Wenzhou
Wenzhou (kínverska: 温州; rómönskun: Wēnzhōu; sögulega þekkt sem Wenchow) er stórborg á héraðsstigi á suðausturhluta Zhejiang-héraðs í Alþýðulýðveldinu Kína. Borgin er hafnarborg sem situr á suðurbakka neðri hluta Ou-fljóts er fellur í Suður-Kínahaf.[1] [2] Wenzhou er mikil iðnaðar- og viðskiptaborg. Hún er þriðja stærsta borg Zhejiang og miðstöð efnahags, menningar og flutninga suðurhluta héraðsins.
Wenzhou er fjöllótt, um 76 prósent af flatarmáli hennar eru fjöll og hæðir. Sögulega einangraði fjalllendið borgina að miklu frá öðrum héruðum Kína. Það ýtti mjög undir staðbundna menningu og aðgreiningu tungumáls jafnvel frá nálægum svæðum.
Sögulega var Wenzhou velmegandi „erlend sáttmálahöfn“ (þá þekkt sem „Yungkia“) er var opin fyrir utanríkisviðskipti. Þetta var einnig heimaborg margra brottfluttra Kínverja til Evrópu og Ameríku, með orðspor frumkvöðla, þar sem þeir stofnuðu veitingastaði, smásölu- og heildsölufyrirtæki. Margir með rætur í Wenzhou búa til að mynda í Toskana á Ítalíu og í New York borg. Síðan efnahagsumbætur hófust í Kína árið 1978 með auknu viðskiptafrelsi, hefur Wenzhou verið ört vaxandi stórborg hagvaxtar og aukinnar velmegunar.
Í síðasta manntali í Kína, árið 2020, bjuggu í borginni 2,6 milljónir manna, en um 9,6 milljónir á öllu stjórnsýslusvæði borgarinnar. Undir lögsögu borgarinnar falla fjögur fjölmenn hverfi,tvær undirborgir og fimm sýslur. Frá árinu 2019 hefur borgin verið hluti af samþættu skipulagi hinu fjölmenna Jangtse óshólmasvæði.
Saga
breytaFornsaga
breytaSaga þéttbýlis þar sem nú er Wenzhou, nær aftur til um 2500 f.Kr. Fundist hafa meira en 100 menningarstaðir sem eiga rætur í lokum forsteinaldar. Meðal fornleifa hafa fundist steinplógar, steinsigðir, steinaxir, steinhnífar, steinspjót og spunahjól. Forfeðurnir stunduðu fiskveiðar, veiði og búskap.[3]
Svæðið var meðal annars þekkt fyrir þróaða framleiðslu leirmuna með grágrænum jaði glerjungi sem tíðkaðist í Kína til forna.[1]
Keisaratímar
breytaFrá 472 f.Kr. til 138 f.Kr., á fjórða ári Yuan konungs af Zhou (472 f.Kr.), eftir að Goujian konungur af Yue eyddi Wu, tilnefndi hann börn sín sem hertoga. Hertoginn af Dongou var fengið lénið Dongou Yue og stofnaði hann þar konungsríkið Dong'ou sem liggur í suðausturhluta Zhejiang þar sem borgirnar Wenzhou og Taizhou standa nú. Wenzhou var höfuðborg þessa forna Dong'ou konungsríkis sem stóð frá 191 f.Kr. er Liu Yingli, var konungur þess og Austur-Kínahafs. Það leið undir árið 138 f.Kr.[3]
Árið 323 á tíma Austur-Jinveldisins (317–420) var þéttbýlið nefnt Yongjia-hérað og árið árið 675 á valdatíma Tangveldisins (618–907) tók það nafnið Wenzhou.[4]
Árið 999 samþykkti Songveldið (960–1279) Wenzhou borg til utanríkisviðskipta. Á þeim tíma var þar blómlegur skipasmíðaiðnaður og var pappírsgerð þess og lakkvörusmíði vel þekkt. Árið 1132 var sett upp skoðunarstöð í borginni til að stjórna og koma á meiri stöðugleika í utanríkisviðskiptum.[2]
Borgarmúrarnir voru reistir á 10. öld og hliðin sjö að múrunum voru reist árið 1598.[1]
19. og 20. öld
breytaÍ júní 1840 á tíma Tjingveldisins (1636–1912) braust út ópíumstríðið. Þann 5. júlí 1740 réðust Bretar inn í Dinghai eyjarnar í norðurhluta Zhejiang héraðs og Wenzhou var í hættuástandi.
