Vilhjálmur Einarsson

Vilhjálmur Einarsson (5. júní 1934 - 28. desember 2019) var íslenskur íþróttamaður og skólastjóri frá Egilsstöðum. Vilhjálmur varð fyrstur Íslendinga til komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum er hann hlaut silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956.

Árið 1952 vann hann fyrsta mótið sitt í þrístökki en það var landsmót sem haldið var á Eiðum, þar kom hann öllum á óvart. Hann setti Norðurlandamet í þrístökki rétt áður en velja átti keppendur frá Íslandi á Ólympíuleikana í Melbourne í Ástralíu árið 1956 og tryggði það honum þátttöku á leikunum. Hann setti Ólympíumet sem stóð í tvær klukkustundir en hafnaði í öðru sæti. Enn þann dag í dag er Vilhjálmur eini Íslendingurinn sem sett hefur Ólympíumet. Hann varð í þriðja sæti á Evrópumeistaramóti í Stokkhólmi árið 1958, og var það þá næst besti árangur Norðurlandabúa. Hann keppti aftur á Ólympíuleikunum árið 1960 og lenti þar í 5. sæti. Hann varð í sjötta sæti á Evrópumeistarmóti í Belgrad árið 1962 og lauk þar ferli sínum með glæsibrag. Vilhjálmur var valinn fyrsti íþróttamaður ársins á Íslandi þann 20. janúar 1956 og hlaut titilinn fjórum sinnum í viðbót, 1957, 1958, 1960 og 1961. Vilhjálmur er sá íslenski íþróttamaður sem oftast hefur hlotið nafnbótina Íþróttamaður ársins ásamt Ólafi Stefánssyni.

Uppvaxtarár

breyta

Hann fæddist að Hafranesi við Reyðarfjörð. Foreldrar hans voru Sigríður Vilhjálmsdóttir frá Hánefsstöðum á Seyðisfirði og Einar Stefánsson frá Mýrum í Skriðdal. Árið 1942 flutti fjölskyldan að Eiðum þar sem var vaxandi íþróttalíf og vann Einar faðir Vilhjálms við að byggja íþróttasal og sundlaug. Þegar Vilhjálmur var að alast upp voru margir frændur hans íþróttakappar á Austfjörðum og leit hann mikið upp til þeirra. Hann byrjaði ungur að stunda alhliða íþróttir og hóf að einbeita sér að þrístökki á menntaskólaárunum. Foreldrar hans æfðu ekki skipulagðar íþróttir enda lítið um það á Austfjörðum á þeirra æskuárum en faðir hans var talinn góður knattspyrnumaður og móðir hans létt á fæti og dreymdi um að æfa ballett sem varð þó ekki raunin. Á uppvaxtarárum Vilhjálms jókst áhugi á frjálsum íþróttum mikið þrátt fyrir lélegar aðstæður en fólk ferðaðist þá á bátum og hestum og kannski nokkrum bílum milli fjarða og keppti í íþróttum. Tækni og aðbúnaður var ekkert í líkingu við það sem þekkist í dag.[1]

Á þessum árum voru haldin nokkur íþróttamót U.Í.A. á Eiðum og fylgdist Vilhjálmur þar með frændum sínum Tómasi og Þorvarði Árnasonum sem hann leit mikið upp til og voru miklar fyrirmyndir hans. Vilhjálmur skaraði fram úr í sundi þegar hann var drengur en sundlaugin á Eiðum var sú eina á Austfjörðum á þessum tíma og var hann mikið í henni. „Eg er í vandræðum með strákinn. Eg má ekki gefa honum 10 svona ungum en hann syndir alveg nákvæmlega eins og eg vil láta synda“[2] sagði sundkennari Vilhjálms við foreldra hans og því ljóst að hann sýndi snemma fram á hæfileika í íþróttum eða aðeins átta ára gamall.[3]

Vilhjálmur vann sveitastörf heima hjá sér þegar hann var ungur. Hann sótti kýrnar og tók þátt í heyskap og kunni vel að meta sveitina. Árið 1945 flutti hann til Egilsstaða en þá var að myndast þéttbýli þar og vann hann í byggingavinnu á sumrin. Hann byrjaði fyrstu árin að leika sér með kúlu, spjót og kringlu en hann var nokkuð þéttur sem barn og því voru möguleikar hans taldir mestir í kastgreinum. Ekki gekk það eins vel og hann vildi þannig að hann tók upp á því að grafa stökkgryfju því hann langaði í langstökk og þrístökk, hún var 1x4 metrar og eina skóflustungu á dýpt.[4]

