Bódísea

(Endurbeint frá Búdíka)

Bódísea (einnig ritað sem Bóadíkea, Boudica, Boudicca eða Boadicea) var keltnesk drottning þjóðflokks Ísena sem bjuggu þar sem nú er Norfolk í Englandi. Hún leiddi uppreisn gegn hernámsliði Rómverja á Bretlandi árið 60 eða 61.

Bódísea
Bódísea á málverki eftir John Opie.
FæddÍ kringum árið 30
DáinÁrið 60 eða 61
ÞjóðerniÍseni (keltnesk)
MakiPrasutagus
Börn2

Ritað var um uppreisn Bódíseu í verkum sagnaritaranna Tacitusar[1] og Cassiusar Dio.[2] Þessi verk voru enduruppgötvuð á endurreisnartímanum en á Viktoríutímabilinu var í auknum mæli farið að bera Bódíseu saman við Viktoríu Bretadrottningu og henni lyft upp á stall sem bresku þjóðartákni og þjóðhetju.

Allt fram á 20. öld var nafn Bódíseu yfirleitt ritað sem Boadicea, sem er líklega stafsetning sem upprunnin er úr stafavillum þegar verk Tacitusar voru endurrituð á miðaldahandrit. Í ritum Tacitusar birtist nafnið bæði sem Boadicea og Boudicea. Í verkum Cassiusar Dio birtist nafnið sem Βουδουικα, Βουνδουικα og Βοδουικα. Næsta víst er að nafnið hafi upphaflega verið Boudica eða Boudicca, sem samræmist kvenkynsmynd frumkeltíska lýsingarorðsins *boudīka (sú sigursæla), sem er skylt keltneska orðinu *bouda (sigur), írska orðinu bua eða buadh og velska orðinu buddug. Nafnið hefur fundist skrifað „Boudica“ í Lúsitaniu, „Boudiga“ í Bordeaux og „Bodicca“ í Bretlandi.[3]

Með hliðsjón af seinni þróun velsku og írsku ályktar Kenneth Jackson að rétt stafsetning úr bretónskuBoudica [bɒʊˈdiːkaː].[4] Næsta samsvörun fyrsta sérhljóðans í nafninu í nútíma ensku er líkt og hljóðið „ow“ í orðinu bow. Framburður nafnsins á ensku er [buːˈdɪkə].[5]

Bakgrunnur og fjölskylda

breyta

Tacitus og Dio skrifa báðir um Bódíseu að hún hafi verið af konungaættum. Dio segir að hún hafi verið „greindari en flestar konur“ og að hún hafi verið með langt, rautt hár sem náði niður að mjöðmum, með hrjúfa rödd og stingandi augnaráð. Hún á að hafa verið með gullinn hálshring (hugsanlega svokallaðan torque-hring), í marglitum kyrtli og þykkri skikkju sem var haldið uppi með sylgju.

Eiginmaður Bódíseu var Prasutagus, konungur Ísena, sem átti með henni tvær dætur.

Drottning, uppreisnarleiðtogi og herforingi

breyta
 
Nútímasýslan Norfolk samsvarar nokkurn veginn yfirráðasvæði Ísena til forna.

Bandalag með Róm

breyta

Ísenar réðu yfir landsvæði sem samsvarar nokkurn veginn sýslunni Norfolk í dag. Upphaflega var ríki þeirra ekki hluti af Rómarveldi en þeir höfðu gert bandalag við Rómverja af fúsum og frjálsum vilja eftir að Claudius keisari fyrirskipaði innrás í Bretland árið 43. Þeir voru stoltir af sjálfstæði sínu og höfðu gert uppreisn árið 47 þegar þáverandi landstjóri Rómverja, Publius Ostorius Scapula, hafði hótað að afvopna þá.[6] Prasutagus, eiginmaður Bódíseu, lifði langa ævi og ákvað að til þess að halda völdum innan fjölskyldu sinnar skyldi hann arfleiða bæði Rómarkeisara og konu sína og tvær dætur að ríki sínu.

Á þessum tíma tíðkaðist það að Rómverjar leyfðu bandalagsríkjum sínum að viðhalda sjálfstæði á ævi leiðtogans sem hafði gert bandalagið en að hann féllist á að gefa Rómarveldi ríkið eftir dauða sinn. Til dæmis má nefna innlimun Rómverja á ríkinu Biþyníu[7] og Galatíu samkvæmt slíku fyrirkomulagi.[8] Í Rómarrétti voru erfðir jafnframt eingöngu viðurkenndar í karllegg.

