Andrés Björnsson, (16. mars 1917 - 29. desember 1998) var íslenskur útvarpsstjóri, háskólakennari, þýðandi, ljóðskáld og rithöfundur. Hann gegndi mörgum ábyrgðarstöðum á sviði mennta- og menningarmála um ævina.

Uppruni og ætt

breyta

Andrés Björnsson var sonur Ingibjargar Stefaníu Ólafsdóttur, f. 14.8.1878, d. 27.1.1974, og Björns Bjarnasonar bónda, f. 30.8.1854 , d. 30.12.1926. Björn var oft kenndur við Brekku í Seyluhreppi í Skagafirði, þar sem þau hjónin bjuggu lengst. Andrés kvæntist Margréti Helgu Vilhjálmsdóttur, f.22.5.1920, hinn 3. júlí 1947. Börn þeirra eru: 1) Valgerður, f. 12.1.1949, gift Ögmundi Jónassyni, f.17.7. 1948. 2) Vilhjálmur Kristinn, f. 16.9.1951, giftur Kristínu Jóhannsdóttur, f. 25.2.1953. 3) Ólafur Bjarni, f. 14.1.1955. 4) Margrét Birna, f. 14.9.1957, eiginmaður Jón Þórisson, f. 12.1.1954.

Nám og störf

breyta

Andrés brautskráðist með cand.mag. próf í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1943.  Hann stundaði nám við Boston-háskóla í Bandaríkjunum í útvarps- og sjónvarpsfræðum árið 1956. Hann starfaði við breska útvarpið BBC frá 1943-1944. Andrés hóf störf hjá Ríkisútvarpinu árið 1944 og starfaði þar allt til ársins 1984. Starfsferill hans hjá Ríkisútvarpinu var sem hér segir: Fyrstu árin var hann umsjónarmaður innlendra frétta og fulltrúi. Skrifstofustjóri útvarpsráðs 1951-52, dagskrárstjóri 1958-67 og útvarpsstjóri frá 1. janúar 1968 allt þar til hann lét af störfum 31.12.1984. Andrés sinnti talsvert mikið kennslustörfum meðfram störfum sínum hjá útvarpinu. Síðasta námsár sitt í Háskóla Íslands kenndi hann við Menntaskólann í Reykjavík, og einnig 1944-1945. Við Verslunarskóla Íslands kenndi hann 1952-1955. Andrés var lektor í íslenskri bókmenntasögu við Háskóla Íslands 1965-1968 en kaus að hverfa frá því starfi og fór aftur til Ríkisútvarpsins. Hann var heiðursfélagi í Þjóðræknisfélagi Íslendinga í Vesturheimi. Andrés Björnsson var lengi prófdómari í íslensku við Menntaskólann á Akureyri.

Af öðrum störfum Andrésar Björnssonar má nefna þessi:

 • Í stjórn Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins frá 1956.
 • Formaður Tónskáldasjóðs Ríkisútvarpsins frá 1968.
 • Í Útvarpslaganefnd 1969.
 • Formaður byggingarnefndar nýs útvarpshúss 1971-81.
 • Í stjórn Hins íslenska fornritafélags.
 • Í úthlutunarnefnd listamannalauna 1966-70.
 • Stjórnarformaður Sinfóníuhljómsveitar íslands 1968-82.
 • Ritari stjórnar Listahátíðar í Reykjavík 1968-74.[1]

Ritstörf og þýðingar

breyta

Ljóð Jóns Þorsteinssonar á Arnarvatni (1960). Ísafoldarprentsmiðja 1960.

Ljóðmæli eftir Jón Þorláksson á Bægisá (1956). Íslensk úrvalsrit Menningarsjóðs 1956.

Afmælisrit á þrítugsafmæli Hins íslenska fornritafélags. Reykjavík 1958.

Konu ofaukið, eftir danska rithöfundinn Knud Sönderby. Sýnt í Þjóðleikhúsinu 1950. Þýðing.

Heimur í hnotskurn, sögur af Don Camillo og Peppone eftir ítalska höfundinn Giovanni Guareschi. 1952. Þýðing.