Þann 13. september 1876 var kínversk-breski „Yantai-sáttmálinn“ undirritaður undir miklum þrýstingi frá Bretum til að leysa diplómatísk átök. Höfn Wenzhou varð ein þessara „sáttmálahafna“ og opnaðist þannig aftur fyrir utanríkisviðskipti.[3] Um tíma var þar mikil teverslun. Höfnin lék þó aldrei stórt hlutverk í utanríkisviðskiptum Kína. Erlend ríki voru ekki þar með aðstöðu.[2]
Viðskipti Wenzhou blómstruðu aftur á fyrri hluta kínverska-japanska stríðsins, þar sem hún var frá árinu 1937 til 1942 ein fárra hafna sem enn voru í kínverskum höndum. Hún var þó hertekin þrisvar af Japönum um skamma hríð.[6] Viðskipti drógu hins vegar saman undir lok stríðsins. Það var síðan ekki fyrr en árið 1955 sem sjóflutningar meðfram Zhejiang-ströndinni voru endurreistir að fullu. Þá náði Wenzhou borg sér fljótt aftur á strik.[7]
Samtímaborg
breytaKínverski frelsisherinn tóku borgina 7. maí 1949 og kommúnistar tóku völdin Wenzhou.
Wenzhou hefur ríka hefð sem verslunarborg. Þéttbýlið og skortur á ræktuðu landi hefur hefur lengi verið heimili þeirra sem eru mjög hæfir í viðskiptum. Íbúar stofnuðu eigin fjölskyldufyrirtæki og verkstæði snemma á áttunda áratugnum og viðleitni þeirra efldist mjög síðar á áratugnum þegar Kína byrjaði opinberlega að auka frjálsræði í efnahagsmálum og þróast í átt að markaðskerfi. Árið 1984 var Wenzhou útnefnd ein af „opnum“ borgum Kína í nýju stefnunni um að bjóða erlenda fjárfestingu velkomna. Afleiðingin varð mikill hagvöxtur í borginni.[2]
„Wenzhou módelið“ fyrirmynd
breytaÁ fyrstu stigum efnahagsumbóta í Kína (frá 1979 til miðs níunda áratugarins) komu fram í Kína tvær ólíkar stefnur eða fyrirmyndir í byggða- og markaðsþróun: Annað var „Wenzhou módelið“ og hitt var svokallað „Sunan módel“. Það fyrrnefnda var kennt við Wenzhou, markaðshagkerfi með ört vaxandi og öflug einkafyrirtæki sem ýttu undir efnahag svæðisins. Áhersla var á að virkja sköpunarkraft fólks, ævintýraþrá, dugnað og skýra framtíðarsýn. Hið síðarnefnda var staðsett í Suzhou borg í hinu efnaða og fjölmenna Jiangsu-héraði, þar sem fyrirtæki í sameiginlegri eigu með stuðningi stjórnvalda hafa skapaði viðskiptaþróun með góðum árangri.[9]
Frá 1979 til 2000 óx hagkerfi Wenzhou um að meðaltali 15 prósent á ári. Árið 2007 var einkageirinn 99,5 prósent af heildarfjölda fyrirtækja í Wenzhou borg. Þau skópu 95,5 prósent af iðnaðarverðmæti borgarinnar, 95 prósent af utanríkisviðskiptatekjum og 80 prósent af skatttekjum. Árið 1980 voru meðaltekjur í Wenzhou 15 prósent undir landsmeðaltali. Í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar höfðu meðaltekjur íbúa í Wenzhou hækkað tvöfalt meir en á landsvísu.[9]
„Wenzhou líkanið“ gekk gegn ríkjandi hugmyndum í Kína um efnahagsþróun og sýndi mögulegan ávinning markaðshagkerfis. Zhejiang hérað varð ein „höfuðstöðva einkahagkerfisins“ í Kína.[9]
Í dag eru staðbundnar framleiðsluvörur borgarinnar keramik, vélar, efni, rafeindatækni, unnin matvæli og fatnaður. Skipasmíði er líka mikilvæg. Samgöngumannvirki svæðisins hafa verið endurbætt til muna. Járnbrautarlína, fullgerð seint á tíunda áratugnum, tengir borgina við Zhejiang-Jiangxi stofnlínuna við Jinhua. Hraðbrautir norðaustur til Ningbo og norðvestur til Jinhua opnuðust fyrir umferð snemma á 21. öld. Nýrri og stærri hafnir hafa verið byggðar, þar á meðal hafnaraðstaða við mynni Ou-fljóti sem getur hýst 10.000 tonna skip. Flugvöllur borgarinnar, við ströndina, býður upp á áætlunarflug til margra borga landsins.[9]
Landafræði
breytaWenzhou borg er staðsett í miðhluta 18.000 kílómetra langrar austurstrandar Kína, sem sker tvö efnahagssvæði óshólma Jangtse-fljóts og Perlufljóts. Borgin er miðstöð efnahags, menningar og flutninga í suður Zhejiang héraði. Þetta er hafnarborg sem situr á suðurbakka neðri hluta Ou-fljóts, um 30 kílómetrum frá mynni þess við Suður-Kínahaf. [1] [2]
Wenzhou, sem hefur lögsögu yfir fjórum hverfum, þremur undirborgum á sýslustigi og fimm sýslum, nær yfir 12.083 ferkílómetra landsvæði að flatarmáli og 8.649 ferkílómetra hafsvæði.[10]
Borgarmörkin liggja að Lishui-borg í vestri, Taizhou í norðri og Fujian héraði í suðri.
