Byrgið var íslenskt, kristilegt meðferðarheimili fyrir heimilislausa vímuefnafíkla, spilafíkla og fólk með ýmsar aðrar persónuleikaraskanir. Markmið meðferðarinnar var að hjálpa einstaklingum að öðlast betra líf. Í mörgum tilvikum var um mjög veika einstaklinga að ræða og því var brugðið á það ráð að einangra þá til þess að auðvelda endurhæfingu þeirra. Byrgið stóð einnig fyrir forvarnarstarfsemi, og ráðgjöf til handa aðstandendum fíkla[1]. Forstöðumaður Byrgisins var þar til í desember 2006 Guðmundur Jónsson en þá vék hann sem forstöðumaður tímabundið. Jón Arnarr Einarsson tók þá við sem forstöðumaður þangað til að Byrginu var lokað þann 15. janúar 2007[2] og skömmu síðar var starfsemin endanlega lögð niður. Fyrrum vistmönnum var tímabundið boðið upp á meðferð á Geðsviði Landspítala - Háskólasjúkrahús en ekki er vitað hversu margir þáðu það.

Stofnun og starfsemi breyta

Áður en Byrgið var stofnað hafði Guðmundur Jónsson tekið inn á heimili sitt fólk sem var í óreglu og hafði hann reynt að hjálpa því. En fljótlega kom í ljós að meira þurfti til.[3] Hann ásamt nokkrum einstaklingum stofnuðu Byrgið 1. desember 1996[4]. Stofnendurnir höfðu sjálfir verið fíklar en losnað frá fíkn[5]. Byrgið var rekið sem sjálfseignarstofnun - af samnefndu sjálfseignarfélagi, Byrginu ses.[2].

Byrgið var fyrst með aðstöðu að Hvaleyrarbraut 23 í Hafnarfirði, en þar var aðstaða fyrir 12 manns. Annað hús opnaði árið 1997Vesturgötu 18, einnig í Hafnarfirði, og þar var húsnæði fyrir 16 til 18 manns. Í Hlíðardalsskóla í Ölfusi var árið 1997 opnað húsnæði og var þar aðstaða fyrir 80 til 90 manns[3][6]. Starfsemi lagðist niður um tíma á Vesturgötunni árið 2000[7]. Starfsemi var alveg hætt á Vesturgötunni í janúar 2001 og starfsemi á Hvaleyrarbrautinni alveg hætt í maí 2001[8]. Árið 1999 opnaði Byrgið aðstöðu að Rockville á Miðnesheiði.[5] Starfsemi var hætt árið 2003 að Rockville og fluttist þá að Efri-Brú í Grímsnesi[9]. Um tíma stóð til að opna starfsstöð á Vífilsstöðum[10], en af því varð ekki[11].

Starfsemin naut góðs af starfi sjálfboðaliða og var fjármögnuð með styrkjum frá einstaklingum, fyrirtækjum[12] og ríki[8]. Ríkið styrkti Byrgið um að minnsta kosti 226 milljónir króna frá árinu 1999 til og með ársins 2007 [13]. Vistmenn greiddu einnig fyrir vistina[14].

Stjórn Byrgisins skipuðu undir lok desember 2006: Guðmundur Jónsson, Jón Arnarr Einarsson, og varamenn eru Helga Haraldsdóttir og Elma Ósk Hrafnsdóttir[15], en Helga er eiginkona Guðmundar og Elma eiginkona Jóns[16].

Árið 2004 voru að meðaltali um 30 manns á mánuði vistmenn í Byrginu, 35 árin 2005 og 2006[2].