Sumarið 1943 var Vilhjálmur á Seyðisfirði ásamt fjölskyldu sinni. Þar var hann einn af stofnendum íþróttafélagsins Svanurinn sem lagði aðallega stund á frjálsar íþróttir. Þarna keppti Vilhjálmur fyrst í frjálsum íþróttum. Hann var síðan aftur á Seyðisfirði árin 1947-48 og gekk þar í skóla hjá Hjálmari Vilhjámssyni frænda sínum og Sigrúnu Helgadóttur konu hans. Þar lærði hann fimleika og frjálsar íþróttir og voru það fyrstu skipulögðu íþróttirnar sem hann iðkaði. Vilhjálmur fór í Menntaskólann á Akureyri veturinn 1950-51. Þar var mikið íþróttalíf og tók hann þátt í því af kappi. Hann spilaði fótbolta, blak, stundaði skíði, frjálsar íþróttir og fleira. Í 6. bekk var hann formaður íþróttafélagsins skólans. Í lok skólagöngunnar hallaðist Vilhjálmur meira að stökkíþróttunum og frjálsum íþróttum heldur en hinum íþróttunum. Árið 1952 tók hann þátt á Landsmóti á Eiðum, fyrst var haldin undankeppni fyrir mótið og komst hann áfram í hástökki, langstökki og þrístökki. Hann keppti reyndar bara í þrístökki og setti íslandsmet í drengjaflokki. Hann hafði alltaf stokkið á hægri fæti en hitti þarna á vinstri fótinn og setti þetta met. Þarna fann hann sína íþrótt sem hann stundaði eftir þetta en tók samt alltaf þátt í íþróttalífi skólans.[5]

Vilhjálmur fékk styrk til að fara í nám til Bandaríkjanna 1954-1956 og þar stundaði hann ýmsar íþróttir, þó ekki þrístökk vegna þess að það var ekki í boði. Hann var í skólaliðinu í langstökki, hástökki og kúluvarpi. Hann keppti í þrístökki á móti í Darthmouth og lenti þar í þriðja sæti og stökk 14,93 metra en metið hans þá var 15,19 metrar. Vilhjálmur stóð sig vel í náminu og dúxaði á lokaprófunum. Hann útskrifaðist með BA-próf í listum og byggingarlist. Þótt að hann hafi ekki æft þrístökk í þessi ár þá æfði hann hinar greinarnar við mjög góðar aðstæður sem hann hafði ekki kynnst áður og kynntist einnig betur skipulögðu og metnaðarfullu íþróttastarfi.[6]

Ólympíuleikar og Evrópumeistaramót

breyta
 

Vilhjálmur setti Norðurlandamet í þrístökki rétt áður en velja átti íslenska keppendur á Ólympíuleikana árið 1956. Hann stökk 15,83 metra og kom fólki á Norðurlöndunum á óvart þar sem fáir könnuðust við hann. Þetta tryggði honum keppnisrétt á Ólympíuleikunum. Vilhjálmur fór á Ólympíuleikana ásamt Hilmari Þorbjarnarsyni keppanda í 100 metra hlaupi og Ólafi Sveinssyni fararstjóra. Það var þann 27. nóvember sem þrístökkskeppnin fór fram. Fyrsta stökk Vilhjálms var ógilt en í næsta stökki setti hann Ólympíumet, stökk 16,25 metra (seinna breytt í 16,26 metra). Metið stóð í tvær klukkustundir en þá bætti Brasilíumaðurinn Ferreira Da Silva það með stökki sínu upp á 16,35 metra í fjórðu tilraun. Vilhjálmur hafnaði í öðru sæti og varð þar með fyrsti Íslendingurinn til að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum. Þetta var frábær frammistaða hjá íslenska kappanum og Íslendingar fylltust stolti. Enginn hafði búist við því að sjá Íslending á verðlaunapalli og hvað þá að setja Ólympíumet. Da Silva var heimsþekktur og Vilhjálmur varð það þarna með því að komast fram úr honum. Vilhjálmur er eini íslenski einstaklingurinn sem hefur náð öðru sæti í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikum.[7]

