Vegur Ólafs helga – eða Vegir Ólafs helga – eru samnefni fjölmargra leiða að dómkirkjunni í Niðarósi í Noregi. (Niðarós heitir nú Þrándheimur). Þetta var ein mikilvægasta pílagrímaleið í Evrópu á miðöldum, og hefur hún nú verið endurreist.

Miðaldalíkneski af Ólafi helga frá kirkjunni í Rättvik í Dalarna í Svíþjóð
Vegur Ólafs helga.

Fljótlega eftir fall Ólafs helga Haraldssonar í Stiklastaðaorustu 1030 fóru pílagrímar að leita hjálpar við gröf hans í Niðarósi. Fyrsta kraftaverk hans var sólmyrkvinn sem varð þegar hann féll. Ýmis önnur kraftaverk eða jarteiknir fylgdu í kjölfarið, og þótti hann góður til áheita. Var hann kanóníseraður sem dýrlingur þegar árið 1031. Segir Snorri Sturluson frá því í Ólafs sögu helga í Heimskringlu: Var þá biskups atkvæði og konungs samþykki og dómur allsherjar að Ólafur væri sannheilagur. Ólafur helgi varð verndardýrlingur Noregs, og frægð hans og helgi barst langt út fyrir strendur landsins. Voru meðal annars 70 kirkjur á Íslandi helgaðar honum.

Leiðir pílagríma frá öllum Norðurlöndum og Norður-Evrópu, lágu ýmist á skipsfjöl eða yfir fjöll og heiðar. Leiðin til Niðaróss (Niðaróssvegurinn /-vegirnir), varð fjórða mikilvægasta pílagrímaleiðin í Evrópu á miðöldum, á eftir leiðunum til Jerúsalem og Rómar, og Jakobsveginum. Til Niðaróss fóru þúsundir á hverju ári allt fram að siðaskiptunum í Noregi 1537, þegar hin nýja lútherska kirkja bannaði pílagrímaferðir og allt annað sem tengdist dýrlingadýrkun. Á miðöldum voru pílagrímsferðir fyrst og fremst farnar í sáluhjálparskyni í von um andlegar eða líkamlegar náðargjafir og sem þakkargjörð og einnig í yfirbótarskyni, ýmist að eigin frumkvæði eða fyrirlagt af andlegum eða veraldlegum yfirvöldum. Ferðunum var heitið til staða sem geymdu leifar dýrlinga og annarra heilagra manna. Líkamar og líkamshlutar heilagra manna, og hlutir sem höfðu verið í snertingu við þá, voru helgir dómar og bjuggu yfir andlegum kröftum.

Ekki er allstaðar ljóst hvar hinar fornu pílagrímaleiðir lágu, enda víða gróið yfir stíga og aðrir horfnir undir vegi eða önnur mannvirki nútímans. Pílagrímarnir héldu gjarnan hópinn og voru áfangastaðir með beitilandi fyrir hesta með 8 til 10 km millibili. Einnig var fjöldi gistihúsa og viðlegustaða á leiðinni. Oft var gist í klaustrum. Krossar og kapellur vísuðu veginn og víða mátti finna helgar uppsprettur.

Á síðustu áratugum hefur afstaða lúthersku kirknanna á Norðurlöndum gagnvart pílagrímaferðum snúist frá því sem áður var. Þær sækjast ekki eftir kraftaverkum miðaldakirkjunnar heldur líta á pílagrímaferðina sem bænagjörð með fótunum. [1] Norska þjóðkirkjan átti frumkvæði að endurvakningu Niðarósgöngunnar í byrjun tíunda áratugar 20. aldar. Í samvinnu við ferðafélög og Umhverfismálaráðuneyti Noregs var hinn nýi Vegur Ólafs helga opnaður í júlí 1997. Síðan hefur markvist verið unnið að því að merkja leiðir og gefa út bæklinga og kort um leiðirnar. Samanlögð veglengd er nú orðin um 5.000 km, þar af um 2.000 km í Noregi[2]. Fjölmargir pílagrímar fara nú á hverju ári einhverja af þessum leiðum, annaðhvort upp á eigin spýtur eða í skipulögðum hópum, oft undir forystu presta.

Tilvitnanir

breyta
  1. „Vefur sænsku þjóðkirkjunnar um pilagríma“. Afrit af upprunalegu geymt þann 31. júlí 2021. Sótt 8. júlí 2008.
  2. „Vegur Ólafs helga (Pilegrimsleden)“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. mars 2009. Sótt 27. mars 2016.

Heimild

breyta
  • Helgonet i Nidaros. Olavskult och kristnande i norden. Ritstjóri Lars Rumar. Riksarkivet, 1997. ISBN 91-88366-31-6

Tenglar

breyta

Upplýsingar um Veg Ólafs helga á ýmsum málum