Barbarístríðin svokölluðu voru stríðsátök á milli Bandaríkjanna og sjóræningja í Barbaríinu í Norður-Afríku snemma á 19. öld. Á þeim tíma skiptist Barbaríið í Trípólí (Líbýu) og Alsír, sem voru í raun sjálfstæð furstadæmi þótt þau tilheyrðu Ottómanaveldinu að nafninu til, og soldánsdæmið Marokkó. Ástæðan fyrir stríðsátökunum var að sjóræningjarnir vildu að kaupskipin borguðu þeim skatt þegar þau sigldu um Miðjarðarhafið. Ef þau greiddu ekki skattinn réðust sjóræningjarnir á skipin og tóku vörur í staðinn og oft tóku þeir áhöfnina til fanga fyrir lausnargjald. Bandaríski sjóherinn réðust á víggirtar borgir sjóræningjanna og heimtuðu að reglur þeirra um greiðslur yrðu dregnar til baka.

Skipið USS Philadelphia

Barbarísjóræningjar höfðu um langt skeið, allt síðan snemma á 17. öld, ráðist á bresk og önnur evrópsk kaupskip á siglingu meðfram austurströnd Afríku. Þeir tóku fjölda manns til fanga og þurftu fjölskyldur þeirra og söfnuðir iðulega að efna til samskota til að greiða lausnargjald þeirra. Furstadæmin í Barbaríinu kröfðu kaupskip um eins konar verndargjald til að tryggja að ekki yrði ráðist yrði á þau.

Sjóræningjar réðust á bandarísk skip á meðan frelsisstríð Bandaríkjanna stóð yfir en þann 20. desember 1777, tilkynnti marokkóski soldáninn Mohammed 3. að bandarísk kaupskip yrðu undir vernd soldánsins og gætu því notið þess að sigla óáreitt um Miðjarðarhafið og meðfram ströndinni. Þessi marokkósk-bandaríski vináttusamningur er elsta milliríkjasamkomulag Bandaríkjanna sem enn er órofið. Öðru máli gegndi um sjóræningja frá Alsír og Trípóli, þeir hertóku bandarísk skip og fór svo að Bandaríkjamenn neyddust til að gera samkomulag í mars 1785 um greiðslu hárrar upphæðar í verndargjald og lausnargjald fyrir bandaríska fanga sem teknir höfðu verið.

Þegar Thomas Jefferson varð forseti Bandaríkjanna 1801 krafðist pasjann í Trípólí þess að nýja stjórnin greiddi 225 þúsund dollara í verndargjald. Jefferson neitaði og pasjann sagði Bandaríkjunum stríð á hendur 10. maí 1801. Jefferson sendi herskip til Miðjarðarhafsins og setti hafnbann á Trípólí. Til átaka kom á sjó nokkrum sinnum og í apríl 1805 lögðu fáeinir bandarískir landgönguliðar ásamt 500 egypskum málaliðum bæinn Darna í Líbíu undir sig. Það var í fyrsta sinn sem hermenn reistu bandarískan fána á erlendri grund. Til þess atburðar má rekja það að í baráttusöng bandaríska landgönguliðsins er sungið um strendur Trípólí. Fljótlega eftir það var samið um frið og greiddu Bandaríkjamenn fjárupphæð fyrir nokkra landa sína sem voru í haldi Trípólímanna.

 
Stríðsátök árið 1804

Nokkrum árum síðar fóru Barbarísjóræningjar aftur að láta á sér kræla og ræna bandarísk kaupskip en það var ekki fyrr en 1815 sem Bandaríkjamenn sendu herskip á vettvang og hófst þá seinna Barbarístríðið. Það stóð stutt; bandarísku skipin gersigruðu flota Barbarísins og skrifað var undir vopnahléssamning 3. júlí 1815.

Heimildir

breyta
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Barbary Wars“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. febrúar 2012.
  • „„Barbarí-stríð Bandaríkjanna." Tímans rás, skoðað 20. febrúar 2012“.