Sjálf borgin er umkringd fjöllum með láglendi sem liggur að mestu meðfram strönd Austur-Kínahafs, um 355 kílómetrar að lengd. Í ósum Ou-fljótsins er mikið af litlum eyjum og leirbökkum, en höfnin er þó aðgengileg allt að 1.000 tonna skipum. Alls teljast 436 eyjar til borgarinnar.[2][11]
Wenzhou er fjöllótt. Um 76 prósent af flatarmáli hennar eru fjöll og hæðir, þar sem margir fjallstoppar ná yfir 1.000 metra hæð, til dæmis í Yandang strandfjallgarðinum sem gnæfir yfir austurhluta svæðisins. Sögulega einangraði þetta fjalllendi borgina frá öðrum héruðum Kína. Það ýtti mjög undir staðbundna menningu og aðgreiningu tungumáls jafnvel frá nálægum svæðum.
Landslag borgarlandsins hallar eins og stigi frá suðvestri til norðausturs. Þar eru 150 ár af mismunandi lengd, þar á meðal eru Oujiang, Feiyun og Aojiang.[10]
Strandsléttur eru einkum við mynni Ou fljóts, þar sem borgin er staðsett; við Nanxi ána, þverár Ou; og lengra suður, í kringum mynni Feiyun árinnar. Slétturnar eru nýttar til landbúnaðar en hýsa einnig stóran hluta íbúa og iðnaðar.[1]
Náttúrusvæði eru um 25% landrými borgarinnar. Yandang-fjöllin hafa verið skilgreind sem „World Geopark“, en Nanji-eyjar eru skráðar sem sjávarnáttúruverndarsvæði UNESCO.[1]
Veðurfar
breytaBorgin dregur nafn sitt af mildu loftslagi svæðisins. Wenzhou þýðir bókstaflega „hið hlýja ríki“[4] Borgin hefur fjögurra árstíða rakt heittemprað loftslag undir áhrifum monsúnvinda, með heitum, rökum sumrum og svölum, skýjuðum, rökum vetrum. Hitinn á sumrin er ekki of mikill og vetrarkuldi bítur ekki.[12]
Árleg úrkoma er 1.113 – 2.492 mm, að miklu leyti vegna rigninga í lok vors og byrjun sumars, og hitabeltisstorma í júlí og september. Borgin nýtur frostleysis 241-326 daga ársins og árleg sólarstundir eru 1.442 – 2.264.[12]
Hér að neðan má sjá meðaltal mánaða fyrir árin 1981-2010 fyrir ársmeðalhita (11,1 °C), meðalársúrkomu (1.742 mm.) og meðal sólarstundir (1.706 klst.).
Veðurfar í Wenzhou borg (meðaltal áranna 1981-2010) | |||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Mánuður | Jan. | Feb. | Mar. | Apr. | Maí | Jún. | Júl. | Ágú. | Sep. | Okt. | Nóv. | Des. | Árið |
Meðalhiti (°C) | 8,0 | 8,5 | 11,4 | 16,3 | 20,8 | 24,6 | 28,0 | 28,0 | 24,9 | 20,4 | 15,5 | 17,1 | 18,1 |
Meðalúrkoma (mm) | 58.3 | 82,7 | 145,1 | 161,7 | 203,4 | 245,5 | 178,4 | 250,1 | 204,9 | 95,0 | 74,7 | 42,6 | 1.742,4 |
Sólarstundir | 113,2 | 90,5 | 96,4 | 119,5 | 122,0 | 126,9 | 214,8 | 213,3 | 166,2 | 157,0 | 138,2 | 148,0 | 1.706 |
Heimild: Kínverska veðurfræðistofnunin (CMA) 2010 [13] |
Stjórnsýsla
breytaWenzhou er borg á héraðsstigi sem nær yfir 12.083 ferkílómetra landsvæði að flatarmáli og 8.649 ferkílómetra hafsvæði.[10] Í lok árs 2020 þegar kínverska manntalið var síðast framkvæmt, var íbúafjöldi borgarkjarnans 2.582.084, en 9.572.903 bjuggu á öllu stjórnsýslusvæði borgarinnar. Undir lögsögu borgarinnar falla fjögur fjölmenn hverfi, þrjár undirborgir og fimm sýslur.[1]
Alls eru í borginni 67 undirhverfi, 92 bæir, 26 bæjarumdæmi, 2.951 þorp, ásamt 703 samfélags- og nágrannanefndum. Borgarstjórn Wenzhou er staðsett í Lucheng hverfi.[14]
Stjórnsýsla Wenzhou | |||
---|---|---|---|