Innlimun Rómar á ríki Ísena

breyta

Þegar Prasutagus lést hundsuðu Rómverjar óskir hans um að kona hans og dætur tækju við stjórn ríkisins og limuðu konungdæmið beint inn í Rómarveldi. Landeignir voru gerðar upptækar og margir háttsettir einstaklingar hnepptir í þrældóm. Samkvæmt Tacitusi var Bódísea lamin með svipum og dætrum hennar nauðgað. Dio Cassius skrifar að margir rómverskir viðskiptamenn og fjárfestar, meðal annars Seneca yngri, hafi endurinnheimt skuldir sem þeir höfðu áður greitt Ísenum. Tacitus minnist ekki á þetta en hann gagnrýnir rómverska landstjórann Catus Decianus. Svo virðist sem Prasutagus hafi lifað á lánuðu fé og að eftir dauða hans hafi komið að skuldardögum fyrir þegna hans.

Upphaf uppreisnarinnar

breyta

Árið 60 eða 61 fór þáverandi landstjóri Rómverja, Gaius Suetonius Paulinus í herför á eyjuna Mónu (núverandi Öngulsey) í norðurhluta Wales, sem var þá vígi uppreisnarmanna og drúída. Ísenar nýttu sér tækifærið til að hefja eigin uppreisn ásamt Trínóvöntum. Að sögn Tacitusar voru Keltarnir undir innblæstri af sögu Arminiusar, höfðingja Kerúska sem hafði rekið Rómverja frá Germaníu árið 9, og af fordæmi Kelta sem höfðu rekið Julius Caesar frá Bretlandseyjum.[9] Dio skrifar að Bódísea hafi reitt sig á spádóma, að hún hafi ákallað sigurgyðjuna Andraste og sleppt lausum héra til að sjá í hvaða átt hann færi. Nafn Bódíseu kann einnig að hafa skipt máli, en nafn hennar merkir „sigur“ eða „sú sigursæla“.

Árásin á Camulodunum

breyta

Fyrsta verk uppreisnarmanna var að ráðast á borgina Camulodunum (nú Colchester), hinn gamla höfuðstað Trínóvanta sem var orðinn rómversk nýlenda þar sem rómverskir uppgjafarhermenn bjuggu. Rómverjarnir í borginni höfðu farið illa með keltnesku frumbyggjana og hofið sem Rómarkeisari hafði látið reisa þar á kostnað heimamanna sjálfum sér til heiðurs gerði borgina að táknrænu skotmarki. Rómverjarnir í Camulodunum báðu Catus Decianus landstjóra um liðsauka en hann sendi þeim aðeins 200 varamenn. Hermenn Bódíseu lögðu undir sig illa varða borgina og lögðu hana í rúst. Síðustu varnarliðar Rómverjar leituði skjóls í hofinu og urðu að gefast upp eftir tveggja daga umsátur. Fornleifarannsóknir hafa sýnt fram á að bærinn var síðan vísvitandi og kerfisbundið jafnaður við jörðu.

Þáverandi foringi níundu spænsku hersveitarinnar, Quintus Petillius Cerialis (síðar landstjóri) reyndi að bjarga borginni en sá hluti sveitarinnar sem tók þátt í aðgerðinni var þurrkaður út og aðeins foringinn og nokkrir knapar komust undan. Catus Decianus flúði til Gallíu.

Árásirnar á Londinium og Verulamium

breyta

Þegar fréttirnar af uppreisninni bárust til Suetoniusar fór hann eftir Watling Street í gegnum yfirráðasvæði óvinarins til borgarinnar Londinium (London). Londinium var þá tiltölulega ung borg sem hafði verið stofnuð eftir yfirtöku Rómverja árið 43, en hún hafði fljótt orðið mikilvæg verslunarmiðstöð þar sem fjöldi kaupmanna bjó ásamt rómverskum embættismönnum. Suetonius íhugaði að taka sér varnarstöðu í Londinium en hann var á móti mun fjölmennari óvinaher og þar sem hann vissi af ósigri Petilliusar ákvað hann að fórna borginni til þess að bjarga skattlandinu. Her Bódíseu réðst á Londinium, brenndi borgina og tóku íbúana af lífi. Fornleifarannsóknir hafa sýnt fram á ummerki um bruna innan rómversku borgarmarkanna í London þar sem finna má myntir og keramík frá árinu 60.[10]