Meðferð breyta

Í skýrslu frá 2002 er talað um að þeir sem komu í meðferð á Byrgið voru gjarnan einstaklingar sem höfðu lengi neytt vímuefna og höfðu gert árangurslausar tilraunir til að hætta þeirri neyslu. Þeir höfðu af þessum sökum verið illa haldnir andlega og líkamlega og félagslega einagraðir. Einnig er nefnt að þeir hafi yfirleitt verið heimilislausir. Í skýrslunni er talað um að styrkur meðferðar hafi verið að mati skýrsluhöfundar einkum fólginn í fimm atriðum: Í trú á Guð — slík trú gefur vistmönnum von, í hvatningu, í lengd meðferðarinnar en miðað var við að meðferð stæði yfir í sex mánuði eða lengur, í samfélagslegri ábyrgð en þeir sem í Byrginu dvöldu höfðu margir hverjir ekki upplifað slíka ábyrgð í lengri tíma, og í sameiginlegum markmiðum vistmanna. Af skýrslunni má einnig ráða að ekki hafi verið um sérstök meðferðarúrræði að ræða eins og geðræna meðferð, heldur má frekar segja að um hafi verið að ræða eins konar „félagssálfræðilega meðferð“ þar sem meðferðin byggist á samneyti við aðra vistmenn, trú, sameiginlegum stuðningi, jöfnuði, hvatningu og að fólk fengi þann tíma sem það þurfti á að halda til að jafna sig. Í skýrslunni segir jafnframt að ekki hafi menntað fólk stjórnað meðferð eða greiningu geðraskana, né að þeir hefðu þjálfun eða sótt námskeið í slíku. Öll meðferð tók mið af þessu. [8] Rétt er þó að hafa í huga að skýrslan var skrifuð árið 2002 og vera kann að meðferðin hafi breyst, á því tímabili frá því skýrslan var skrifuð þar til Byrginu var lokað.

Meðferðin byggðist á 12-spora kerfi AA-samtakanna[17]. Meðferðin var í formi dagskrár sem hófst snemma morguns og stóð langt fram á kvöld[18]. Nokkuð strangar húsreglur giltu í Byrginu, sem dæmi má nefna að mikil áhersla var á þrifnað, ætlast var til að vistmenn ynnu einhver störf á meðan á dvöl þeirra stóð og heimsóknir voru leyfilegar aðeins einu sinni í viku.[19] Í meðferðinni var lögð áhersla á heilbrigt daglegt líferni, þar sem agi var í fyrirúmi. Lögð var áhersla á uppbyggingu einstaklingsins og hann hvattur áfram. Markmiðið var að einstaklingurinn gæti verið ábyrgur í samfélaginu og gæti axlað ábyrgð á eigin lífi.[20] Einhverjir vistmenn höfðu menntað sig á meðan á vist þeirra stóð í Byrginu, að sögn með ágætum árangri.[5]

Að sögn þáverandi starfsmanna Byrgisins eru mjög margir þeirra sem hafa verið í meðferð í Byrginu komnir út í lífið á ný, stunda atvinnu og hafa náð að fóta sig á ný. Sumir hafa eignast fjölskyldu og heimili.[20] Í skýrslunni frá árinu 2002, sem nefnd hér að ofan, er einnig rætt um að Byrgið hafi hjálpað mörgum.

Grunur um misferli breyta

Fjármál breyta

Fjármál Byrgisins hafa verið athuguð að minnsta kosti tvisvar. Fyrri athugunin var árin 2001 og 2002 þegar úttekt var gerð á starfsemi Byrgisins, en sú úttekt birtist í skýrslu þeirri sem nefnd var hér að ofan. Í þeirri úttekt var bókhald og fjármálastjórn Byrgisins skoðað og kom í ljós að bókhaldinu var áfátt og að fjármálastjórn var mjög aðfinnsluverð[8].

Seinni athugunin fór fram seint á árinu 2006 og fram til ársins 2007, eftir að fyrirskipuð var athugun á vegum Ríkisendurskoðunar[21]. Farið var fram á þá athugun um miðjan nóvember[22]. Fjallað er um þá skoðun á fjármálunum hér að neðan.

Að auki hafa ársreikningar Byrgisins ekki skilað sér sem skyldi. Ríkisskattstjóri upplýsti í loks árs 2006 að einum ársreikningi fyrir Byrgið hafði þá verið skilað síðan árið 2003 og var sá ársreikningur ófullnægjandi[23].

