Robert Mugabe
Robert Gabriel Mugabe (21. febrúar 1924 – 6. september 2019) var byltingar- og stjórnmálamaður frá Simbabve sem var forseti landsins frá 1987 til 2017. Hann var þar áður forsætisráðherra Simbabve frá 1980 til 1987. Hann var flokksformaður ZANU (Zimbabwe African National Union; Hins afríska þjóðarbandalags Simbabve) og síðar formaður ZANU - Þjóðernisfylkingarinnar frá árinu 1980. Mugabe var afrískur þjóðernissinni en skilgreindi sig á áttunda og níunda áratugnum sem marx-lenínista. Frá og með tíunda áratugnum skilgreindi hann sig þó aðeins sem sósíalista og stefnumál hans gengu undir nafninu mugabeismi.
Robert Mugabe | |
---|---|
Forseti Simbabve | |
Í embætti 31. desember 1987 – 21. nóvember 2017 | |
Forsætisráðherra | Morgan Tsvangirai (2009–2013) |
Varaforseti | Simon Muzenda Joice Mujuru Emmerson Mnangagwa |
Forveri | Canaan Banana |
Eftirmaður | Emmerson Mnangagwa |
Forsætisráðherra Simbabve | |
Í embætti 18. apríl 1980 – 31. desember 1987 | |
Forseti | Canaan Banana |
Forveri | Abel Muzorewa |
Eftirmaður | Morgan Tsvangirai (2009) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 21. febrúar 1924 Kutama, Suður-Ródesíu |
Látinn | 6. september 2019 (95 ára) Singapúr |
Stjórnmálaflokkur | ZANU |
Maki | Sally Hayfron (g. 1961; látin 1992) Grace Marufu (g. 1996-2019) |
Börn | 4, þ. á m. Bona |
Starf | Kennari, byltingarmaður, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaMugabe fæddist í fátækt í bænum Kutama í því sem þá var Suður-Ródesía. Eftir að hafa hlotið menntun í Kutama-háskóla og háskólanum í Fort Hare gerðist Mugabe barnaskólakennari í Suður-Ródesíu, Norður-Ródesíu og Gana. Mugabe reiddist því að Suður-Ródesía skyldi lúta breskum nýlenduyfirráðum hvíts minnihluta. Hann gerðist því marxisti og gekk til liðs við andófsmenn sem kröfðust stofnun sjálfstæðs ríkis svartra Afríkumanna. Eftir að hafa talað gegn ríkisstjórninni var Mugabe handtekinn fyrir óspektir og dvaldi í fangelsi frá 1964 til 1974. Þegar hann hlaut frelsi sitt flúði hann til Mósambík, gerðist leiðtogi ZANU og leiddi flokkinn í kjarrstríðinu gegn hvítri minnihlutastjórn Ians Smith. Mugabe féllst með semingi á að hefja friðarviðræður með milligöngu Breta sem leiddi til gerðar friðarsáttmála í Lancasterhöll. Sáttmálinn leysti upp hvítu minnihlutastjórnina í Ródesíu og leiddi til þingkosninga árið 1980 þar sem Mugabe leiddi ZANU-Þjóðernisfylkinguna til sigurs og varð forsætisráðherra hins endurnefnda ríkis Simbabve. Ríkisstjórn Mugabe jók ríkisútgjöld til mennta- og velferðarmála en hélt sig við íhaldssamar efnahagsstefnur þrátt fyrir sósíalískar hugsjónir forsætisráðherrans.
