lagði áherslu á verndarhlutverk sitt fyrir þessar þjóðir gegn Germönum. Með þessu var hann líka að hindra að Gallar og Germanar færu að vinna saman, en ekki voru þó alltaf skýr skil á milli þess hvaða hópar töldust vera Gallar og hverjir voru Germanar.

Hernaður gegn Helvetum og Suebum breyta

Rómverjar höfðu þegar náð fótfestu í suðausturhluta Gallíu (Narbonensis) og stofnað þar skattland. Cæsar tók við stórn þess svæðis þegar hann hóf hernaðaraðgerðir sínar í Gallíu og notaði sem stökkpall fyrir frekari útþennslu Rómaveldis norður á bóginn. Cæsar myndaði fljótlega tvær nýjar herdeildir til viðbótar við þær fjórar sem hann hafði undir sinni stjórn. Helvetar voru Gallískur þjóðflokkur sem bjó í núverandi Sviss en vildi færa sig um set úr Ölpunum niður á láglendi þar sem Adeui þjóðflokkurinn bjó, en þeir voru bandamenn Rómverja. Cæsar ákvað að stöðva þessa þjóðflutninga og kom hluta herafla Helveta á óvart þegar hann sigraði þá í orrustunni við Arar. Heildarherafli Helveta var mun stærri en sá sem Cæsar hafði undir sinni stjórn og því hörfuðu Rómverjar en Helvetar eltu þá. Að lokum stöðvaði Cæsar undanhaldið og mætti Helvetum í orrustu við Bibracte. Rómverjar höfðu sigur eftir langan bardaga og Cæsar skipaði Helvetum að snúa aftur til síns heima.

Næst sneri Cæsar sér að Suebum sem var Germanskur þjóðflokkur upprunninn frá Germaníu handan Rínar. Ariovistus, höfðingi Sueba, hafði leitt þjóð sína til Gallíu og fengið þar landsvæði hjá gallískum bandamönnum sínum. Þegar Ariovistus heimtaði meira land sneru Gallar sér ti Cæsars og báðu hann um aðstoð. Cæsar skipaði Ariovistusi að stöðva alla fólksflutinga yfir Rín en þegar hann varð ekki við því lét Cæsar til skarar skríða. Ariovistus var á leið til borgarinnar Vesontio (núverandi Besançon) en Cæsar náði henni á sitt vald áður en Germanirnir komust þangað og mætti Ariovistusi svo í bardaga eftir misheppnaðar samningaviðræður. Cæsar vann orrustuna og Suebar flúðu aftur austur yfir Rín.

Belgica, Germanía og Britannía breyta

Árið 56 f.Kr. var þremenningasambandið endurnýjað og í kjölfarið tryggðu Pompeius og Crassus sér ræðismannsembættin árið 55 f.Kr. og að því loknu sáu þremenningarnir til þess að Crassus fékk landstjórn yfir skattlandinu Sýrlandi og Pompeius yfir Spáni. Einnig fékk Cæsar fimm ára framlengingu á landstjórn sinni í Gallíu.

Enn var Cæsar að hjálpa bandamönnum sínum þegar hann réðst gegn Belgum, sem bjuggu í Belgicu (u.þ.b. núverandi Belgíu). Belgar voru bandalag nokkurra þjóðflokka sem virðast hafa verið af blönduðum gallískum og germönskum uppruna. Sterkasti belgíski hópurinn var Nervi þjóðflokkurinn og átti Cæsar fullt í fangi með að sigra þá, en þegar hann var búinn að leggja þá að velli var eftirleikurinn auðveldur og Cæsar náði völdum yfir allri Belgicu. Að þessu loknu lét Cæsar hermenn sína byggja brú yfir Rín og hélt í herferð til Germaníu. Herferðinni var beint gegn Suebum en engir stórir bardagar voru háðir og Cæsar sneri til baka yfir Rín og lét eyðileggja brúnna. Einnig lagði Cæsar undir sig þjóðflokka við Ermasund og árið 55 f.Kr. fór hann með flokk yfir til Britanniu (núverandi Bretlands) án teljandi árangurs. Árið eftir fór Cæsar aftur í herferð til Britanniu og vann afgerandi sigur yfir britónskum þjóðflokki en sneri svo aftur til Gallíu. Þessar herferðir höfðu ekki nein varanleg áhrif á átökin í Gallíu en nýttust Cæsari í áróðursstríðinu sem hann háði gegn íhaldsöflum í öldungaráðinu því almenningur í Rómaborg hreifst af fréttum af sigrum í svo fjarlægu og framandi landi.

