Vestur-Barðastrandarsýsla

Vestur-Barðastrandarsýsla var ein af sýslum Íslands á Vestfjörðum. Sýslur eru ekki lengur stjórnsýslueiningar á Íslandi, en nafnið er enn notað til að vísa til svæðisins. Svæðið er núna allt innan sveitafélagsins Vesturbyggðar.

Staðsetning V-Barðastrandarsýslu.

Sýslumörkin að norðan við Vestur-Ísafjarðarsýslu eru frá Langanestá í Arnarfirði upp á Glámu, en á Glámuhálendinu eru mörk fjögurra sýslna, Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu. Mörkin milli Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu eru um Skiptá í Kjálkafirði upp á Glámu. Úti á Breiðafirði liggja sýslumörkin sunnan Stagleyjar.

Í sýslunni voru áður eftirtalin sveitarfélög: Barðastrandarhreppur, sem náði frá sýslumörkum í Kjálkafirði út á Skorarhlíðar. Þar tók Rauðasandshreppur við og náði að Altarisbergi á Raknadalshlíð. Áður náði hreppurinn að Tálknatá, á nesinu milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar, en Patrekshreppi var skipt úr honum sem sérstöku sveitarfélagi árið 1906. Tálknafjarðarhreppur náði eins og nú frá Tálknatá að Kálfadalsá og þar tók Ketildalahreppur við að Skorarnúpi. Loks náði Suðurfjarðahreppur þaðan að sýslumörkum á Langanestá. Flateyjarhreppur tilheyrði áður Vestur-Barðastrandarsýslu en er nú hluti af Reykhólahrepp og þar með Austu-Barðastrandasýslu.

Í norðurhluta sýslunnar eru fremur þröngir firðir (Arnarfjörður, Tálknafjörður og Patreksfjörður) og undirlendi fremur lítið en miklir og breiðir sandar setja svip á suðurhlutann. Víða eru sæbrött fuglabjörg, þar á meðal Látrabjarg, stærsta fuglabjarg við norðanvert Atlantshaf. Ysti oddinn heitir Bjargtangar og þar nær Ísland lengst í vestur.

Helstu höfuðból sýslunnar til forna voru Selárdalur, Saurbær á Rauðasandi, Brjánslækur og Hagi á Barðaströnd. Víða eru fornar verstöðvar en nú eru þrír þéttbýlisstaðir í sýslunni, Patreksfjörður, Tálknafjörður og Bíldudalur. Kirkjur eru í Haga, á Brjánslæk, í Saurbæ, í Breiðuvík, í Sauðlauksdal, á Patreksfirði, á Tálknafirði, í Stóra-Laugardal, á Bíldudal og í Selárdal.

Sýslumaður Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu hefur aðsetur á Patreksfirði. Þar eru líka skrifstofur sveitastjórnar Vesturbyggðar, heilsugæslustöð og læknisþjónusta.