Kompás-þáttur og ásakanir breyta

Þann 17. desember 2006 var sendur út fréttaskýringaþátturinn Kompás, en í þeim þætti var sagt frá rannsókn á málefnum Byrgisins sem aðstandendur þáttarins höfðu staðið að í um þrjá mánuði. Rannsóknin byrjaði eftir að bréf barst til þingmanna og ráðherra í október 2006, en í bréfinu eru ásakanir á hendur Guðmundi Jónssyni, þáverandi forstöðumanni Byrgisins, tíundaðar. Um var að ræða ásakanir varðandi fjármálamisferli og kynferðislegt samneyti við vistmenn Byrgisins. Í þættinum kom fram að 10 til 20 manns væru heimildarmenn þáttarins, en þeir væru starfsmenn, vistmenn fyrrverandi og núverandi, auk foreldra vistmanna. Fram kom í þættinum, að fjórar stúlkur sögðust í viðtölum við fréttamenn Kompáss hafa átt í kynferðislegu sambandi við Guðmund á meðan meðferð stóð. Fréttamenn Kompáss sögðust hafa undir höndum gögn sem styðja áskanir um kynferðislegt samband Guðmundar við vistmenn. En auk þess var sýndur hluti af spurningalista sem Guðmundur á að hafa notað í viðtölum við vistmenn, en þar er meðal annars spurt um kynhegðun. Einn heimildamanna sem kom fram í viðtali, sagði að Guðmundur hafi gefið stúlkum sem hann átti í sambandi við dýr föt og bíla. Guðmundur neitaði öllum ásökunum sem á hann voru bornar, sagði þær vera lygar og að gögn Kompáss væru þjófstolin gögn frá honum. Hann neitaði að hafa átt í kynferðislegum samböndum við skjólstæðinga sína. Rétt er að nefna, að enginn heimildamanna kom fram undir nafni, andlit voru skyggð og röddum breytt.[24]

Guðmundur lét af störfum sem forstöðumaður tímabundið daginn eftir sýningu Kompáss-þáttarins. Guðmundur sagðist ætla í meiðyrðamál við Stöð 2 út af umfjöllun Kompáss. Guðmundur sagði einnig í útvarpsviðtali að ritstjóri Kompáss hefði gefið heimildarmönnum sínum eiturlyf í skiptum fyrir upplýsingar, en fréttastjóri Stöðvar 2 neitaði þessum ásökunum.[25] Guðmundur kærði Kompás til lögreglu daginn eftir sýningu þáttarins[26].

Guðmundur var einnig sakaður um að hafa nýtt fé Byrgisins til að kaupa lóðir í nágrenni Byrgisins, en hann neitaði því[27].

Skýrsla, fangar fluttir og frekari áskanir breyta

Í umfjöllun Kompáss er greint frá því að skýrsla hafi verið samin um starfsemi Byrgisins árið 2002, en það er skýrslan sem nefnd var að ofan. Aðstandendur Kompáss hafi ekki getað fengið þá skýrslu frá opinberum yfirvöldum, en hafi loks fengið aðgang að henni í gegnum aðrar leiðir[24]. Daginn eftir að þátturinn var sýndur, var skýrslan send fjölmiðlum, en þá hafði leynd verið létt af skýrslunni. Skýrslan var samin eftir að vinnuhópur þriggja ráðuneyta ákvað að ástæða væri til að skoða starfsemi Byrgisins sérstaklega. Skýrslan hafði ekki komið fyrir fjárlaganefnd Alþingis, en var rædd í ríkisstjórn á sínum tíma[28].

20. desember 2006 ákvað Fangelsismálastofnun að flytja frá Byrginu tvo fanga, sem höfðu fengið að afplána hluta refsingar sinnar þar, til baka á Litla-Hraun. Ákveðið var vegna umfjöllunar um málefni Byrgisins að flytja fangana brott frá Byrginu, en ósk um þetta kom frá Byrginu. Samningur var gerður árið 2002 milli Byrgisins og Fangelsismálastofnunar, sem felur í sér að hluta afplánunartímans geta fangar verið í Byrginu. Samtals hafa 15 fangar dvalist í Byrginu á þessum forsendum. Samingurinn var enn í gildi árið 2006.[29]

