Gláma heitir hálendissvæði á Vestfjörðum, milli Breiðafjarðar að sunnan, Arnarfjarðar og Dýrafjarðar að vestan og Ísafjarðardjúps að norðaustan. Hæsti hluti Glámuhálendisins heitir Sjónfríð og nær um 920 metrum yfir sjávarmáli og sér þar víðar um Vestfjarðakjálkann en frá nokkrum öðrum sjónarhól. Uppi á Sjónfríð stendur enn mikil varða sem talið er að norski liðsforinginn Hans Frisak og landmælingamenn hans hafi reist árið 1806 eða 1809. Varðan stendur á mörkum Vestur-Ísafjarðarsýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu. Um sjö kílómetrum sunnar og aðeins austar mætast fjórar sýslur í einum punkti, Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýsla og Vestur- og Austur-Barðastrandarsýsla. Lengi vel var Gláma talin vera jökull og hefur sennilega verið á kuldaskeiðum. En frá lokum 19. aldar hafa einungis stærri eða minni snjófannir legið á Glámu að sumarlagi en enginn jökull. Allt Glámuhálendið nær yfir um 230 ferkílómetra.

Yfirlitskort af Vestfjörðum

Þrátt fyrir mikið stórgrýti eins og annarsstaðar á hálendi Vestfjarða lágu áður fyrr margar varðaðar leiðir yfir Glámu enda var sú leið hin skemmsta úr Dýrafirði og Arnarfirði yfir til byggðanna í Austur-Barðastrandarsýslu og innanvert Ísafjarðardjúp. Þegar riðið var til Alþingis á þjóðveldistímanum úr byggðunum í Vestur-Ísafjarðarsýslu og eins þegar lagt var upp í aðrar ferðir til héraða utan Vestfjarða var oft farið yfir Glámu. Flestir þeirra sem lögðu leið sína yfir Glámu fóru þó aðeins á milli héraða á Vestfjörðum. Vatnasvið Mjólkárvirkjunar í Arnarfirði er vestanvert Glámuhálendið.

Heimild breyta

Vestfjarðarit I, Firðir og fólk, 900-1900, Kjartan Ólafsson, útg. Búnaðarsamband Vestfjarða 1999