Cristina Fernández de Kirchner
Cristina Elisabet Fernández de Kirchner (fædd 19. febrúar 1953) er argentínskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forseti Argentínu. Hún var forseti frá 2007 til 2015, forsetafrú frá 2003 til 2007 og öldungadeildarþingmaður frá 2005 til 2007 og frá 2017 til 2019. Hún vann forsetakosningarnar 2007 með rúmum 45,29% atkvæða, sem rétt dugði til að sleppa við aðra umferð. Fyrirrennari Cristinu í embætti var eiginmaður hennar, Néstor Kirchner. Fernández de Kirchner var jafnframt varaforseti Argentínu frá 2019 til 2023.
Cristina Fernández de Kirchner | |
---|---|
Forseti Argentínu | |
Í embætti 10. desember 2007 – 10. desember 2015 | |
Varaforseti | Julio Cobos Amado Boudou |
Forveri | Néstor Kirchner |
Eftirmaður | Mauricio Macri |
Varaforseti Argentínu | |
Í embætti 10. desember 2019 – 10. desember 2023 | |
Forseti | Alberto Fernández |
Forveri | Gabriela Michetti |
Eftirmaður | Victoria Villarruel |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 19. febrúar 1953 Tolosa, La Plata, Argentínu |
Þjóðerni | Argentínsk |
Stjórnmálaflokkur | Réttlætisflokkurinn |
Maki | Néstor Kirchner (g. 1975; d. 2010) |
Börn | 2 |
Háskóli | Þjóðarháskólinn í La Plata |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaCristina Fernández fæddist þann 19. febrúar árið 1953 í borginni La Plata í Buenos Aires-héraði. Hún hóf ung þátttöku í stjórnmálum með Réttlætisflokknum (sp. Partido Justicialista), helsta stjórnmálaflokki perónista í Argentínu, og var kjörin á héraðsþingið í Santa Cruz í Patagóníu árið 1989. Fernández náði kjöri á öldungadeild argentínska þingsins fyrir Santa Cruz-hérað árið 1995 og var endurkjörin árið 2001.[1]
Árið 2003 náði eiginmaður Cristinu, Néstor Kirchner, kjöri til embættis forseta Argentínu og var Cristina talin eitt helsta aðdráttaraflið í kosningabaráttu hans.[2] Cristina varð því forsetafrú samhliða því sem hún sat áfram á öldungadeild þingsins. Vegna bata í efnahagslífi Argentínu á þessum tíma náðu forsetahjónin verulegri alþýðuhylli og var þeim meðal annars líkt við fræg stjórnmálapör á borð við Juan og Evu Perón eða Bill og Hillary Clinton. Cristina vann kjör á öldungadeildina árið 2005 fyrir Buenos Aires-kjördæmi sem frambjóðandi „Sigurfylkingarinnar“ (sp. Frente para la Victoria) á móti annarri fyrrum forsetafrú, Hildu González de Duhalde.[1]
Forseti Argentínu (2007–2015)
breytaÞrátt fyrir miklar vinsældir ákvað Néstor að bjóða sig ekki fram til endurkjörs árið 2007. Þess í stað ákvað hann að stíga til hliðar og styðja Cristinu til framboðs sem forsetaefni vinstriarms perónistahreyfingarinnar.[3] Haft var fyrir satt að Néstor ætlaði sér að bjóða sig aftur fram til forseta að loknu kjörtímabili Cristinu og að þessi hlutverkaskipti hjónanna væri í reynd tilraun þeirra til að framlengja valdatíð sína með því að stíga í kringum reglur sem meina forseta Argentínu að sitja fleiri en tvö kjörtímabil í röð.[1][4] Cristina var kjörin forseti Argentínu árið 2007 með um 46,3% atkvæða og hét því að viðhalda efnahagsstefnu eiginmanns síns.[5]
Á fyrsta kjörtímabili Fernández de Kirchner döluðu vinsældir hennar nokkuð vegna ýmissa deilumála. Hún var til dæmis gagnrýnd fyrir harkaleg viðbrögð stjórnar hennar við mótmælum argentínskra bænda gegn nýjum útflutningsskatti á sojabaunum. Þá olli það hneyksli og deilu við Bandaríkin þegar ferðataska full af Bandaríkjadollurum fannst á flugvelli í Argentínu sem fullyrt var að væri ólöglegt fjárframlag til kosningabaráttu Cristinu frá Hugo Chávez, forseta Venesúela.[6]
Haft var fyrir satt að Néstor Kirchner viðhéldi enn verulegum áhrifum á bak við tjöldin á forsetatíð eiginkonu sinnar. Ekkert varð þó úr endurkomu hans á forsetastól þar sem hann lést fyrir aldur fram árið 2010. Cristinu tókst að vinna sér inn hylli þjóðarinnar á ný á næstu árum og í könnun á kosningaárinu 2011 sögðust 58 prósent aðspurðra ánægðir með störf hennar.[7] Fernández de Kirchner bauð sig fram til endurkjörs árið 2011 og vann auðveldan sigur í fyrstu umferð með um 54.11% atkvæða.[8]
Á forsetatíð sinni kom Fernández de Kirchner á nýju kerfi almannatryggingabóta fyrir barnafjölskyldur, jók ríkisframlög til vísinda og rannsóknarmála, lögleiddi hjónaband samkynhneigðra og hóf réttarhöld yfir fjölda hermanna og annarra ráðamanna sem höfðu gerst sekir um mannréttindabrot í skítuga stríðinu.[9] Samkvæmt gögnum Alþjóðabankans tvöfaldaðist miðstétt Argentínu að stærð á forsetatíð hennar.[10]
