Ísabella af Bæjaralandi
Ísabella af Bæjaralandi (um 1370 – 24. september 1435) (franska: Isabeau) var drottning Frakklands frá 1385-1422 sem kona Karls 6. Frakkakonungs og lék töluvert hlutverk í stjórn ríkisins á síðari árum hans á konungsstóli, enda var hann þá löngum ófær um að stjórna vegna geðveiki.
Foreldrar Ísabellu voru Stefán 3. af Bæjaralandi-Ingolstadt og Taddea Visconti. Föðurafi hennar var Stefán 2. hertogi af Bæjaralandi, sonur Lúðvíks 4. keisara. Ísabella giftist Karli, konungi Frakklands, árið 1385 þegar bæði voru um 15 ára gömul, og fæddi fyrsta barn sitt ári síðar. Síðan eignaðist hún ellefu börn til viðbótar. Fimm dætur náðu fullorðinsaldri og urðu tvær þeirra, Ísabella og Katrín, drottningar Englands.
Þrír synir hennar komust á legg en tveir þeirra dóu innan við tvítugt, kvæntir en barnlausir. Karl, sem var fimmti í röðinni af sonum hennar, var sá eini sem lifði. Upp úr 1420 komust á kreik miklar sögur um lauslæti drottningar og framhjáhöld en líklegt er að þeim hafi verið komið á kreik til að varpa vafa á faðerni Karls eftir að faðir hans svipti hann arfi með Troyes-sáttmálanum 1420 og samþykkti að Hinrik 5. Englandskonungur skyldi erfa frönsku krúnuna.
Geðveiki Karls 6. kom fyrst fram þegar hann var hálfþrítugur og eftir það fékk hann tíð köst og var þá ekki mönnum sinnandi og þekkti iðulega ekki konu sína og börn. Hann var þá að sjálfsögðu ófær um að stjórna ríkinu og var hart barist um völdin af ættmennum hans. Ísabella drottning lék þar stórt hlutverk, enda þurfti hún að gæta hagsmuna sinna og sona sinna, en enginn þeirra náði að verða fullveðja nema Karl. Hann varð krónprins fjórtán ára að aldri þegar Jóhann bróðir hans dó 1417.
Tveimur árum síðar fékk Karl frænda sinn og einn helsta andstæðing konungsfjölskyldunnar, Jóhann óttalausa, hertoga af Búrgund, til að koma til samningaviðræðna en menn krónprinsins réðust að hertoganum og drápu hann. Sonur Jóhanns, Filippus góði, gekk þá í bandalag við Englendinga en fram að því höfðu Búrgundarmenn verið hlutlausir að mestu. Þetta varð til þess að Karl konungur - eða í raun Ísabella drottning - neyddist til að samþykkja Troyes-sáttmálann árið 1420. Konungshjónin voru líka mjög reið við son sinn vegna valdabrölts hans og morðsins á Búrgundarhertoga og hann hafði óhlýðnast foreldrum sínum og neitað að snúa heim til Parísar, heldur leitaði athvarfs í Suður-Frakklandi hjá Jólöndu Navarradrottningu.
Karl 6. dó í október 1422. Ísabella drottning var um kyrrt á yfirráðasvæði Englendinga og hafði engin áhrif á frönsk stjórnmál eftir lát manns síns. Hún dó í París 1435.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Isabeau of Bavaria“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. maí 2011.