Talið er að samanlagt hafi um 70.000 til 80.000 manns látist í árásum herja Bódíseu á bæina þrjá. Tacitus skrifar um þessa atburði að Bretónarnir hafi ekki haft áhuga á að taka eða selja gísla, aðeins á að drepa borgarbúa. Dio skrifar að konurnar af besta ætterninu hafi verið stjaksettar í fórnarskyni, brjóst þeirra afskorin og fest við varir þeirra. Þetta mun hafa átt sér stað á helgistöðum til að helga konurnar gyðjunni Andraste.

Orrustan við Paulerspury / Watling Street

breyta
 
Bronsstytta af Bódíseu eftir Thomas Thornycroft stendur við Westminster-brú í London. Bódísea stendur á léttvagninum ásamt dætrum sínum með spjót í hægri hendi og útrétta vinstri hendi til að hvetja áfram landa sína.

Suetonius náði að safna liði með fjórtándu tvíburaherdeildinni, nokkrum deildum úr tuttugustu hersveitinni Valeria Victrix og öllum fáanlegum varaliðum. Poenius Postumus, leiðtogi annarrar Ágústusarhersveitarinnar, hundsaði köll Suetoniusar eftir liðsauka en þrátt fyrir þetta tókst Suetoniusi að safna saman um tíu þúsund hermönnum. Hann kom hernum fyrir á ýmsum stöðum, líklega meðfram rómverska veginum Watling Street í Vestur-Miðhéruðunum, í gljúfri fyrir framan skóg.

Samkvæmt Dio taldi árásarherinn nú til sín um 230.000 menn, en þessi tala er óáreiðanleg þar sem hún kemur úr ritum sem tekin voru saman löngu síðar og þar sem sagnaritarar ýktu gjarnan tölur óvinarins. Samkvæmt Tacitusi voru Keltarnir um 100.000 talsins.

Bódísea stýrði her sínum í hervagni með dætur sínar við hlið sér. Tacitus hefur eftir henni stutta ræðu þar sem hún lýsir sjálfri sér ekki sem aðalskonu sem hafi glatað auði sínum heldur sem venjulegri manneskju sem vilji hefna glataðs frelsis síns, svívirðinga á líkama sínum og heiðurs dætra sinna. Í ræðunni segir hún málstað sinn réttlátan, Guðina vera við hlið sér og að síðasta hersveit Rómverja sem vogaði sér gegn henni hafi farist. Hún, kona, hafi svarið að vinna sigur eða deyja. Vildu menn lifa í þrældómi væri það val þeirra sjálfra.

Þegar kom að viðureign herjanna stóðu þeir ójafnt að vígi. Keltneski herinn naut ekki lengur yfirburða vegna mannfjölda þar sem Suetonius hafði valið þröngt gil sem vígvöll. Keltarnir voru jafnframt óvanir hernaði af þessu tagi og skorti reynslu af því að stýra svo stórum hersveitum. Rómverjarnir bjuggu yfir betri búnaði og meiri heraga.

Keltarnir byrjuðu á vel heppnuðu framáhlaupi á rómverska herinn sem gekk. Rómverjarnir stóðu þétt saman að baki 800 metra langrar varnarlínu. Þeir héldu velli og köstuðu spjótum gegn keltnesku áhlaupsmönnunum. Þegar ekki var meira eftir af spjótum börðust þeir í návígi við annað áhlaup Keltanna. Rómverjarnir voru með stutt sverð sem hentuðu til stunguárása en Keltarnir með lengri sverð sem ætlað var til höggárása á opnari vettvangi. Þungabrynjur og stórir skildir Rómverjanna skýldu þeim og ef einn dáti lést tók sá næsti við. Þegar Rómverjarnir í fremstu línu sóttu fram í oddfylkingu reyndu Keltarnir að hörfa en gátu það ekki vegna vagna borgara og varaliða sem höfðu verið settir við öftustu víglínu sem síðasta varnarlínan.