Uppreisn og eftirmál breyta

Þegar Cæsar hafði náð stuðningi mikils hluta gallísku þjóðarinnar ákvað hann að kalla saman þjóðþing og koma á fót ríkisstofnun sem gæti framkvæmt pólitískar skipanir hans. En hernaður Cæsars og liðs hans hafði verið miskunnarlaus og fjöldi manns tekinn af lífi og aðrir færðir í þrælkun. Því áttu margir harma að hefna og brátt gaus upp uppreisn gegn Rómverjum í Gallíu. Uppreisnarmenn með Vercingetórix, sem var höfðingjasonur, í broddi fylkingar, börðust út í sveitunum og skildu eftir sig sviðna jörð svo að Rómverjar gátu ekki aflað sér vista. En Cæsari, með aðstoð germansks riddaraliðs, tókst að bæla uppreisnina niður. Úrslitaorrusta var háð, árið 52 f.Kr., við Alesiu þar sem Rómverjar knúðu fram sigur eftir harðan bardaga. Að uppreisn Vercingetorixar lokinni hafði Cæsar alla Gallíu á sínu valdi og gerði hana að rómversku skattlandi.

Cæsar skrifaði bók um Gallastríðið sem stóð í 7 ár. Þar réttlætir hann gerðir sínar og er bókin varnarit vegna ásakana frá Róm um að hann hafi farið út fyrir verksvið sitt og verið með óþarfa hernað. Hann segir að sóknir hans og innlimun hafi verið varnarstríð til að bæla niður vandamál í landinu. „Bókin er áróðursrit, full af dulbúnu sjálfhóli til að sanna eigið ágæti, göfugmennsku, hógværð, ráðdeild og kænsku.“[3] Í Rómaveldi eftir Will Durant segir „Gallastríð Sesars er ekki einungis varnarrit: Skýrleiki frásagnarinna og hinn fágaði einfaldleiki hefur skipað því á tignarsess í latneskum bókmenntum“.

Borgarastríð breyta

 
Gosbrunnur með styttu af Cæsari

Þremenningasambandi slitið breyta

Á meðan dvöl Cæsars í Gallíu stóð liðaðist þremenningabandalagið í sundur. Árið 54 f.Kr. lést Júlía, dóttir Cæsars og eiginkona Pompeiusar, í barnsburði. Hjónaband Pompeiusar og Júlíu virðist hafa verið náið og hafði hjálpað til við að styrkja samband Pompeiusar og Cæsars. Crassus, sem hafði verð skipaður landssjóri í Sýrlandi, vildi ná frama og vinna lönd sem herforingi eins og Cæsar og Pompeius. Parþía lá austan við Sýrland og þangað hélt Crassus með her en féll í orrustunni við Carrhae 53. f.Kr. Segja má að andlát Júlíu og Crassusar hafi gert útaf við þremenningasambandið.

Átök við Pompeius breyta

Pompeius, sem var landsstjóri á Spáni, sat í Róm og hafði snúist á sveif með íhaldsmönnum (optimates) þar sem lýðssinnar (populares) voru farnir að verða uppvöðslusamir. Pompeius studdi öldungaráðið sem heimtaði að Cæsar myndi leysa upp her sinn er landsstjóratíma hans í Gallíu lyki. Cæsar neitaði þessu og árið 49 f.Kr. hélt hann með her sinn í heimildarleysi yfir Rubicon-fljót, sem skilur að Gallíu Císalpínu og Ítalíu. Við þessa ákvörðun sína mælti Cæsar hin fleygu orð: „teningunum er kastað“ [ālea iacta est] og átti við að nú skyldi hann gera upp við Pompeius. Cæsar hélt til Rómar með her sinn en Pompeius hörfaði til Balkanskaga þar sem hann kom sér upp herliði. 48. f.Kr. Hélt Cæsar á eftir honum og háðu þeir orrustu við Farsalos á Grikklandi og hafði Cæsar sigur. Pompeius flúði til Egyptalands þar sem hann var veginn af mönnum faraós þegar hann gekk þar á land; það gerðu þeir til að reyna að tryggja sér stuðning Cæsars.

Egyptland og frekari átök breyta

Cæsar sigldi til Alexandríu á eftir Pompeiusi. Þar reyndi hann að miðla málum systkinanna Ptólemajosar og Kleópötru sem gerðu bæði tilkall til krúnunar. Cæsar kom Ptólemajosi frá völdum og setti Kleópötru í hásætið. Kleópatra og Cæsar eignuðust sonin Ptólemajos Cæsar og gekk hann undir heitinu Cæsarion (Litli Cæsar). Cæsar sneri aftur til Rómar ásamt Kleópötru og Litla Cæsari eftir að hafa sigrað í orrustu í Litlu Asíu þar sem hann „kom, sá og sigraði“. Þessu næst sneri Cæsar sér að stuðningmönnum Pompeiusar og sigraði Metellus Scipio, Cato yngri og Juba konung í Númidíu í orrustunni við Thapsus í norður-Afríku. Synir Pompeiusar, Gnajus og Sextus, höfðu flúið til Hispaniu og Cæsar fór á eftir þeim. Hann mætti þeim í orrustunni við Munda og knúði fram sigur en sagðist síðar hafa þurft að berjast fyrir lífi sínu. Að þessu öllu loknu blés Cæsar til sigurgöngu í Róm og kom Kleópatra opinberlega fram við hlið hans. Cæsar var giftur Calpúrníu og bjó með henni í Róm en hann var líka í sambandi við Kleópötru sem bjó í einkahöll handan Tíberfljóts. Kleópatra vildi að Cæsar stofnaði konungsveldi Rómar og settist að í Alexandríu þar sem hún yrði drottning.