21. desember 2006 kom fram í viðtali á Stöð 2 ung kona sem hugðist kæra Guðmund Jónsson daginn eftir. Konan sagðist í viðtalinu hafa verið í ástarsambandi við Guðmund í um tvö ár og að því hefði lokið um þremur til fjórum vikum fyrir viðtalið. Konan kom fram undir eigin nafni og sagði Guðmund hafa tælt sig. Hún játaði að hafa verið ein af þeim sem rætt var um í Kompáss þættinum, sem nefndur var að ofan, en hún var þó ekki ein af þeim sem kom fram í Kompáss-þættinum. Hún sagðist hafa sambærilega reynslu af Guðmundi og lýst var í þættinum og hafa undir höndum gögn sem færðu sönnur á að hún og Guðmundur hefðu átt í þessu sambandi. Hún sakaði Guðmund um trúnaðarbrest því að hann hefði sagt öðrum skjólstæðingum Byrgisins frá persónulegum samtölum hennar og Guðmundar. Hún sagðist einnig hafa fengið spurningalistann sem lýst var í Kompáss þættinum. Einnig sakaði hún Guðmund um að svíkja af henni um fjórar milljónir króna sem hún fékk greiddar frá tryggingafyrirtæki[30]. Konan kærði Guðmund þann 22. desember 2006[31].

27. desember 2006 kom fram í fréttum að læknir á höfuðborgarsvæðinu hafði sent landlækni bréf árið 2002 þess efnis að honum hafi verið sagt að þrír vistmenn Byrgisins hafi orðið þungaðir af starfsmönnum þess. Landlæknisembættið hefur, að sögn starfsmanns embættisins, ekki lögsögu yfir Byrginu, því að það er ekki heilbrigðisstofnun.[32] Það varðar þó við lög ef starfsmenn hafa samræði við vistmenn á meðferðarstofnunum[33] , en þrátt fyrir það virðist sem enginn hafi athugað málið frekar. Seinna kom í ljós að það var Pétur Hauksson geðlæknir sem skrifaði bréfið til landlæknis (sjá neðar).

29. desember 2006 kom fram kona á miðjum aldri sem sagðist hafa gerst ábyrgðarmaður, með veði í íbúð sinni, fyrir láni sem tekið var fyrir Byrgið. Lánið var tekið árið 1999 og ætlað til uppbyggingar starfseminnar að sögn konunnar. Að sögn konunnar greiddi Guðmundur af láninu og var greitt í nokkra mánuði. Greiðslur stöðvuðust eftir það og þurfti konan að greiða lánið upp sjálf, og vegna þess þurfti hún að selja húsnæði sitt og flytja í ódýrara húsnæði í öðru bæjarfélagi. Konan sagðist ætla að kæra Guðmund fyrir vanefndir.[34]

Greiðslum hætt og afeitrun breyta

30. desember 2006 var upplýst að greiðslum ríkisins til Byrgisins hafi verið hætt að beiðni ríkisendurskoðanda, en á þeim tíma stóð yfir rannsókn á fjármálum Byrgisins[35]. Nánar er fjallað um rannsóknina hér að neðan.

Líklegt er að í Byrginu hafi verið stunduð afeitrun á einhverjum tíma, en landlæknisembættið sendi heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar árið 1999 ábendingu um að Byrgið hefði ekki lagalega heimild til þess að stunda slíka starfsemi. Í skýrslu sem Heilbrigðisráðuneytið gaf út árið 2005 er Byrgið þó inni á lista yfir stofnanir og félagasamtök sem bjóða upp á afeitrun, því hefur ráðuneytið vitað af því að afeitrun fór fram í Byrginu [36]. Einnig er rætt um afeitrun í grein sem birtist á vef Morgunblaðsins eða þá í Morgunblaðinu sjálfu þann 12. júní 2003.[37] Læknir sem hefur starfað í Byrginu kannast þó ekki við að afeitrun hafi átt sér stað þar. Hann sagði að þó hafi ein undantekning verið gerð, en þá voru hjón í afeitrun. Stjórn Byrgisins segir einnig að afeitrun hafi ekki átt sér stað í Byrginu, en segir að aðhlynningardeild hafi verið rekin, þar sem fólk dvelst áður en það hefur meðferð. Afeitrun á að vera lokið áður en fólk kemur til dvalar, segir læknirinn.[38]