Undirskipting | Kínverska | Fólksfjöldi 2020 | Stærð (km2) |
Hverfi | |||
Lucheng hverfi | 鹿城区 | 1.167.164 | 294 |
Longwan hverfi | 龙湾区 | 725.049 | 279 |
Ouhai hverfi | 瓯海区 | 963.238 | 614 |
Dongtou hverfi | 洞头区 | 148.807 | 100 |
Sýslur | |||
Yongjia sýsla | 永嘉县 | 869.548 | 2.674 |
Pingyang sýsla | 平阳县 | 863.166 | 1.042 |
Cangnan sýslu | 苍南县 | 843.959 | 1.088 |
Wencheng sýsla | 文成县 | 288.168 | 1.271 |
Taishun sýsla | 泰顺县 | 265.973 | 1.762 |
Undirborgir | |||
Rui'an borg | 瑞安市 | 1.520.046 | 1.271 |
Yueqing borg | 乐清市 | 1.453.090 | 1.174 |
Longgang borg | 龙港市 | 464.695 | 184 |
Efnahagur og atvinnulíf
breytaWenzhou iðar af athafnalífi og er mikil iðnaðar- og viðskiptaborg. Hún er þriðja stærsta borg Zhejiang og miðstöð efnahags, menningar og flutninga suðurhluta héraðsins. Þegar Kína steig fyrstu skref til efnahagsumbóta og aukins athafnafrelsis árið 1978, varð stofnun einstaklings- og einkafyrirtækja sem og hluthafasamvinnufélaga fljótt einkennandi fyrir athafnalíf Wenzhou. Borgin varð brautryðjandi í að hagnýta markaðskerfi til að þróa samfélagið og athafnalíf. Á svipuðum tíma tóku borgaryfirvöld forystu um endurbætur á fjármálakerfi og skipulagsbreytingar.[15]
Efnahagsvöxtur borgarinnar hefur verið gríðarlegur. Frá árinu 1978 til 2016 hefur landsframleiðsla Wenzhou aukist úr 1,3 milljörðum RMB í 505 milljarða RMB. Tekjur borgarinnar jukust úr 0,1 milljarð RMB í 72 milljarða RMB. Meðalráðstöfunartekjur borgarbúa Wenzhou fóru úr 423 RMB árið 1981 í 47.785 RMB árið 2016. Þær eru nú með þeim hæstu í Kína.[15]
Borgaryfirvöld segja á eigin kynningarvef að viðskiptavitund og viðskiptamenning liggi að baki þessum mikla hagvexti, sem og landfræðileg einangrun borgarinnar:
„Vegna bæði menningarlegrar og landfræðilegrar fjarlægðar Wenzhou og skorts á náttúruauðlindum (landi, jarðefnum o.s.frv.), hefur kínverska miðstjórnin skilið íbúa Wenzhou eftir tiltölulega sjálfráða. Fjarri miðju hins pólitíska og efnahagslega sviðs er fólkið sjálfstæðara, sjálfbjarga og almennt viðskiptamiðaðra. ... Þess vegna, þegar Kína skipti úr áætlunarhagkerfi yfir í svokallað kapítalískt hagkerfi með kínverskum (sósíalískum) einkennum seint á níunda áratugnum, aðlöguðust borgarbúar vel að hinu nýja kerfi og nýttu sér það.“[16]
Þessi þróun til markaðshagkerfis skóp eitt virkasta og þróaðasta einkahagkerfi Kína að sögn borgaryfirvalda. „Í því ferli að þróa hagkerfið hefur fólkið lifað af mótlæti, með lítilli jákvæðri aðstoð frá stjórnvöldum.“[17]
Á fyrstu dögum efnahagsumbótanna tóku athafnamenn borgarinnar forystu á landsvísu í að þróa hrávöruhagkerfi, heimilisiðnað og framleiðslu fyrir sérhæfða markaði.[15] Upp úr 1990 varð framleiðsla á smærri rafmagnstækjum ein helsta atvinnugrein Wenzhou. Þar stofnuðu sum einkafyrirtækjanna til sameiginlegra verkefna með ýmsum þekktum alþjóðafyrirtækjum.[15]
Árið 1992 var Viðskipta- og tækniþróunargarði Wenzhou komið á fót nálægt alþjóðaflugvellinum og aðalhöfn borgarinnar. Iðngarðurinn var eitt af 32 fríverslunar- og tækniþróunarsvæðum sem kínversk stjórnvöld komu á fót á árunum 1984 - 1993.[18] Innan garðsins hefur byggst upp umfagsmikil framleiðsla rafbúnaðar og rafeindaupplýsinga, framleiðsla ýmissa byggingarefna og vefnaðarvara. Iðngarðurinn nær yfir 140 ferkílómetra og er í dag samþættur þremur öðrum aðliggjandi iðnaðargörðum. Íbúar garðsins eru meira en 230.000. Í honum hafa um 3.000 fyrirtæki aðsetur á sviði ólíkra atvinnugreina, þar á meðal hágæða framleiðslu ýmiskonar, smíði rafmagnsvéla, rafræn viðskipti og vörustjórnun.[19]