Vilhjálmur varð í þriðja sæti á Evrópumeistaramóti í Stokkhólmi árið 1958 og var það næst besti árangur Norðurlandabúa frá upphafi þannig að það voru fleiri en Íslendingar sem fögnuðu þessarri frammistöðu. Á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960 keppti Vilhjálmur bæði í langstökki og þrístökki. Hann keppti þó bara í langstökki til að prófa brautina, stökk tvö stökk og voru þau mæld 6,64 m og 6,76 m. Í þrístökkinu stökk hann lengst 16,37 og hafnaði í 5. sæti, frábær árangur. Vilhjálmur varð í sjötta sæti á Evrópumeistaramótinu í Belgrad í Júgóslavíu árið 1962 og hætti keppni eftir það. Vilhjálmur keppti á fjölda annarra móta en þessi fjögur stórmót standa upp úr.[8].[9]

Árið 2006 var Vilhjálmur sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt í þágu íþrótta og uppeldismála og árið 2012 var hann tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ.

Menntun og starfsferill

breyta

Vil­hjálm­ur gekk í barna­skól­a á Reyðarf­irði, far­skól­ann á Völl­um, Gagn­fræðaskól­ann á Seyðis­firði og Alþýðuskól­ann á Eiðum. Hann lauk síðar stúdentsprófi frá stærðfræðideild Menntaskólans á Akureyri árið 1954 og hlaut í kjölfarið skóla­styrk við Dart­mouth-há­skól­ann í Banda­ríkj­un­um og út­skrifaðist hann þaðan með BA-próf með áherslu á lista­sögu. Vil­hjálm­ur stundaði fram­halds­nám í upp­eld­is- og kennslu­fræði við Gauta­borg­ar­há­skóla 1974-1975 og 1990-1993.

Vilhjálmur starfaði að mennta- og fræðslumálum allan sinn starfsaldur. Hann kenndi við Héraðsskól­ann á Laug­ar­vatni frá 1957-1958, var skóla­stjóri Héraðsskól­ans á Laug­ar­vatni á vorönn 1959, kenn­ari við Gagn­fræðaskóla Aust­ur­bæj­ar frá 1959-1960 og kenn­ari við Sam­vinnu­skól­ann á Bif­röst frá 1959-1965. Vil­hjálm­ur var skóla­stjóri Héraðsskól­ans í Reyk­holti frá 1965-1979. Frá 1979-2001 var Vil­hjálm­ur skóla­meist­ari Mennta­skól­ans á Eg­ils­stöðum.[10]

Fjölskyldan

breyta

Vilhjálmur kvæntist Gerði Unndórsdóttur og eignuðust þau saman synina Rúnar, Einar, Unnar, Garðar, Hjálmar og Sigmar. Sonur þeirra, Einar Vilhjálmsson var afreksmaður í íþróttum eins og faðir hans.[11].[12] Yngsti sonur hjónanna er fjölmiðla- og athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson (Simmi), annar tvíeykisins Simma og Jóa.

Tilvísanir

breyta
  1. Vilhjálmur Einarsson: bls. 9-13
  2. Vilhjálmur Einarsson: bls. 15
  3. Vilhjálmur Einarsson bls. 13-15
  4. Vilhjálmur Einarsson: bls. 17-21
  5. Vilhjálmur Einarsson bls. 22-23, 26-30
  6. Vilhjálmur Einarsson bls. 37-43
  7. Gísli Halldórsson: bls. 165-169
  8. Gísli Halldórsson: bls. 183-184
  9. Vilhjálmur Einarsson: bls. 120-123, 130-131
  10. Mbl.is, „Vilhjálmur Einarsson látinn“, 29. desember 2019 (sótt 29. desember 2019)
  11. Vilhjálmur Einarsson: bls. 6, 43
  12. Gísli Halldórsson: bls. 318, 349, 381

Heimildir

breyta
  • Gísli Halldórsson: Íslendingar á Ólympíuleikum. Þáttaka fyrstu 100 árin. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Reykjavík 2003.
  • Vilhjálmur Einarsson o.fl.: Silfurmaðurinn. Íþróttaferill Vilhjálms Einarssonar. Uppruni - umhverfi - afrek. Námshringjaskólinn, Egilsstöðum 1995.