Bobby Fischer
Robert James Fischer (fæddur í Chicago 9. mars 1943 – dáinn í Reykjavík 17. janúar 2008), best þekktur sem Bobby Fischer, var bandarískur stórmeistari í skák og fyrrverandi heimsmeistari í skák undir merkjum FIDE, sem síðar hlaut íslenskan ríkisborgararétt. Hann gjörsigraði FIDE heimsmeistarann Boris Spasskíj í Einvígi aldarinnar í Reykjavík 1. september 1972 og varð þar með fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vera krýndur heimsmeistari í skák. (Hinn bandaríski Paul Morphy var almennt talinn heimsmeistari í skák um miðbik 19. aldar, en háði þó aldrei opinbert einvígi um titilinn.[1] ) Heimsmeistaratitillinn rann honum úr greipum 3. apríl 1975, þegar hann neitaði að verja titilinn gegn áskorandanum Anatoly Karpov.
Bobby Fisher var þekktur sem einn iðnasti og hæfileikaríkasti skákmaður sögunnar, en einnig fyrir óútreiknanlega hegðun sína og öfgafullar stjórnmálaskoðanir, litaðar af gyðingahatri og fyrirlitningu á Bandaríkjunum. Þrátt fyrir langa fjarveru frá skákkeppnum var hann enn meðal þekktustu skákmanna veraldar.
Fischer virti að vettugi alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn Júgóslavíu þegar hann tefldi skákeinvígi við Spasskíj í Sveti Stefan árið 1992. Eftir einvígið var hann eftirlýstur í Bandaríkjunum og eigur hans þar gerðar upptækar. Hann fluttist seinna til Japans, en var hnepptur í fangelsi þegar vegabréf hans rann út. Hann sótti í framhaldi um landvistarleyfi á Íslandi með bréfi til Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra, 26. nóvember 2004. Þann 15. desember 2004 var honum veitt landvistarleyfi, en bandarískum stjórnvöldum mislíkaði ákvörðunin og fóru þess á leit að leyfið yrði afturkallað. Eftir að í ljós kom að dvalarleyfi á Íslandi væri ekki nóg til þess að japönsk stjórnvöld framseldu hann til Íslands sendi hann alþingi bréf í janúar 2005 þar sem hann fór þess á leit að fá íslenskan ríkisborgararétt. Málið var tekið fyrir af allsherjarnefnd þingsins sem ákvað þann 17. febrúar að mæla ekki með því við þingið að Fischer fengi ríkisborgararétt. Nokkrum dögum síðar samþykktu stjórnvöld þó að gefa út svokallað útlendingavegabréf handa Fischer. Í ljós kom samkvæmt yfirlýsingum japanskra embættismanna að vegabréfið eitt og sér dygði ekki til þess að leyfa Fischer að fara til Íslands, þá kom beiðnin um ríkisborgararétt aftur upp. Þann 17. mars tók allsherjarnefnd beiðnina fyrir aftur og samþykkti daginn eftir að mæla með því við alþingi að Fischer yrði veittur ríkisborgararéttur. Þann 21. mars samþykkti alþingi það svo án umræðna og með 42 samhljóða atkvæðum (21 þingmaður var fjarverandi) að veita Fischer ríkisborgararétt. Fischer var svo leystur úr haldi 23. mars 2005 og flaug til Íslands sama dag.
Hann bjó í Reykjavík til æviloka og lést eftir baráttu við alvarleg nýrnaveikindi. Fischer dvaldist á sjúkrahúsi í Reykjavík í október og nóvember 2007, en síðan á heimili sínu.[2]. Síðustu orð hans, samkvæmt Magnúsi Skúlasyni, sem sat hjá honum þeger hann lést voru: „Ekkert linar þjáningar eins og mannleg snerting.“[3]
Fischer var jarðsettur í kyrrþey að eigin ósk í kirkjugarði Laugardæla í Flóa þann 21. janúar 2008.
5. júlí 2010 var lík Fischers grafið upp til að ná í lífsýni, sem notað var í erfðamáli, sem aðstandendur Filippseysku stúlkunnar Jinky Ong höfðuðu. DNA-próf sýndi að Fischer var ekki faðir stúlkunnar.
Þann 8. apríl 2011 féll dómur Hæstaréttar, sem dæmdi Myoko Watai eina erfingja Fischers.
Tenglar
breytaTilvísanir
breyta- ↑ Skv. David Lawson, í Paul Morphy, The Pride and Sorrow of Chess, Mckay, 1976. Lawson fullyrðir að Morphy hafi verið fyrsti skákmaðurinn til að fá nafnbótina heimsmeistari á sinni samtíð. Flestir sagnfræðingar eru þó sammála um að fyrsta opinberlega heimsmeistaraeinvígið hafi átt sér stað árið 1886.
- ↑ „Bobby Fischer látinn“. Sótt 18. janúar 2008.
- ↑ af vef Vísis.is