Jón Halldórsson í Hítardal

Jón Halldórsson (6. nóvember 166527. október 1736) prófastur og sagnaritari í Hítardal í Hraunhreppi í Mýrasýslu var mikilvirkur rithöfundur og fræðimaður.

Séra Jón var sonur Halldórs Jónssonar, sem var prestur í Reykholti frá 16571704, og konu hans Hólmfríðar Hannesdóttur. Jón fór í Skálholtsskóla fjórtán ára að aldri og útskrifaðist þaðan eftir fjögurra ára nám. Hann sigldi og hóf nám í Kaupmannahafnarháskóla 1686 og var þar í tvö ár. Eftir heimkomuna 1688 var hann heyrari í Skálholtsskóla í fjögur ár en varð prestur í Hítardal árið 1692 og gegndi því embætti til dauðadags. Eftir því sem Finnur sonur hans segir í Kirkjusögu sinni fór Jón ekki að gefa sig að sagnaritun fyrr en um fimmtugt, það er að segja um 1715, en þá tók hann við sér svo um munaði og er almennt talinn merkasti sagnaritari Íslendinga á fyrri hluta 18. aldar.

Jón skrifaði meðal annars sögur biskupa á Hólum og í Skálholti og sögur skólameistara, presta og alþingisskrifara. Hann skráði einnig Hítardalsannál, Hirðstjóraannál og fleiri sagnarit.

Árið 1708 átti Jón biskup Vídalín í mestu vandræðum með að fá hæfan skólameistara í Skálholtsskóla af því að lærðum mönnum hafði fækkað svo mjög í Stórubólu. Fékk hann þá séra Jón til að koma og gegna skólameistarastarfinu um tveggja ára skeið. Árið 1710 varð svo Þorleifur Arason skólameistari en séra Jón fór aftur í Hítardal. Hann hafði oft ungmenni hjá sér og kenndi þeim og stundum voru stúdentar í framhaldsnámi hjá honum eftir að hafa útskrifast úr Skálholts- eða Hólaskóla.

Eftir lát Jóns biskups Vídalín gegndi Jón biskupsstörfum í tvö ár. Hann var kosinn biskup að sér fjarstöddum við útför Jóns Vídalin og aftur á Alþingi sumarið eftir af prestum úr Skálholtsbiskupsdæmi og ætlaði hann að taka því og fara utan með Eyrarbakkaskipi til að sækja vígslu en þá fréttist að séra Jón Árnason, prófastur í Strandasýslu, ætlaði að sigla til að sækjast eftir biskupsembættinu og hætti hann þá við utanferð þótt margir hvettu hann til að fara. Hann dó 27. október 1736 eftir að hafa legið rúmfastur frá jólum árið áður.

Kona Jóns var Sigríður Björnsdóttir (1667 – 1756) frá Snæfoksstöðum. Synir þeirra voru þeir Finnur Jónsson biskup og Vigfús Jónsson, prestur og fræðimaður í Hítardal.

Heimildir

breyta
  • „Lagaði latínuna að íslenzku orðfæri. Lesbók Morgunblaðsins, 24. febrúar 1979“.
  • „„Saga latínuskóla á Íslandi til 1846". Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 14. árgangur 1893“.
  • „„Skólameistararöð í Skálholti". Norðanfari, 3.-4. tölublað 1880“.