3. janúar 2007 var sagt frá því í fréttum að tuttugu vistmenn í Byrginu hafi yfirgefið það, að sögn Jóns Arnarrs Einarssonar, forstöðumanns, í kjölfar umræðu um Byrgið í fjölmiðlum. Jón Arnarr sagði að flestir þeirra sem hafi yfirgefið Byrgið væru heimilislausir og komnir í neyslu á ný. Sagði hann, að átta vistmenn væru eftir, og átta starfsmenn, og stefndu starfsmenn og vistmenn að því að halda áfram starfseminni. Að hans sögu yrðu áhrif þess að ríkið greiddi Byrginu ekki lengur styrki óveruleg. [39]

Úttekt ríkisendurskoðunar breyta

15. janúar 2007 birti Ríkisendurskoðun niðurstöður úttektar sinnar skv. beiðni félagsmálaráðuneytisins frá því í nóvember 2006. Úttektin náði til bókhalds áranna 2005 og 2006, en ársreikningar fyrir þau ár höfðu ekki verið endurskoðaðir þegar úttektin var gerð. Úttektin leiddi í ljós að bókhaldi Byrgisins væri „verulega ábótavant“, og vegna þessara „alvarlegu vankanta“ bæri ríkissaksóknara að taka málið til umfjöllunar. Í úttektinni kemur fram að ekki hefur verið gert nægjanlega grein fyrir fjölmörgum útgjöldum á vegum Byrgisins. Þá sé einnig ljóst að fjármunir þess hafi verið notaðir af starfsmönnum til einkaútgjalda[22].

Sama dag og skýrsla Ríkisendurskoðunar var birt, ákvað stjórn Byrgisins að loka Byrginu[40] og var lokað samdægurs[41]. Máli Byrgisins hefur verið vísað til Ríkislögreglustjóraembættisins til meðferðar[42].

Kærur á hendur Guðmundi Jónssyni breyta

Sama dag og skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út, 15. janúar 2007, kærði önnur kona Guðmund fyrir kynferðislega misbeitingu á meðan hún var vistmaður Byrgisins[43].

Myndband með Guðmundi Jónssyni og fyrrverandi vistmanni Byrgisins, var sett á Netið um miðjan janúar (að því er virðist) og sýnir Guðmund og vistmanninn í kynlífsleikjum, að sögn fjölmiðla. Guðmundur hafði áður neitað því að hafa stundað slíka leiki. Guðmundur hugðist kæra stúlkuna, vistmanninn sem birtist í myndbandinu, fyrir nauðgun, en hún hafði sjálf kært hann fyrir nauðgun[44].

Þann 26. janúar 2007 barst sýslumanninum á Selfossi þriðja kæran á hendur Guðmundi frá konu vegna kynferðislegrar misnotkunar og misbeitingu á trúnaðarsambandi. Konan sem er á þrítugsaldri er fyrrum vistmaður á Byrginu[45]. Guðmundi voru kynntar kærur fjögurra kvenna 1. febrúar vegna brots á lögum um kynferðissamband starfsmanns stofnunar við vistmann og misnotkun á trúnaðarsambandi[46]. Þann 12. febrúar bárust sýslumanninum á Selfossi kærur frá tveimur konum til viðbótar á hendur Guðmundi. Kærurnar eru því orðnar sex talsins[47].

Fjölmiðlaumfjöllun og önnur úrræði breyta

Pétur Hauksson geðlæknir kom fram í fjölmiðlum þar sem greindi frá því að hann hefði skrifað landlækni bréf árið 2002 og greint frá kynferðislegri misnotkun starfsmanna á hendur vistmönnum í Byrginu. Þá sagðist Pétur hafa heimildir fyrir því að fæðingar sem orðið hefðu í kjölfar sambanda milli starfsmanna og vistmanna væru tíu talsins[48]. Pétur skrifaði landlækni annað bréf þar sem segir sumum vistmönnum eða fyrrverandi sjúklingum hafi verið falið ábyrgðarhlutverk og stöðuna meðferðaraðili. Hann hvatti ríkið til þess að axla ábyrgð og fjalla um málið sem um sjúklinga innan heilbrigðisgeirans væri að ræða[49].

Daginn áður en tvær kærur á hendur Guðmundi bárust sýslumanninum í Selfossi til viðbótar var Geir H. Haarde, forsætisráðherra í viðtalsþættinum Silfri Egils þar sem hann komst svo að orði um þær konur sem sagt var að höfðu orðið óléttar á meðan meðferð þeirra í Byrginu stóð að það væri „ekki hægt að fullyrða að þessar stúlkur hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eð er“.[50] Næsta dag voru utandagskrárumræður á Alþingi um málefni Byrgisins, þar sem Geir umorðaði yfirlýsingu sína frá því daginn áður [51]. Þá lýsti Geir H. Haarde því yfir að á geðsviði Landspítalans hefði verið settur á laggirnar hópur sérfræðinga sem myndi hafa það verkefni að taka fyrrum vistmenn Byrgisins til meðferðar[52].

Heimildir og tilvísanir breyta

  1. „Vefsíða Byrgisins: Lýsing á starfseminni“. Sótt 28. desember 2006.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Fyrirspurn til stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar Byrgisins - líknarfélags“ (PDF). Sótt 29. desember 2006.
  3. 3,0 3,1 „Morgunblaðið: "Hér skiptir hver einstaklingur máli". Sótt 28. desember 2006.
  4. Athugasemd: Sumar heimildir segja að Guðmundur hafi stofnað Byrgið, til dæmis skýrsla Aðalsteins Sigfússonar, en aðrar segja að hann ásamt fleirum hafi stofnað það. Hér er látið standa að Guðmundur og fleiri hafi stofnað það því að það er það sem vefsíða Byrgisins segir.
  5. 5,0 5,1 5,2 „Vefsíða Byrgisins: Byrgið stofnað“. Sótt 28. desember 2006.
  6. Ekki hafa fundist heimildir fyrir því að starfsemi sé enn í Hlíðardalsskóla, og ekkert hefur fundist sem bendir til að hún sé ekki í gangi.
  7. „Morgunblaðið: Forstöðumaður segir enga framkvæmdaáætlun hafa borist“. Sótt 29. desember 2006.
  8. 8,0 8,1 8,2 8,3 Aðalsteinn Sigfússon (2002). Starfsemi Byrgisins á Rockville svæðinu. Úttekt fyrir Utanríkisráðuneytið. Skýrslan
  9. „Morgunblaðið: Byrgismenn hafa yfirgefið Rockville“. Sótt 28. desember 2006.
  10. „Morgunblaðið: "Gerbreytir stöðunni". Sótt 28. desember 2006.
  11. „www.ruv.is: Byrgið ekki á Vífilstaði“. Sótt 28. desember 2006.
  12. „Morgunblaðið: Byrgið tekur Hlíðardalsskóla á leigu“. Sótt 28. desember 2006.
  13. „Morgunblaðið: Endurskoðun á rekstri Byrgisins“. Sótt 29. desember 2006.
  14. „Morgunblaðið: Rockville oft eina úrræði heimilislausra“. Sótt 28. desember 2006.
  15. „Morgunblaðið: Kæra á hendur forstöðumanni Byrgisins lögð fram“. Sótt 29. desember 2006.
  16. „Morgunblaðið: Byrgið opnar starfsemi í Rocville“. Sótt 4. janúar 2007.. - Með því að nota heimild um stjórn Byrgisins og þessa heimild, þá má fá út að Elma er kona Jóns.
  17. „Morgunblaðið: Veitir ráðgjöf og aðhlynningu“. Sótt 28. desember 2006.
  18. „Vefsíða Byrgisins: Dagskrá“. Sótt 28. desember 2006.
  19. „Vefsíða Byrgisins: Húsreglur“. Sótt 28. desember 2006.
  20. 20,0 20,1 „Vefsíða Byrgisins: Markmið“. Sótt 28. desember 2006.