Einvaldur breyta

Árið 46 f.Kr. hafði Cæsar náð öllu Rómveldi á sitt vald og lét hann öldungaráði gefa sér alræðisvald til 10 ára. Tveimur árum síðar tók hann sér alræðisvald til æviloka sem urðu í mars sama ár. Cæsar var snjall stjórnmálamaður og kom á ýmsum umbótum í stjórnkerfinu. Hann fjölgaði í öldungaráðinu upp í 900 og tilnefndi nýja öldunga sem voru honum hliðhollir úr ýmsum þjófélagshópum og úr ýmsum skattlöndum. Hann lækkaði skatta í skattlöndum, skipti löndum milli hermanna sinna og fátækra. Hann reyndi að stemma stigu við þrælahaldi með lögum. Hann sendi tugi þúsunda fátækra borgara í Róm, sem landnema til nýlendna sinna. Hinum fátæklingunum veitti hann vinnu við byggingaframkvæmdir. Hann tók upp tímatal með egypsku sniði sem var nefnt, júlíanska tímatalið og er dagatalið þar með fellt að gangi sólarinnar í stað tunglsins. 365 dagar eru í árinu og hlaupársdagur fjórða hvert ár. Hann tryggði gengi gjaldmiðils með því að slá mynt úr gulli og setti reglur um vexti og gjaldþrot. Hann kom á skipulagi og stjórn í Rómaveldi.

Fyrirsát og víg Cæsars breyta

Nokkrir fyrrum félagar Cæsars óttuðust að hann ætlaði sér að afnema lýðveldið og skipa sjálfan sig konung. Þeir lögðu því á ráðin með að ryðja honum úr vegi áður en að það yrði um seinan. Í mars 44 f.Kr., þegar Cæsar var á leið inn í öldungaráðið, var honum veitt fyrirsát og hann stunginn til bana. Helstu samsærismenn um víg Cæsars voru Brútus og Cassius. Brutus var sonur Serviliu Cæpionis sem var hjákona Cæsars og var orðrómur á kreiki um að Brutus hafi í raun verið sonur Cæsar, en það verður að teljast ólíklegt þar sem Cæsar var líklega ekki nema fimmtán árum eldri en Brutus. Sagan segir að þegar Cæsar sá Brútus meðal samsærismanna hafi hann mælt á forngrísku „και συ τεκνον?“, sem útleggst á íslensku „einnig þú, barn?“.[4] en samkvæmt öðrum heimildum féll hann án þess að mæla orð.[5]Shakespeare leggur Cæsari í munn lokaorðin ódauðlegu „Et tu, Brute?“, sem er latína og þýða má „þú líka, Brútus?“.

Þegar erfðaskrá Cæsars var skoðuð, að honum látnum, kom í ljós að hann arfleiddi Gaius Octavíanus, frænda sinn, að auðæfum sínum. Cæsar var ömmubróðir Octavíanusar, sem var 18 ára þegar þetta gerðist. Octavianus og Marcus Antonius, einn af helstu bandamönnum Cæsars, sameinuðust gegn banamönnum Cæsars, en síðar urðu þeir sjálfir andstæðingar og tókust á um völdin. Það endaði með því að Octavianus stóð upp sem sigurvegari og varð fyrsti keisari rómaveldis.

Tilvísanir breyta

  1. Í flestum sögu- og handbókum er fæðingarár Caesars sagt vera 100 f.Kr. en sumir fornfræðingar hafa leitt líkur að því að hann hafi verið fæddur árið 101 f.Kr. eða 102 f.Kr. Sjá Ward, Heichelheim og Yeo (2003): 189, nmgr. 2.
  2. Durant, Rómaveldi bls. 204.
  3. Veraldarsaga Fjölva bls: 149.
  4. Súetóníus, Divus Julius LXXXII.
  5. Plútarkos, Caesar 66.6-7.

Heimildir breyta

 
C. Iulii Caesaris quae extant, 1678
  • Durant, Will, Rómaveldi, fyrra bindi (Reykjavík: Mál og menning, 1993).
  • Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríðar Harðardóttir (ritstj.), Íslenska alfræðiorðabókin þriðja bindi. (Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 1990).
  • Sigurður Ragnarsson, Heimsbyggðin, saga mannkyns frá öndverðu til nútíðar (Reykjavík: Mál og menning, 1995).
  • Þorsteinn Thorarensen, Veraldarsaga Fjölva, saga mannkyns frá steinöld til geimaldar, sjötta bindi. (Reykjavík: Fjölvaútgáfan, 1979).
  • Ward, Allen M., Fritz M. Heichelheim og Cedric A. Yeo, A History of the Roman People 4. útg. (Upper Saddle River, NJ: Prentice Hall, 2003).

Tengt efni breyta

Tenglar breyta

 
Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni