Alben W. Barkley
Alben William Barkley (24. nóvember 1877 – 30. apríl 1956) var bandarískur lögfræðingur og stjórnmálamaður sem var varaforseti Bandaríkjanna frá 1949 til 1953 í forsetatíð Harry S. Truman. Barkley hafði áður setið á báðum deildum Bandaríkjaþings og hafði verið leiðtogi þingmeirihluta Demókrataflokksins á öldungadeild þingsins frá 1937 til 1947.
Alben W. Barkley | |
---|---|
Varaforseti Bandaríkjanna | |
Í embætti 20. janúar 1949 – 20. janúar 1953 | |
Forseti | Harry S. Truman |
Forveri | Harry S. Truman |
Eftirmaður | Richard Nixon |
Öldungadeildarþingmaður fyrir Kentucky | |
Í embætti 3. janúar 1955 – 30. apríl 1956 | |
Forveri | John Sherman Cooper |
Eftirmaður | Robert Humphreys |
Í embætti 4. mars 1927 – 19. janúar 1949 | |
Forveri | Richard P. Ernst |
Eftirmaður | Garrett L. Withers |
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 1. kjördæmi Kentucky | |
Í embætti 4. mars 1913 – 3. mars 1927 | |
Forveri | Ollie M. James |
Eftirmaður | William Voris Gregory |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 24. nóvember 1877 Lowes, Kentucky, Bandaríkjunum |
Látinn | 30. apríl 1956 (78 ára) Lexington, Virginíu, Bandaríkjunum |
Stjórnmálaflokkur | Demókrataflokkurinn |
Maki | Dorothy Brower (g. 1903; d. 1947) Jane Rucker Hadley (g. 1949) |
Börn | 3 |
Háskóli | Marvin-háskóli (BA) |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaAlben Barkley fæddist árið 1877 á bóndabýli í Kentucky. Afi hans hafði flutt þangað með fjölskyldu sína en hafði áður búið við austurströnd Bandaríkjanna. Barkley gekk í ýmsa skóla á heimaslóðum sínum uns hann hlaut inngöngu í lagadeild Virginíuháskóla. Hann vann sem kyndari í skólanum samhliða náminu. Árið 1901 hóf Barkley störf sem lögfræðingur í Paducah.[1]
Árið 1904 var Barkley kjörinn saksóknari í McCracken County í Kentucky. Hann var síðan kjörinn á fulltrúadeild Bandaríkjaþings árið 1913, náði endurkjöri sex sinnum og sat á þingdeildinni samfleytt í þrettán ár. Árið 1926 bauð Barkley sig fram á öldungadeild þingsins fyrir Kentucky og náði kjöri.[1]
Barkley var meðal þeirra forystumanna innan Demókrataflokksins sem áttu helstan þátt í því að Franklin D. Roosevelt var valinn sem forsetaframbjóðandi flokksins fyrir forsetakosningarnar 1932. Roosevelt launaði Barkley stuðninginn með því að fela honum að flytja aðalræðuna á flokksþingi Demókrataflokksins árið 1936 þar sem Roosevelt var valinn sem forsetaefni í annað skipti. Eftir forsetakosningarnar 1936 beitti Roosevelt sér fyrir því að Barkley yrði valinn þingflokksleiðtogi flokksins á öldungadeildinni.[1]
Sem leiðtogi Demókrata á öldungadeildinni átti Barkley þátt í að koma ýmsum stefnumálum Roosevelt í gegnum þingið, meðal annars láns- og leigulögum, herskyldulögum og lögum um ýmsa aðstoð við bandamenn.[1] Barkley var af mörgum talinn líklegur til að verða næsti forsetaframbjóðandi Demókrata fyrir kosningarnar 1940 áður en Roosevelt ákvað að gefa kost á sér í þriðja skipti.[2]
Undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, þann 24. apríl 1945, ferðaðist Barkley til Buchenwald-fangabúðanna í Þýskalandi, sem Bandaríkjaher hafði frelsað nokkrum dögum fyrr. Dwight D. Eisenhower hershöfðingi hafði skilið lík fórnarlamba nasista eftir ógrafin svo bandarískir þingmenn gætu gert sér grein fyrir umfangi lokalausnar nasista við „Gyðingavandanum“.[3][4]
Harry S. Truman, eftirmaður Roosevelt á forsetastól, valdi Barkley sem varaforsetaefni sitt fyrir forsetakosningarnar árið 1948. Þeir höfðu áður unnið saman á öldungadeild þingsins. Truman hafði áður verið mótfallinn því að Barkley yrði fyrir valinu og hafði lagt áherslu á að einhver yngri manna úr flokknum yrði varaforsetaefni, en Barkley var á þessum tíma einn elsti varaforsetaframbjóðandi í sögu Bandaríkjanna. Hins vegar kom það Barkley til góðs að hann þótti einn besti merkisberi stefnunnar sem Roosevelt hafði mótað og þingflokkur Demókrata hafði fylgt á meðan Barkley var þingflokksleiðtogi.[1]
Truman og Barkley unnu óvæntan sigur í forsetakosningunum 1948 og Barkley tók því við embætti varaforseta Bandaríkjanna í byrjun næsta árs. Barkley varð virkur meðlimur í stjórn Trumans og var einn helsti talsmaður hennar, sér í lagi eftir að Kóreustríðið tók mestalla athygli forsetans. Þegar Truman tilkynnti að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri árið 1952 hóf Barkley að skipuleggja eigið forsetaframboð en verkalýðsleiðtogar neituðu að styðja framboð hans vegna aldurs hans og hann dró sig því úr forvalinu.
Barkley dró sig til hlés en hóf aftur þátttöku í stjórnmálum stuttu síðar og náði endurkjöri á öldungadeild Bandaríkjaþings árið 1954.[5] Barkley lést úr hjartaáfalli þann 30. apríl 1956.[6]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Alben W. Barkley“. Tíminn. 25. ágúst 1948. bls. 5-6.
- ↑ „Barkley“. Vísir. 20. ágúst 1937. bls. 2.
- ↑ „American Congressmen and reporters visit Buchenwald, April 24, 1945“. www.scrapbookpages.com. Afrit af uppruna á 18. nóvember 2020. Sótt 13. september 2019.
- ↑ „American congressmen view the open ovens in the Buchenwald crematorium“. collections.ushmm.org. United States Holocaust Memorial Museum. Afrit af uppruna á 7. mars 2021. Sótt 13. september 2019.
- ↑ Finch, Glenn (júlí 1971). „The Election of United States Senators in Kentucky: The Barkley Period“. Filson Club History Quarterly. 45 (3): 167.
- ↑ James K. Libbey, Alben Barkley: A Life in Politics (2016) kaflar 13-16.
Fyrirrennari: Harry S. Truman |
|
Eftirmaður: Richard Nixon |