Galatía hin forna var svæði á hálendinu á miðjum Anatólíuskaganum þar sem nú er Tyrkland. Í norðri átti Galatía landamæri að Biþyníu og Paflagóníu, í austri að Pontus, í suðri að Lýkaóníu og Kappadókíu og í vestri að leifunum að Frýgíu sem Gallar höfðu lagt undir sig að hluta.

Kort sem sýnir rómversku nýlenduna Galatíu.

Galatía var svo nefnd eftir gallverskum ættflokki frá Þrakíu sem lögðu svæðið undir sig á 3. öld f.Kr.. Íbúar þar voru blanda af Göllum og Grikkjum. Galatar voru upphaflega hluti af þjóðflutningum Kelta sem réðust inn í Makedóníu undir stjórn gallverska höfðingjans Brennusar annars. Hann réðist inn í Grikkland árið 281 f.Kr. og klofningshópur úr liði hans fór gegnum Þrakíu 279 f.Kr. og kom til Litlu-Asíu 278-277 f.Kr.

Galatía var gerð að rómversku skattlandi af Ágústusi keisara árið 25 f.Kr.

Galatar töluðu enn keltneska málið galatísku á tímum Híerónýmusar kirkjuföður (d. 430).