Carl Barks
Carl Barks (27. mars 1901 – 25. ágúst 2000) var heimsþekktur teiknari og myndasöguhöfundur sem starfaði fyrir The Walt Disney Company. Hann skapaði fyrstur Andabæ og margar af sögupersónunum í veröld Andrésar andar, s.s. Jóakim Aðalönd, Georg Gírlausa og Ömmu Önd. Hann hóf störf sem teiknari í teiknimyndaverum Disney árið 1935 en hætti 1942 vegna vinnuálags og slæms lofts á vinnustaðnum. Rétt áður en hann hætti hafði hann tekið þátt í ásamt Jack Hannah að teikna myndasögu með Andrési Önd sem var gefin út af Western Publishing. Ári síðar hóf hann störf þar sem myndasöguhöfundur og vann bæði sögurnar og myndirnar. Sögurnar sem hann gerði voru ómerktar, eins og venjan er í framleiðslu á myndasögum Walt Disney Company en lesendur tóku brátt eftir því að gæðin á sögum Barks voru meiri en annarra. Hann var því kallaður „góði andateiknarinn“ löngu áður en nafn hans varð þekkt. Hann fór á eftirlaun árið 1966 en hélt áfram að skrifa fyrir myndasögur.
Carl Barks kom í heimsókn til Íslands árið 1994 í byrjun reisu sinnar um Evrópu, þá 93 ára að aldri. Þetta var í fyrsta sinn sem hann ferðaðist út fyrir landsteina Bandaríkjanna og Ísland var fyrsti viðkomustaður hans. Honum var vel tekið af Íslendingum og 150 börn sungu afmælissöng fyrir þá Andrés, sem varð sextíu ára það ár, á Hótel Loftleiðum.[1]
Tilvísanir
breyta- ↑ „HÖFUNDUR ANDRÉSAR ANDAR Í HEIMSÓKN Á ÍSLANDI ANDA PABBI ANDA PABBI Carl“. Morgunblaðið. 26. júní 1994. Sótt 16. febrúar 2018.