  21. „Morgunblaðið: Ríkisendurskoðanda falið að skoða rekstur Byrgisins“. Sótt 28. desember 2006.
  22. 22,0 22,1 Ríkisendurskoðun: Greinargerð um fjármál Byrgisins ses. Skýrslan Geymt 29 september 2007 í Wayback Machine
  23. „www.ruv.is: Ársreikninga vantar frá Byrginu“. Sótt 28. desember 2006.
  24. 24,0 24,1 Kompáss þáttur, sýndur á Stöð 2, þann 17. desember 2006. Umfjöllun Kompás, þátturinn á Netinu Geymt 5 janúar 2007 í Wayback Machine
  25. „Morgunblaðið: Guðmundur lætur tímabundið af störfum fyrir Byrgið“. Sótt 28. desember 2006.
  26. „www.visir.is: Guðmundur í Byrginu látið af störfum“. Sótt 29. desember 2006.
  27. „www.ruv.is: Byrgið: Ásökunum um fjármálamisferli vísað á bug“. Sótt 29. desember 2006.
  28. „www.visir.is: Leynd aflétt af svartri skýrslu um Byrgið“. Sótt 29. desember 2006.
  29. „www.visir.is: Fangar fluttir af Byrginu á Litla Hraunið“. Sótt 29. desember 2006.
  30. Viðtal á Stöð 2 þann 21. desember 2006. Viðtalið á netinu Geymt 30 september 2007 í Wayback Machine
  31. Hádegisfréttir Ríkisútvarpsins þann 22. desember 2006.
  32. „www.visir.is: Landlæknir fékk ábendingu um 3 vistkonur óléttar eftir starfsmenn í Byrginu“. Sótt 29. desember 2006.
  33. Sjá 197 gr. „Almennra hegningarlaga“.
  34. „www.visir.is: Missti íbúð vegna vanefnda Guðmundar í Byrginu“. Sótt 29. desember 2006.
  35. „www.ruv.is: Ríkið hættir greiðslum til Byrgisins“. Sótt 29. desember 2006.
  36. „www.visir.is: Afeitrun í Byrginu er brot á lögum“. Sótt 29. desember 2006.
  37. „Morgunblaðið: Fjörutíu skjólstæðingar verða á götunni“. Sótt 4. janúar 2007.
  38. „www.ruv.is: Byrgið: 3 bera faglega ábyrgð“. Sótt 29. desember 2006.
  39. „Morgunblaðið: Vistmenn yfirgefa Byrgið“. Sótt 3. janúar 2007.
  40. „Morgunblaðið: Byrginu lokað“. Sótt 18. janúar 2007.
  41. „www.ruv.is: Samhjálp tekur við skjólstæðingum Byrgisins“. Sótt 18. janúar 2007.
  42. „www.ruv.is: Mál Byrgisins til RLS“. Sótt 18. janúar 2007.
  43. „www.visir.is: Önnur kæran lögð fram gegn Guðmundi í Byrginu“. Sótt 18. janúar 2007.
  44. „www.visir.is: Guðmundur í Byrginu ætlar að kæra nauðgun“. Sótt 18. janúar 2007.
  45. „www.ruv.is: Byrgismálið: Þriðja kæran komin fram“. Sótt 28. janúar 2007.
  46. „www.ruv.is: Guðmundi í Byrginu kynntar kærur“. Sótt 1. febrúar 2007.
  47. „www.mbl.is: Tvær kærur til viðbótar hafa borist á hendur Guðmundi Jónssyni“. Sótt 13. febrúar 2007.
  48. „www.mbl.is: Segir barnsfæðingar af völdum kynferðismisnotkunar í Byrginu orðnar tíu“. 7. febrúar 2007. Sótt 10. maí 2007.
  49. „www.mbl.is: Segir sjúklinga með fíkniheilkenni eiga rétt á bestu meðferð sem völ er á“. 9. febrúar 2007. Sótt 10. maí 2007.
  50. Hefðu kannski átt börn hvort eð er Morgunblaðið
  51. „Alþingi: Athugasemdir um störf þingsins: Geir H. Haarde“. Sótt 13. mars 2007.
  52. „www.mbl.is: Geðsvið Landspítalans opnað fyrir fyrrum skjólstæðinga Byrgisins“. Sótt 13. mars 2007.

Tenglar breyta