Árið 2021 voru 6.708 stærri iðnaðarfyrirtæki í Wenzhou.[20] Borgaryfirvöld hafa lagt áhersla á að styðja við atvinnulífið með byggja upp fleiri iðngarða, ýmsa atvinnuklasa fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og mörg nýsköpunarsetur. Í dag eru slíkir 17 iðnaðargarðar í Wenzhou.[21] Sem dæmi um þá er Vísinda- og tæknifrumkvöðlamiðstöðin í Yueqing sem komið var á fót 2013; Frumkvöðlasetur sjávarútvegsklasa Yueqing borgar („Yueqing Bay Marine Economy Industrial Incubation Park“) var sett á legg 2018;[22] Hátækniiðnþróunarsvæði Wenzhou nær yfir 28 ferkílómetra landsvæði og hýsir yfir 2.000 fyrirtæki sem leggja áherslu á leysitækni, ljósorku, hálfleiðaralýsingu og ljósfjarskipti.[23] Sérstakt „erfðalækninga-svæði“ borgarinnar („China Gene Medicine Valley“) hýsir 125 líflyfjafyrirtæki í mikilli uppbyggingu.[24]
Með iðngörðum og klasastarfssemi verður sérhæfing atvinnufyrirtækja mikil. Sem dæmi er Wenzhou leiðandi á heimsvísu í framleiðslu kveikjara með yfir 500 slík fyrirtæki í borginni. Annað dæmi er Plastvefnaðarklasi Wenzhou sem samanstendur af 1.600 fyrirtækjum með um 42.000 starfsmenn. Alls eru 27 sértækar framleiðslustöðvar í borginni.[15]
Í Wenzhou eru um 240.000 smáfyrirtæki á sviði verslunar- og iðnaðar í einstaklingseign og önnur 130.000 einkafyrirtæki, þar af 180 stórfyrirtæki, fjögur þeirra eru meðal 500 stærstu fyrirtækja Kína og 36 þeirra meðal 500 stærstu einkafyrirtækja Kína. Forystu athafnamanna borgarinnar má sjá víða: Þar hóf Juneyao Airlines flug árið 1991 sem fyrsta einkarekna flugfélag Kína og Jinhua -Wenzhou járnbrautin var árið 1992 fyrsta járnbrautarverkefnið í Alþýðulýðveldinu byggt með einkafjármagni.[15]
Samgöngur
breytaFlug
breytaAlþjóðaflugvöllur Wenzhou Longwan (IATA: WNZ) er meginflughöfn Wenzhou borgar. Hann einn af stærri flugvöllum í Austur-Kína. Flugvöllurinn er staðsettur um 21 kílómetra frá miðborg Wenzhou í Longwan hverfi sem gefur honum nafn. Hann þjónar Wenzhou og öðrum nærliggjandi borgum eins og Taizhou, Lishui og Ningde.
Vöxtur flugvallarins hefur verið mikill. Árið 2019 fóru 12,3 milljónir farþega um völlinn og um 81.107 tonn af farmi. Árið 2018 bauð flugvöllurinn tengingar til 104 innlendra borga og 29 alþjóðlegra borga og svæða. Mörg farþegaflugfélög og farmflugfélög starfa á vellinum.
Flugvöllurinn hefur tvær flugstöðvar, T1 fyrir millilandaflug og T2 fyrir innanlandsflug. Vegna mikillar fjölgunar farþega er völlurinn og tengdir samgönguinnviðir í miklu stækkunarferli sem á að ljúka árið 2030. Byggja á aðra flugbraut, þriðju flugstöðina (T3), og nýja vörugeymslu. Árið 2030 geta 30 milljón flugfarþegar farið um flugvöllinn á ári.
Flughöfnin er tengd miðborginni með lestum og snarlestum tengja flughöfnina. Að auki tengja strætisvagnar og gott vegakerfi flughöfnina við borgina og nærliggjandi svæði.