Fernández de Kirchner lauk öðru kjörtímabili sínu árið 2015 og var ókjörgeng í kosningunum sem fóru fram það ár þar sem hún hafði þá gengt tveimur kjörtímabilum í röð. Í kosningunum báðu perónistar ósigur í fyrsta sinn í marga áratugi og hægrimaðurinn Mauricio Macri var kjörinn forseti Argentínu. Fernández de Kirchner sneri aftur á öldungadeild þingsins eftir að forsetatíð hennar lauk en skuggi spillingarmála úr stjórnartíð hennar fylgdi henni næstu árin. Árið 2015 skipaði dómari handtöku hennar vegna ásakana um að hún hefði sem forseti hylmt yfir meinta aðild Írans að hryðjuverkaárás á menningarsetur Gyðinga í Buenos Aires árið 1994. Þetta hefði hún gert til að tryggja hagstæða olíusamninga við Íran.[11] Næsta ár var hún jafnframt ákærð fyrir að hafa tekið við milljóna dollara mútufé á yfir 12 ára tímabili.[12]
Varaforseti Argentínu (2019–2023)
breytaÞrátt fyrir ásakanir um spillingu bjuggust margir við því að Fernández de Kirchner myndi aftur bjóða sig fram til forseta fyrir perónista árið 2019. Þess í stað ákvað hún að vera varaforsetaefni í forsetaframboði Alberto Fernández, sem hafði verið ígildi forsætisráðherra í forsetatíð Néstors. Þann 27. október 2019 vann Fernández forsetakosningarnar gegn Macri.[13] Talið er að vinsældir Cristinu hafi átt sinn þátt í kosningasigri Albertos, og margir kjósendur kváðust í reynd vera að greiða henni atkvæði líkt og hún væri sjálf í framboði til forseta fremur en varaforseta.[14] Fernández de Kirchner tók við embætti varaforseta Argentínu þann 10. desember 2019.
Þann 1. september 2022 varð Fernández de Kirchner fyrir morðtilræði þegar maður gekk upp að henni, beindi hlaðinni byssu að henni og tók í gikkinn. Byssan stóð hins vegar á sér og ekkert skot hljóp af og því slapp Fernández de Kirchner ómeidd.[15][16] Þúsundir Argentínumanna fjölmenntu á götur Búenos Aíres eftir tilræðið til að sýna varaforsetanum stuðning.[17]
Kirchner var þann 7. desember 2022 dæmd í sex ára fangelsi fyrir milljarðafjársvik og spillingu, auk þess sem henni var bannað að gegna opinberum embættum og taka þátt í stjórnmálastarfi framar. Hún þarf hins vegar ekki að afplána fangelsisdóminn þar sem hún nýtur friðhelgi sem þingmaður.[18]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 Ásgeir Sverrisson (18. febrúar 2007). „Frúin í stað forsetans?“. Morgunblaðið. Sótt 1. nóvember 2019.
- ↑ „„Veit að hann er þorpari og þjófur"“. Morgunblaðið. 29. apríl 2003. Sótt 1. nóvember 2019.
- ↑ Helgi Hrafn Guðmundsson (18. ágúst 2009). „Þegar fyrirmyndarnemandinn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kolféll“. Dagblaðið Vísir. Sótt 1. nóvember 2019.
- ↑ Ásgeir Sverrisson (3. júlí 2007). „Eiginkona Kirchners í forsetaframboð“. Morgunblaðið. Sótt 1. nóvember 2019.
- ↑ „Cristina Fernandez kjörin forseti Argentínu“. mbl.is. 28. október 2007. Sótt 1. nóvember 2019.
- ↑ Ingibjörg B. Sveinsdóttir (19. júlí 2008). „Rifrildi forsetahjóna og full ferðataska af dollurum“. 24 stundir. Sótt 1. nóvember 2019.
- ↑ „La imagen positiva de Fernández sube a niveles de comienzos de su Gobierno“. Agencia EFE.
- ↑ „Kirchner endurkjörin forseti“. mbl.is. 23. október 2011. Sótt 1. nóvember 2019.
- ↑ Harriet Alexander (10. desember 2015). „Argentina elections: Highs and lows of 12 years of the Kirchners“. The Telegraph. Afrit af uppruna á 11. október 2016. Sótt 6. október 2016.
- ↑ „Argentina duplicó su clase media en la última década, dice informe del Banco Mundial“. Alþjóðabankinn. Sótt 1. nóvember 2019.
- ↑ „Handtaka fyrrverandi forseta fyrirskipuð“. Fréttablaðið. 14. desember 2017. Sótt 1. nóvember 2019.
- ↑ „Fyrrverandi forseti ákærður fyrir spillingu“. mbl.is. 21. desember 2018. Sótt 1. nóvember 2019.
- ↑ Atli Ísleifsson (28. október 2019). „Nýr forseti kjörinn í Argentínu“. Vísir. Sótt 28. október 2019.
- ↑ „Hetja hinna fátæku eða spillingakvendi?“. mbl.is. 28. október 2019. Sótt 1. nóvember 2019.
- ↑ „Hugðist skjóta varaforsetann“. mbl.is. 2. september 2022. Sótt 11. nóvember 2022.
- ↑ Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (2. september 2022). „Hlaðinni byssu beint að höfði varaforsetans“. Vísir. Sótt 11. nóvember 2022.
- ↑ Ólöf Rún Erlendsdóttir (3. september 2022). „Þúsundir sýndu Kirchner stuðning eftir banatilræðið“. RÚV. Sótt 11. nóvember 2022.
- ↑ Ævar Örn Jósepsson (7. desember 2022). „Kirchner dæmd í sex ára fangelsi“. RÚV. Sótt 7. desember 2022.
Fyrirrennari: Néstor Kirchner |
|
Eftirmaður: Mauricio Macri |