Nýjar sögur af Don Camillo. 1954. Þýðing.

Leikritið Don Camillo og Peppone. Flutt í Þjóðleikhúsinu 1957. Þýðing.

Svarta blómið eftir John Galsworthy. Menningarsjóður 1957. Þýðing.

Alan Paton: Grát, ástkæra fósturmold. Almenna bókafélagið, 1955. Þýðing.

Alan Paton: Of seint, óðinshani. Ísafoldarprentsmiðja 1960. Þýðing.

Maria Dermout: Frúin í Litlagarði. Almenna bókafélagið 1960. Þýðing.

Árni Magnússon (handritasafnari): Galdramálin í Thysted. Helgafell, 1962. Þýdd ritgerð.

Knut Hamsun: Benoni. Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi þýddi fyrri hlutann, en Andrés Björnsson þann síðari.

Töluð orð. Áramótahugleiðingar Andrésar Björnssonar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1985.

Hljóðbók

breyta

Árið 1996 gaf Afmælissjóður Ríkisútvarpsins út geisladisk með upplestri Andrésar Björnssonar á ljóðum eftir þrettán skáld. Gunnar Stefánsson kynnir ljóðin.Upptökurnar, sem eru úr segulbandasafni Ríkisútvarpsins, eru frá tímabilinu 1946 til 1981. Japis hf. sá um dreifingu. Ljóðin á diskinum eru þessi:

Íslands minni og Oddur Hjaltalín eftir Bjarna Thorarensen (1786-1841).

Kvæðið um fuglana og Skógarhind eftir Davíð Stefánsson (1895-1964).

Kvöld í Róm eftir Einar Benediktsson (1864-1940).

Þú fórst aleinn þinnar leiðar eftir Guðmund Friðjónsson (1869-1944).

Hörpuskel, Kvöld í smiðju og Sjávarhamrar eftir Guðmund Böðvarsson (1904-1974).

Guðs Hönd, Móðurmálið, Son Guðs, Konungstign Jesú og Heilræðavísur eftir Hallgrím Pétursson (1614-1674).

Hallgrímur Pétursson eftir Matthías Jochumsson (1835-1920).

Ást eftir Sigurð Nordal (1886-1974).

Um Ásmund hefðarhósta, Bergur líttlæs og Meyjarmissir eftir Stefán Ólafsson (1619-1688).

Haustnótt, Boðun Maríu, Nú andar næturblær, Við Vatnsmýrina og frá Liðnu vori eftir Tómas Guðmundsson (1901-1983).

Kvöldbæn og Lokkandi hæðir eftir Sigurð Stefánsson frá Brún (1898-1970).

Siesta eftir Stein Steinarr (1908-1958).

Ljóð eftir Andrés Björnsson

breyta

Sem dæmi um ljóð eftir Andrés Björnsson er Vorið (1947):


Sjá vorið blika um loft og lagar brá

og ljóma slá um heiði og mó.

Heyr fuglsins rödd, sem hljómar há

við háan klett og lágan skóg.


Kannski átti eg aldrei neitt í þér,

mitt ættarland með fjöllin blá,

þó eitt sinn hafi eg eignað mér

þinn eyðisand og jökulsnjá.


Þar sem áður út um hvolfin blá

flaug óska minna fugl og söng,

nú silast óttauglan grá

með ógn í vængjum dægrin löng.

Ýmislegt

breyta

Andrés Björnsson fékk eins ár leyfi frá útvarpinu 1963-1964 til að kanna gögn og safna heimildum um ljóðskáldið Grím Thomsen, sem lengi starfaði í dönsku utanríkisþjónustunni. Safnaði Andrés talsvert miklum heimildum í Kaupmannahöfn um Grím Thomsen, en ætlun hans var að gefa síðar út bók um ævi hans og skáldskap.[2][3]

Tilvísanir

breyta


 1. „Andrés Björnsson“.
 2. „Andrés Björnsson útvarpsstjóri“.
 3. „Andrés Björnsson“.