Samkvæmt áætlun stjórnvalda um þróun flugs í Wenzhou er fyrirhugað að borgin byggi á næstu árum sjö almenna flugvelli í Lucheng hverfi, Yueqing, sem og sýslum Wencheng, Cangnan, Taishun, Yongjia og Pingyang.[25]
Hafnir
breytaWenzhou-höfn er við 350 kílómetra strandlengju á Suðaustur-Kína, á óshólmasvæði Jangtse fljóts. Hún er ein af 25 helstu strandhöfnum Kína. Höfnin er hafnarsamlag sjö hafnarsvæða: Zhuangyuan'ao höfn; hafnarsvæði Yueqing flóa; Xiaomendao höfn; Oujiang höfn; Ruian höfn; Pingyang höfn og hafnarsvæði Cangnan.[26]
Auk tenginga til innanlandshafna eru siglingar frá Wenzhou höfn til meira en 10 landa, Japan, Suður-Kóreu, Kúveit, Rússlandi, Singapúr, Hong Kong, og Taívan. Stjórnvöld hafa uppi mikil áform um frekari uppbyggingu hafna borgarinnar. Stórefla á farmflutningsgetu í allt að 30 milljónir tonna á ári.[27]
Lestir
breytaVegna landfræðilegrar aðstæðna er uppbygging járnbrauta í Wenzhou og tengingar við aðrar borgir kostnaðarsöm og takmörkunum háð. Fyrsta járnbraut Wenzhou, Jinhua–Wenzhou járnbrautin, opnaði árið 1998. Járnbrautin, sem liggur frá Wenzhou járnbrautarstöðinni norðvestur til Jinhua, er alls 251 kílómetrar, með 135 brýr og 96 jarðgöng sem eru 35 kílómetra að lengd.[28][29]
Árið 2009 opnuðu tvær háhraðalestartengingar í Wenzhou. Annars vegar Ningbo–Taizhou–Wenzhou járnbrautin sem liggur norður til Hangzhou og hins vegar Wenzhou–Fuzhou járnbrautin sem liggur suður til Xiamen. Báðar lestarlínurnar ná allt að 200 km/klst og hafa verulega stytt ferðatíma til nágrannaborga. Árið 2015 var síðan Jinhua–Wenzhou háhraðalestin tekin í notkun.[28]
Borgarlestir
breytaBorgarlestarkerfi Wenzhou er blandað lestakerfi við úthverfi borgarinnar með nokkrum neðanjarðarstöðvum. Áform eru uppi um sex línur, samtals 362 kílómetra að lengd. Sú fyrsta (S1) liggur milli austur-vestur úthverfa borgarinnar. Hún tengir Oujiangkou, miðborgina, Longwan, alþjóðaflugvöllinn og Lingkun. Heildarlengd S1 er 77 kílómetrar.[30][31]
Framkvæmdum við S2 línan á að ljúka árið 2023. Hún er hraðflutningslína í úthverfi borgarinnar, 63 kílómetrar að lengd. Hún tengist alþjóðaflugvelli borgarinnar. [32] S3 línan mun síðan liggja frá aðalestarstöð borgarinnar til Rui'an borgar, til Lingxi, Pingyang sýslu, Cangnan sýslu, og til Longgang borgar. Framkvæmdir hófust í apríl 2020. Uppkomin verður hún alls 97 kílómetrar að lengd, að hluta á upphækkuðum brúm en einnig neðanjarðar.[33]
Járnbrautalínur, S1, S2, og S3 liggja um strandsvæði Wenzhou borgar. Að auki er áætlað að byggja þrjár þéttbýlislínur (léttlestir og neðanjarðarlestir), M1, M2 og M3.
Hraðvagnakerfi
breytaBorgarlínukerfi Wenzhou (BRT), hraðflutningakerfi strætisvagna, er í mikilli uppbyggingu. Í dag eru tvær slíkar borgarlínur reknar á sérætluðum akreinum fyrir vagnana.[34] Frekari uppbygging þriðju línunnar er fyrirhuguð.
Strætavagnar
breytaWenzhou borg hefur fjölda strætisvagnastöðva sem þjóna ýmsum stöðum innan borgarinnar og nærliggjandi svæðum og borgum. Almenningsvagnakerfi borgarinnar taldi árið 2013 alls 1.537 rútur á 88 leiðum. Flestir strætisvagnarnir eru með sjálfvirku fargjaldakerfi.[35]
Ferjur
breytaFerjur þjóna áfangastöðum upp og niður með Ou-fljóti og til úthverfa Oubei. Sérstök ferja þjónar ferðamannaeyjunni Jiangxin í Ou-fljóti.[36] Borgin er einnig að byggja upp vatnsrútukerfi. Fyrsta vatnsrútulína opnaði árið 2013, þar sem siglt er frá Xiaonanmen til Nantang.
