Andrés Önd

teiknimyndapersóna Disney
(Endurbeint frá Andrés önd)

Andrés Önd (enska Donald (Fauntleroy) Duck) er teiknimynda- og teiknimyndasögupersóna úr smiðju Walt Disney samsteypunnar. Hann er persónugerð önd í svörtum og bláum matrósafötum, með sjóliðahatt. Hann er skapstór og uppstökkur.

Andrés birtist upphaflega og náði vinsældum í stuttum teiknimyndum sem birtust í bandarískum kvikmyndahúsum frá og með myndinni The Wise Little Hen árið 1934. Í annarri teiknimyndinni þar sem hann birtist, Orphan's Benefit, var hann gerður að félaga Mikka Músar. Næstu tvo áratugina birtist Andrés í rúmlega 150 teiknimyndum í kvikmyndahúsum og hlaut Óskarsverðlaun fyrir sumar þeirra. Á fjórða áratugnum birtist hann venjulega sem hluti af þríeyki ásamt Mikka Mús og Guffa en hann fór að birtast einn síns liðs í teiknimyndum árið 1937 frá og með teiknimyndinni Don Donald. Í teiknimyndunum þar sem hann einn var stjarnan voru nýjar persónur tengdar Andrési kynntar til sögunnar, þar á meðal kærasta hans, Andrésína, og frændur hans, Ripp, Rapp og Rupp.

Auk ferils síns í teiknimyndum er Andrés jafnframt vinsæl myndasögupersóna. Frægustu teiknararnir sem unnu að Andrésarsögum í bókum og blöðum voru Al Taliaferro, Carl Barks og Don Rosa. Barks er þekktur fyrir að skapa sagnaheim sem er kenndur við Andrés og bætti ýmsum nýjum persónum við hann, þar á meðal hinum moldríka frænda Andrésar, Jóakim Aðalönd. Sem myndasögupersóna er Andrés mun vinsælli í Evrópu en í Bandaríkjunum, sérstaklega á Norðurlöndunum, þar sem vikuleg Andrésblöð eru víða enn mjög vinsæl. Stundum er talað um aðdáendahópa Andrésar sem „Andrésarfræðinga“[1] eða „Donaldista“ á norsku.[2][3]

Byrjun ferilsins

breyta

Andrés birtist fyrst í stuttteiknimyndinni The Wise Little Hen árið 1934, en sú mynd var hluti af teiknimyndaröðinni Silly Symphonies sem Disney samsteypan gaf út. Það var Dick Lundy sem teiknaði Andrés sem birtist í þættinum sem aukapersóna, en þá var hann slánalegri á að líta en þó auðþekkjanlegur. 1936 var hann endurhannaður og fékk þá nánast á sig núverandi útlit. Í janúar 1937 var hann svo aðalsöguhetja í þætti í fyrsta skipti.

Afmælisdagurinn

breyta

Til eru nokkrar tillögur að afmælisdegi Andrésar og er engin þeirra „opinber afmælisdagur“ hans.

Í myndinni the three Caballeros sem kom út 1945 er sagt að Andrés eigi afmæli á föstudeginum þrettánda. Þá kemur helst til greina 13. október, en það er sá dagur næst á undan útkomu myndarinnar sem féll á föstudag þrettánda. Í myndinni Donald's Happy Birthday frá 1949 kemur fram að afmælisdagurinn hans hafi verið 13. mars. Núna er dagurinn 9. júní yfirleitt talinn vera afmælisdagur Andrésar, en það er dagurinn þegar fyrsta myndin um hann kom út.

Samkvæmt Don Rosa, einum þekktasta teiknara Disney, er Andrés fæddur árið 1920. (Myndasögurnar (viðfangsefni Don Rosa) eiga að gerast einhvern tíma um 1947-1951.)

Frægðin

breyta
 
Nafn Andrésar Andar á Hollywood Walk of Fame-götunni í Los Angeles.