Stjórnartíð
breytaMugabe hvatti í fyrstu til sáttar milli kynþáttanna en tókst ekki að koma í veg fyrir kynþáttadeilur og fólksflótta hvíta minnihlutans. Einnig stirðnaði samband hans við Simbabve-afríska alþýðubandalagið (ZAPU; Zimbabwe African People's Union) eftir að Mugabe kvað niður andstöðu ZAPU-manna í Matabelelandi á árunum 1982 til 1985. Í það minnsta 10.000 manns, aðallega borgarar af Ndebele-þjóðerni, voru drepnir af hersveitum Mugabe. Mugabe sóttist eftir afnýlenduvæðingu og lagði áherslu á að gera upptæk landsvæði sem tilheyrðu hvítum bændum og gefa þau landlausum blökkumönnum. Í upphafi var þetta gert með kaupi og sölu á landeignunum en frá árinu 2000 hvatti Mugabe til þess að jarðir yrðu teknar af hvítum landeigendum með valdi. Matarframleiðsla leið fyrir þetta og úr urðu hungursneyðir, viðskiptaþvinganir erlendra ríkja og mikill efnahagshalli. Andstaða gegn Mugabe jókst, sérstaklega með stofnun Lýðræðishreyfingarinnar (Movement for Democratic Change). Mugabe var þó endurkjörinn árin 2002, 2008 og 2013 en kosningabarátturnar einkenndust öll árin af ofbeldi, kosningasvindli og þjóðernisskrumi. Í utanríkismálum sendi Mugabe hermenn til að berjast í síðara Kongóstríðinu og var formaður Samtaka hlutlausra ríkja (1986-89), afríska einingarbandalagsins (1997–98) og Afríkusambandsins (2015-16).
Eftir að hafa verið miðpunktur stjórnmála í Simbabve í tæpa fjóra áratugi var Mugabe afar umdeildur leiðtogi. Honum hefur verið hrósað sem byltingarhetju sem frelsaði Simbabve úr fjötrum breskrar heimsvaldsstefnu og hvítrar minnihlutastjórnar. Á hinn bóginn hefur hann verið gagnrýndur sem einræðisherra sem ber ábyrgð á efnahagshalla, óðaverðbólgu, spillingu, mismunun gegn hvítum, broti á mannréttindum, bælingu á andófsmönnum og glæpum gegn mannkyninu.
Fall frá völdum
breytaÞann 15. nóvember 2017 setti simbabveski herinn Mugabe í stofufangelsi.[1][2][3] Mugabe sagði af sér embætti þann 21. nóvember sama ár en hafði fengið frest til að segja af sér þar til 20. mánaðarins. [4] Emmerson Mnangagwa tók við af Mugabe sem forseti Simbabve, en Mugabe hafði leyst Mnangagwa frá störfum stuttu áður en honum var steypt af stóli.[5]
Í aðdraganda þing- og forsetakosninga sem kallað var til árið 2018 lýsti Mugabe því yfir að hann myndi ekki kjósa Mnangagwa og ZANU þar sem hann gæti ekki hugsað sér að veita „kvölurum“ sínum stuðning. Hann gaf í skyn að hann myndi kjósa Lýðræðishreyfinguna og frambjóðanda hennar, Nelson Chamisa.[6]
Mugabe lést þann 6. september árið 2019 á sjúkrahúsi í Singapúr. Hann hafði dvalið þar frá því í apríl sama ár vegna veikinda sinna.[7]
Tenglar
breyta- „Mugabe þótti efnilegur leiðtogi“, Í ljósi sögunnar, RÚV, skoðað 8. febrúar 2018.
- Samúel Karl Ólason (22. nóvember 2017). „Upprisa og fall Mugabe: Kennari, uppreisnarmaður, frelsishetja, harðstjóri“. Vísir.
Tilvísanir
breyta- ↑ CNN, David McKenzie, Brent Swails and Angela Dewan,. „Zimbabwe in turmoil after apparent coup“. CNN. Sótt 15. nóvember 2017.
- ↑ „Zimbabwe's Robert Mugabe confined to home as army takes control“. The Guardian. Sótt 15. nóvember 2017.
- ↑ http://www.sbs.com.au/news/article/2017/11/16/stunned-zimbabweans-face-uncertain-future-without-mugabe
- ↑ Robert Mugabe segir af sér, Rúv, skoðað 21. nóv, 2017
- ↑ McKenzie, David; McKirdy, Euan; Dewan, Angela (24. nóvember 2017). Zimbabwe's 'Crocodile' Emmerson Mnangagwa sworn in as leader. CNN. Sótt 27. nóvember 2017.
- ↑ Mugabe styður ekki Mnangagwa til forseta, Rúv, skoðað 31. júlí 2018.
- ↑ „Robert Mugabe látinn“. mbl.is. 6. september 2019. Sótt 7. september 2019.
Fyrirrennari: Abel Muzorewa |
|
Eftirmaður: Morgan Tsvangirai (2009) | |||
Fyrirrennari: Canaan Banana |
|
Eftirmaður: Emmerson Mnangagwa |