Reiðhjólaleiga
breytaAlmenningsreiðhjólakerfi Wenzhou er hjólaleiga þar sem þúsundir almenningshjóla í boði ókeypis í takmarkaðan tíma.[37]
Trúarbrögð
breytaAlmennt
breytaEins og víðast hvar í Alþýðulýðveldinu Kína er meirihluti íbúa Wenzhou trúlaus.[38] Í samanburði við önnur strandsvæði í Kína virðast borgarbúar þó meira áhugasamir um trúarmál. Ýmis trúarbrögð eru þannig ríkjandi í borginni. Til að mynda er forfeðradýrkun vinsæl í Wenzhou og byggð hafa verið forfeðrahof á ýmsum stöðum.[39] Þjóðtrú virðist þannig sterk og búddismi og taóismi eru iðkaðir víða í borginni. Þá eru margir fylgjendur kristninnar mótmælendatrúar sem og kaþólskara trúar.[40]
Fyrir valdatöku kommúnista í Kína árið 1949 voru Wenzhou skráðir 2.000 tilbeiðslustaðir og 4.500 prestar, prestar og munkar. Ríkið útnefndi borgina opinberlega sem „trúleysissvæði“ árið 1958 og í menningarbyltingunni (1966–1976) var trúarbyggingum ýmist lokað eða þeim breytt til annarra nota. Á níunda áratugnum lifnuðu trúarbrögð hratt við og í dag eru fleiri tilbeiðslustaðir skráðir en áður.[40]
Á vef borgarinnar er sagt frá því að síðla árs 2000 og til ársins 2002 hafi stjórnvöld ráðist í átak í að loka kirkjum, musterum og hofum og þau jafnvel eyðilögð. Það hafði áhrif á kristna, búddista og taóista.[38] Þrátt fyrir þetta var borgin með árið 2015 með 8.569 musteri byggð á þjóðtrúar og 3.961 skráða tilbeiðslustaði búddisma, taóisma, íslam, kaþólskrar trúar og mótmælendatrúar.[40]
Búddismi
breytaBúddismi á sér langa sögu í borginni og marga fylgjendur. Búddahof eru víða um borgina og í dreifbýli. Mikill fjöldi trúaðra heimsækir musterin til að brenna reykelsi og tilbiðja Búdda. Meðal þekktustu mustera borgarinnar eru Jiangxin-hofið, Miaoguo-hofið, og Taiping-hofið.[39]
Taóismi
breytaTaóistahof eru á víða við fjallsrætur í borginni. Þrátt fyrir að hefðbundinn taóismi sé ekki útbreiddur, brenna áhangendur þeirra enn reykelsi af mikilli trúmennsku og viðhalda þjóðlegum hefðum og spádómum.[39]
Kristni
breytaWenzhou borg hefur verið kölluð „Jerúsalem Kína“. Í dag er borgin talin mikilvæg miðstöð kristni í Kína.[40] Breskir trúboðar boðuðu mótmælendatrú í Wenzhou á 19. öld. Árið 1949 er talið að meira en 115,000 borgarbúa hafi verið mótmælendatrúar, sem voru um tíundi hluti allra áhangenda mótmælendatrúar í Kína.[40] Í dag er fylgjendur mótmælendatrúar fjölmennur hópur og mjög virkur í borginni. Opinberar tölur segja þá vera 15% af heildarfjölda íbúa, eða meira en 1 milljón talsins.[39] Kirkjur og samkomustaðir eru margir og krossar víða í þéttbýli og dreifbýli. Mörg þorp innan borgarinnar hafa fleiri en eina kirkju. Meðal þekktra mótmælendakirkja eru: Wenzhou Chengxi kirkjan, Garden Lane kirkjan, Yongguang kirkjan, Jiangjunqiao kirkjan og Wuqiao kirkjan.
Alls er áætlað að um 100.000 borgarbúar séu kaþólskrar trúar.[39]
Borgaryfirvöld segja að ör vöxtur hafi orðið í kristnum samfélögum, allt að 15 -20% íbúanna séu kristnir. Staðbundnar fjölskyldukirkjur segja allt að 30% borgarbúa kristna. Vegna starfa erlendra fyrirtækja í borginni bjóða sumar kirkjur upp á þjónustu og biblíunám á ensku.[38]
Á síðustu árum hefur ríkisvaldið reynt að hamla vexti og starfssemi kristinnar trúar í borginni. Kirkjum hefur verið lokað, þær jafnaðar við jörðu, krossar fjarlægðir, og prestar og kristnir fylgjendur handteknir.[40]
Tengt efni
breyta- Vefur borgarstjórnar Wenzhou Geymt 21 maí 2016 í Portúgalska vefssafnið Almennar upplýsingar um borgina, sögu, skipulag, áhugaverða ferðamannastaði, samgöngur o.fl. á ensku og kínversku.
- Vefur Wikiferða um Wenzhou. Aðgengilegar upplýsingar á ensku fyrir ferðamenn um sögu borgarinnar, áhugaverða ferðamannastaði, o.fl.
- Vefsíða Travel China Guide: Wenzhou Almennar upplýsingar um borgina, áhugaverða ferðamannastaði, samgöngur o.fl.
- Zhejiang hérað í Kína
- Enskur kynningarvefur Zhejiang héraðs um Wenzhou borg. Myndrænar upplýsingar um borgina, fréttir, skipulag o.fl.
- Borgir Kína eftir fólksfjölda
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Wenzhou“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. ágúst 2022.
- „Britannica: Wenzhou“. The Editors of Encyclopaedia. 2. apríl 2020. Sótt 2. ágúst 2022.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Wenzhou“, Wikipedia (enska), 16. júlí 2022, sótt 3. ágúst 2022
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 Wen-chou, Yongjia (7. apríl 2020). „Britannica: "Wenzhou"“. The Editors of Encyclopaedia Britannica. Sótt 2. ágúst 2022.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 „温州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 1. ágúst 2022, sótt 4. ágúst 2022
- ↑ 4,0 4,1 Wenzhou Municipal People's Government (2013). „History“. Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 2. ágúst 2022.
