Thabo Mbeki
Thabo Mvuyelwa Mbeki (f. 18. júní 1942) er suður-afrískur stjórnmálamaður sem var annar forseti Suður-Afríku, frá 1999 til 2008. Þann 20. september 2008, aðeins níu mánuðum áður en seinna kjörtímabili hans átti að ljúka, lýsti Mbeki yfir afsögn sinni úr embætti vegna þrýstings frá miðstjórn Afríska þjóðarráðsins eftir að dómarinn Christopher Nicholson úrskurðaði að Mbeki hefði skipt sér með ólögmætum hætti af rannsókn á spillingarmálum keppinautar síns, Jacobs Zuma.[1] Þann 12. janúar 2009 var ákvörðun Nicholsons ógilt eftir áfrýjun, en Mbeki tók þó ekki aftur við embætti.
Thabo Mbeki | |
---|---|
Forseti Suður-Afríku | |
Í embætti 16. júní 1999 – 24. september 2008 | |
Varaforseti | Jacob Zuma Phumzile Mlambo-Ngcuka |
Forveri | Nelson Mandela |
Eftirmaður | Kgalema Motlanthe |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 18. júní 1942 Mbewuleni, Suður-Afríku |
Þjóðerni | Suður-afrískur |
Stjórnmálaflokkur | Afríska þjóðarráðið |
Maki | Zanele Mbeki (g. 1974) |
Háskóli | Háskólinn í London Háskólinn í Sussex |
Undirskrift |
Á forsetatíð Mbeki óx suður-afríski efnahagurinn að meðaltali um 4.5% á ári og ýmis ný millilaunastörf urðu til. Svarta millistéttin stækkaði ört með hjálp ríkisstyrkja og -verkefna í þágu svartra Suður-Afríkumanna. Vöxturinn jók eftirspurn eftir menntuðum sérfræðingum sem hafði áður dalað vegna fólksflótta frá hárri glæpatíðni, en gerði lítið til að bæta úr atvinnuleysi meðal ómenntaðra verkamanna, sem töldu til sín meirihluta landsmanna. Stjórn Mbeki laðaði erlenda fjárfesta til landsins og gerði Suður-Afríku að miðpunkti hagvaxtar í Afríku. Mbeki ræktaði einnig efnahagsbandalag Suður-Afríku við Brasilíu, Rússland, Indland og Kína og stofnaði sérstakan samræðuvettveng ásamt Indlandi og Brasilíu (IBSA).[2]
Mbeki var sáttasemjari og milligöngumaður í ýmsum deilumálum í Afríku, meðal annars í Búrúndí og á Fílabeinsströndinni, og lék hlutverk í gerð nokkurra mikilvægra friðarsáttmála. Mbeki sá um að breyta Afríska einingarbandalaginu í Afríkusambandið. Mbeki var hins vegar gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi sitt í samskiptum Suður-Afríku við Simbabve. Gagnrýnendur hans telja að hann hafi haldið lífi í einræðisstjórn Roberts Mugabe með þeim afleiðingum að þúsundir Simbabvemanna létu lífið og efnahagur nágrannaríkjanna bað hnekki. Mbeki var áberandi sem leiðtogi Sambands hlutlausra ríkja í Sameinuðu þjóðunum. Mbeki reyndi að semja um aðild Suður-Afríku að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og kallaði á eftir umbótum í skipulagi þess.
Mbeki hefur verið gagnrýndur um allan heim fyrir viðhorf sitt til alnæmis.[3] Hann hefur dregið í efa að tengsl séu milli HIV-veirunnar og alnæmis[4] og telur að tengslin milli fátæktar og tíðni alnæmis í Afríku afsanni að alnæmi sé af völdum veirusýkinga. Ríkisstjórn Mbeki bannaði notkun andretróveirulyfja á ríkisreknum sjúkrahúsum en talið er að þetta hafi ollið um 330.000 til 365.000 dauðsföllum. Mbeki hefur einnig verið gagnrýndur fyrir að svara allri gagnrýni á ríkisstjórn sína með ásökunum um kynþáttahyggju.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Þrýst á Mbeki að segja af sér“. Vísir. 13. september 2008. Sótt 9. október 2018.
- ↑ „Communique on India-Brazil-South Africa (IBSA) Dialogue Forum“. South African Department of Foreign Affairs. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. september 2008.
- ↑ „Hvattur til að skipta um skoðun“. Morgunblaðið. 15. september 2000. Sótt 9. október 2018.
- ↑ „Sakar CIA um aðild að alnæmissamsæri“. Morgunblaðið. 7. október 2000. Sótt 9. október 2018.
Fyrirrennari: Nelson Mandela |
|
Eftirmaður: Kgalema Motlanthe |