Jólanda af Dreux
Jólanda af Dreux (1263 – 2. ágúst 1330) var frönsk aðalskona sem var drottning Skotlands 1286-1287 sem eiginkona Alexanders 3. Skotakonungs og síðan hertogaynja af Bretagne.
Jólanda var af Kapet-ætt, dóttir Róberts 4. greifa af Dreux, sem var afkomandi Loðvíks 6. Frakkakonungs, og konu hans Beatrice af Montfort og erfði hún greifadæmið Montfort eftir móður sína. Þann 15. október 1285 giftist Jólanda Alexander 3. Skotakonungi, sem var 22 árum eldri. Hann var þá ekkjumaður, hafði misst öll þrjú börn sín á árunum 1281-1284 og átti aðeins eftir barnunga dótturdóttur, Margréti Noregsprinsessu, svo að honum lá á að eignast erfingja. En aðeins fimm mánuðum síðar, í mars 1286, lést konungur eftir að hafa fallið af hestbaki. Talið var að Jólanda væri þunguð og voru kosnir fulltrúar til að stýra ríkinu fyrir væntanlegan ríkisarfa en annaðhvort fæddist aldrei neitt barn eða Jólanda missti fóstur eða fæddi andvana barn, um það ber heimildum ekki saman.
Jólanda giftist aftur árið 1292, Arthúr 2. hertoga af Bretagne, og átti með honum að minnsta kosti sex börn. Hún var seinni kona Arthúrs og stjúpsonur hennar, Jóhann 3. af Bretagne, var afar ósáttur við stjúpmóður sína og hálfsystkini og eftir dauða Arthúrs reyndi hann mikið til að fá hjónabandið úrskurðað ógilt og hálfsystkini sín óskilgetin en varð ekki ágengt. Elsti sonur Arthúrs og Jólöndu hét einnig Jóhann og varð greifi af Montfort við lát móður sinnar.
Þegar Jóhann 3. dó barnlaus árið 1341 gerði Jóhann hálfbróðir hans tilkall til erfða sem Jóhann 4. og það gerði einnig Karl af Blois, eiginmaður Jóhönnu höltu, bróðurdóttur Jóhanns 3. Upphófst þá Bretónska erfðastríðið, sem ekki lauk fyrr en 1364, þegar Karl féll í orrustunni við Auray og Jóhann 5., sonur Jóhanns af Montfort, varð hertogi af Bretagne.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Yolande of Dreux, Queen of Scotland“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. júní 2011.