- ↑ „中山公園“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 26. júlí 2022, sótt 6. ágúst 2022
- ↑ „温州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 1. ágúst 2022, sótt 4. ágúst 2022
- ↑ Wen-chou, Yongjia (7. apríl 2020). „Britannica: "Wenzhou"“. The Editors of Encyclopaedia Britannica. Sótt 2. ágúst 2022.
- ↑ „五马街“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 25. desember 2021, sótt 6. ágúst 2022
- ↑ 9,0 9,1 9,2 9,3 Qiusha MA; Linsun Cheng (2009). [Wenzhou Model - Oxford Reference - Published online: 2016 - Current Online Version: 2016 Berkshire Encyclopedia of China - ("Wenzhou Model")]. Berkshire Publishing Group. ISBN 9780977015948.
{{cite book}}
: Lagfæra þarf|url=
gildið (hjálp) - ↑ 10,0 10,1 10,2 Wenzhou Municipal People's Government (2013). „Geography“. Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 2. ágúst 2022.
- ↑ „温州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 1. ágúst 2022, sótt 3. ágúst 2022
- ↑ 12,0 12,1 Wenzhou Municipal People's Government (2013). „„Climate"“. Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 3. ágúst 2022.
- ↑ China Meteorological Administration (05-27 2010). „zh:中国地面国际交换站气候标准值月值数据集(1971-2000年)“. China Meteorological Administration. Sótt 3. ágúst 2022.
- ↑ Wenzhou Municipal People's Government (2021). „Administrative Division and Population“. Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 3. ágúst 2022.
- ↑ 15,0 15,1 15,2 15,3 15,4 15,5 „Wenzhou“, Wikipedia (enska), 4. ágúst 2022, sótt 5. ágúst 2022
- ↑ Wenzhou Municipal People's Government (2013). „Culture and demographics“. Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 3. ágúst 2022.
- ↑ Wenzhou Municipal People's Government (2013). „Culture and demographics“. Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 3. ágúst 2022.
- ↑ China Internet Information Center. „A Brief Introduction of National Economic and Technological Development Zones in China“. China Internet Information Center- published under the auspices of the State Council Information Office and the China International Publishing Group (CIPG) in Beijing. Sótt 3. ágúst 2022.
- ↑ The Information Office of Wenzhou Municipal People's Government (19. ágúst 2021). „Wenzhou Economic and Technological Development Zone“. The Information Office of Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 3. ágúst 2022.
- ↑ Wenzhou Municipal People's Government (2021). „Economy“. Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 3. ágúst 2022.
- ↑ „Wenzhou industrial parks lead in digital development“. www.ezhejiang.gov.cn. Sótt 5. ágúst 2022.
- ↑ „Wenzhou industrial parks lead in digital development“. www.ezhejiang.gov.cn. Sótt 5. ágúst 2022.
- ↑ „Wenzhou National High-tech Industrial Development Zone“. www.ezhejiang.gov.cn. Sótt 5. ágúst 2022.
- ↑ „China Gene Medicine Valley“. www.ezhejiang.gov.cn. Sótt 5. ágúst 2022.
- ↑ The Information Office of Wenzhou Municipal People's Government. (3. desember 2021). „Mountainous county in Wenzhou building general airport“. The Information Office of Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 4. ágúst 2022.
- ↑ „温州交通“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 16. júní 2022, sótt 7. ágúst 2022
- ↑ „温州交通“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 16. júní 2022, sótt 7. ágúst 2022
- ↑ 28,0 28,1 „Wenzhou“, Wikipedia (enska), 4. ágúst 2022, sótt 7. ágúst 2022
- ↑ „温州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 1. ágúst 2022, sótt 7. ágúst 2022
- ↑ Wenzhou Municipal People's Government (12. september 2019). „Wenzhou Rail Transit Line S1“. Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 5. ágúst 2022.
- ↑ „温州市域铁路S1线“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 13. maí 2022, sótt 7. ágúst 2022
- ↑ „温州市域铁路S2线“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 7. júlí 2022, sótt 7. ágúst 2022
- ↑ „溫州市域鐵路S3線“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 11. janúar 2022, sótt 7. ágúst 2022
- ↑ „温州快速公交“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 10. janúar 2022, sótt 7. ágúst 2022
- ↑ Wenzhou Municipal People's Government (30. mars 2013). „Bus“. Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 5. ágúst 2022.
- ↑ „Wenzhou - Wikitravel“. wikitravel.org. Sótt 7. ágúst 2022.
- ↑ „鹿城5000辆公共自行车开始定制 9月出街(图)_独家报道_温州网“. news.66wz.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. ágúst 2012. Sótt 7. ágúst 2022.
- ↑ 38,0 38,1 38,2 Wenzhou Municipal People's Government. „Culture and demographics“. Wenzhou Municipal People's Government. Sótt 5. ágúst 2022.
- ↑ 39,0 39,1 39,2 39,3 39,4 „温州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 1. ágúst 2022, sótt 6. ágúst 2022
- ↑ 40,0 40,1 40,2 40,3 40,4 40,5 „Wenzhou“, Wikipedia (enska), 4. ágúst 2022, sótt 6. ágúst 2022