Andrés Önd er eflaust þekktastur fyrir teiknimyndasögurnar sem byrjuðu snemma en upphaflega voru þær bara fjögurra ramma dagblaðabrandarar eftir Bob Carp og Al Taliaferro sem voru höfundarnir að Andrésínu, kærustunni hans, og Ripp, Rapp og Rupp, litlu frændunum, en frægustu teiknimyndasögurnar um hann eru eftir Carl Barks sem hannaði Andabæ og marga af íbúum hans. Vinsælasti nútímateiknarinn er án efa Don Rosa en hann er þekktur fyrir nákvæm smáatriði í teikningum og mikla þekkingu á viðfangsefninu.

Fjölskylda

breyta

Hann á systur sem heitir Della Önd sem er móðir Ripps, Rapps og Rupps. Mamma hans og pabbi heita Rasmus Önd og Hortensía Aðalönd. Andrés Önd er mjög óheppin og er það aðaleinkenni persónunnar.

Andrés í seinni heimsstyrjöldinni

breyta

Líkt og margar bandarískar teiknimyndapersónur birtist Andrés í mörgum áróðursmyndum á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar. Ein sú þekktasta var teiknimyndin Der Fuhrer's Face sem kom út þann 1. janúar 1943 og var háðsádeila á ofríki fasismans í Evrópu. Í myndinni leikur Andrés hlutverk vinnumanns í eldflaugaverksmiðju í Þýskalandi nasismans. Stjórnvöldin misþyrma Andrési, láta hann vinna að brotnu baki án hvíldar og matar,[4] og neyða hann til að heilsa að hætti nasista í hvert skipti sem hann sér mynd af Adolf Hitler. Í lok myndarinnar, þegar Andrés er við það að ganga af göflunum, vaknar hann upp af vondum draumi í rúmi sínu í Bandaríkjunum og horfir á Frelsisstyttuna og bandaríska fánann, feginn því að vera bandarískur en ekki þýskur. Der Fuhrer's Face vann Óskarsverðlaun árið 1942 sem besta stuttteiknimyndin.

Andrés birtist einnig í sjö stuttmyndum á stríðsárunum sem hermaður í Bandaríkjaher. Í þeirri fyrstu er hann kvaddur í herinn og fer í gegnum grunnþjálfun en í hinnu síðustu fer hann í fyrsta sinn á vettvang til þess að vinna skemmdarverk á japanskri loftstöð. Vegna þessara mynda voru myndir af Andrési á fjölmörgum bandarískum herflugvélum í stríðinu.[5] Andrés var lukkudýr ýmissa deilda bandaríska flughersins.[6][7]

Þegar Andrés varð 50 ára árið 1984 leysti Bandaríkjaher Andrés formlega af störfum með titilinn „Buck Sergeant“[8] og hélt honum sérstaka athöfn og skrúðgöngu í Torrance.[9]

Tilvísanir

breyta
  1. „Sögur af Andrési Önd og félögum eftir Carl Barks, frægasta teiknara Disney“, Leyndardómur gamla kastalans, Vaka-Helgafell (1995), bls. 7.
  2. „DON ROSA on Carl Barks“. Bpib.com. 1. janúar 2001. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. febrúar 2011. Sótt 1. ágúst 2011.
  3. „Hardcore Gaming 101: Donald Duck“. www.hardcoregaming101.net.
  4. „Donald Duck does it in style“. BBC News (BBC). 9. júní 2004. Sótt 4. október 2012.
  5. „Military Aircraft Nose Art“. Naval Air Station Fort Lauderdale Museum. Sótt 4. október 2012.
  6. „309th Fighter Squadron“. 31st Fighter Group. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. ágúst 2007. Sótt 30. ágúst 2007.
  7. Noble, Dennis L. (júní 2001). „The Corsair Fleet“ (PDF). The Beach Patrol and Corsair Fleet. Coast Guard. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 12. febrúar 2012. Sótt 30. ágúst 2007.
  8. „buck sergeant“.
  9. Hill, Jim. „Buck Sergeant Duck and other tales of Donald's 50th birthday celebration“. jimhillmedia.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. febrúar 2018. Sótt 16. febrúar 2018.