Þorláksmessa

árlegur minningardagur um Þorlák helga biskup haldinn 23. desember
(Endurbeint frá Þorláksmessa á sumri)

Þorláksmessa, sem er þann 23. desember, er haldin til minningar um Þorlák hinn helga Þórhallsson biskup í Skálholti. Hann lést 23. desember 1193 og var þessi messudagur tekinn upp honum til heiðurs og lögleiddur 1199.

Þorláksmessa á sumri

breyta

Þorláksmessa á sumri er 20. júlí og var lögleidd 1237 til að minnast þess að þann dag 1198 voru bein Þorláks tekin upp til að nýtast til áheita. Var sumarmessa þessi ein mesta hátíð ársins á Íslandi fyrir siðaskipti.

Útnefning Þorláks sem dýrlingur

breyta

Jóhannes Páll páfi II útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands með tilskipun 14. janúar 1984[1] og er hann um leið verndari Kristskirkju í Reykjavík. Þorlákur er eini íslenski dýrlingurinn í kaþólskri trú sem hefur hlotið staðfestingu páfa.

Þorláksmessa á okkar tímum

breyta

Á seinni tímum hefur Þorláksmessa orðið hluti af jólaundirbúningnum. Margir ljúka við að skreyta hús og híbýli og aðrir hafa þann sið að skreyta jólatréð á þessum degi. Á Þorláksmessukvöld í Reykjavík hefur skapast sú hefð að ganga friðargöngu niður Laugarveginn.

Á Vestfjörðum er vaninn að borða kæsta skötu á Þorláksmessu en sá siður hefur á síðustu árum orðið algengur um allt land.

Tilvísanir

breyta
  1. Acta Apostolicae Sedis, bindi LXXVI, bls. 438, Typis Polyglottis Vaticanis M-DCCCC.LXXXIV.