Afleiðingar

breyta

Tacitus skrifar að næstum 80.000 Keltar hafi fallið í valinn, þar á meðal óbreyttir borgarar og varaliðar, en aðeins 400 Rómverjar. Samkvæmt honum fyrirfór Bódísea sér með því að innbyrða eitur. Dio skrifar hins vegar að hún hafi látist úr sjúkdómi og hafi hlotið glæsilega útför.

Þegar Postumus bárust fregnir af sigri Rómverja fyrirfór hann sér með því að kasta sér á sverð sitt. Catus Decianus, sem hafði flúið til Gallíu, veik úr embætti fyrir Gaius Julius Alpinus Classicianus. Suetonius leiddi refsileiðangra gegn þjóðunum sem höfðu tekið þátt í uppreisninni en gagnrýni frá Polyclitusi, þræli Nerós keisara, leiddi til rannsóknar þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þessar aðgerðir væru líklegar til að espa upp frekari uppreisnir. Suetonius var því einnig leystur úr embætti og hans í stað tók við Publius Petronius Turpilianus.[11]

Sagnaritarinn Gaius Suetonius Tranquillus ritar að uppreisn Bódíseu hafi nánast sannfært Neró um að það væri tímabært að Rómverjar yfirgæfu Bretland.[12]

Munnmælasögur um Bódíseu

breyta

Margar munnmælasögur og þjóðsögur eru til um Bódíseu.

Ein saga sem rekja má aftur til 19. aldar gengur út á að Bódísea gangi aftur í Lincolnshire. Hún á að sjást keyrandi um á stríðsvagni sínum og margir vegfarendur segjast hafa komið auga á hana. Óvíst er hve lengi þetta á að hafa verið að gerast. Sumir segja að drottningin hafi gengið aftur allt frá dauða sínum en aðrir vilja meina að reimleikarnir hafi hafist um það leyti sem áhugi Breta jókst á sögu Bódíseu á 19. öld.[13]

Samkvæmt annarri sögu er gröf Bódíseu að finna undir brautarpalli 8, 9 eða 10 á King's Cross-járnbrautarstöðinni í London.[14] Þessi sögusögn kemur frá bænum Battle Bridge, sem var áður þar sem járnbrautarstöðin er nú. Íbúar Battle Bridge töldu að bærinn hefði hlotið nafn sitt eftir orrustunni sem Bódísea tapaði. Þetta er í dag talið vera blekking sem birtist fyrst í bókinni Boadicea - Warrior Queen of the Britons (1937), þar sem þetta er staðhæft án heimildar.[15] Líklegri skýring á örnefninu Battle Bridge er að þetta sé skrumskæling á heitinu Broad Ford Bridge. Einnig hafa verið færðar fram kenningar um að gröf Bódíseu sé að finna í Parliament Hill, Hampstead eða í Suffolk.

Heimildir

breyta
  • „Bódísea ræðst á Lundúnaborg“. Samvinnan. 1. febrúar 1962. bls. 11-15.

Tilvísanir

breyta
  1. Tacitus, Agricola 14-16; Annals 14:29-39
  2. Cassius Dio. Roman History 62:1-12
  3. Graham Webster, Boudica: The British Revolt against Rome AD 60, 1978; Guy de la Bédoyère, The Roman Army in Britain Geymt 10 mars 2008 í Wayback Machine
  4. Kenneth Jackson, "Queen Boudicca?", Britannia 10, 1979
  5. Boudicca Dictionary.com Dictionary.com Unabridged (v 1.1). Random House, Inc. (hämtad 2007-12-20).
  6. Tacitus, Annals 12:31-32
  7. H. H. Scullard, From the Gracchi to Nero, 1982, p. 90
  8. John Morris, Londinium: London in the Roman Empire, 1982, pp. 107-108
  9. Tacitus, Agricola 15
  10. George Patrick Welch, Britannia: The Roman Conquest & Occupation of Britain, 1963, p. 107
  11. Tacitus, Annals XIV.39
  12. Suetonius, Nero 18, 39-40
  13. Dan Asfar, Haunted Highways: Ghost Stories and Strange Tales, 2003
  14. Queen Boadicea ( - 61) - Find A Grave Memorial
  15. Bob Trubshaw, "Boudica - the case for Atherstone and Kings Cross"