Jacob Zuma

4. forseti Suður-Afríku

Jacob Gedleyihlekisa Zuma (f. 12. apríl 1942) er suður-afrískur stjórnmálamaður sem var fjórði forseti Suður-Afríku. Hann sat í embætti frá árinu 2009 þar til hann sagði af sér þann 14. febrúar 2018.[1][2] Zuma er stundum kallaður JZ eftir upphafsstöfum sínum, eða Msholozi sem er viðurnefni hans innan Súlúþjóðarinnar.[3][4][5]

Jacob Zuma
Forseti Suður-Afríku
Í embætti
9. maí 2009 – 14. febrúar 2018
VaraforsetiKgalema Motlanthe
Cyril Ramaphosa
ForveriKgalema Motlanthe
EftirmaðurCyril Ramaphosa
Persónulegar upplýsingar
Fæddur12. apríl 1942 (1942-04-12) (82 ára)
Nkandla, Suður-Afríku
ÞjóðerniSuður-afrískur
StjórnmálaflokkurAfríska þjóðarráðið
MakiGertrude Sizakele Khumalo (g. 1973) Kate Mantsho (g. 1976; d. 2000)
Nkosazana Dlamini (g. 1982; skilin 1998)
Nompumelelo Ntuli (g. 2008)
Thobeka Mabhija (g. 2010)
Gloria Bongekile Ngema (g. 2012)
Börn20

Stjórnmálaferill breyta

Zuma var varaforseti Suður-Afríku frá 1999 til 2005[6][7] í forsetatíð Thabo Mbeki en var rekinn úr embætti eftir að fjármálaráðgjafi Zuma, Schabir Shaik, var sakfelldur fyrir að sækjast eftir mútufé fyrir Zuma. Zuma tókst engu að síður að velta Mbeki úr sessi sem forseti Afríska þjóðarráðsins (ANC) í formannskjöri þann 18. desember 2007. Þann 20. september 2008 lýsti Mbeki því yfir að hann myndi segja af sér að áeggjan miðstjórnar þjóðarráðsins.[8] Þjóðarráðið neyddi Mbeki til að segja af sér eftir að hæstaréttardómarinn Christopher Nicholson gaf út úrskurð um að Mbeki hefði skipt sér með ólögmætum hætti af starfsemi suður-afríska rannsóknardómstólsins, þar á meðal varðandi spillingarmál Zuma.

Zuma leiddi Þjóðarráðið til sigurs í þingkosningum árið 2009 og var kjörinn forseti Suður-Afríku. Hann var endurkjörinn í formannsembætti flokksins á 53. flokksþingi hans þann 18. desember 2012.[9] Hann sat áfram sem forseti Suður-Afríku eftir þingkosningar ársins 2014 en flokkur hans tapaði þó nokkru fylgi, ekki síst vegna óánægju þjóðarinnar með frammistöðu Zuma sem forseta.

Zuma komst mörgum sinnum í kast við lögin á stjórnmálaferli sínum. Hann var ákærður fyrir nauðgun árið 2005 en sýknaður. Í mörg ár þurfti hann að verjast ásökunum um spillingu fyrir rétti eftir að fjármálaráðgjafi hans, Schabir Shaik, var sakfelldur fyrir spillingu og fjársvik. Þann 6. apríl 2009 felldu suður-afrísk dómsvöld niður kærur gegn Zuma með þeim rökum að stjórnmálamenn hefðu haft afskipti af kærunni. Stjórnarandstaðan áfrýjaði þessari ákvörðun og árið 2018 voru kærurnar aftur komnar upp á borðið.

Zuma notaði ríkisfé til þess að fjármagna kostnaðarsama endurnýjun og uppbyggingu á sveitasetri sínu í Nkandla og í rannsókn á málinu var komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði dregið sér fé og hagnast á ólögmætan máta í aðgerðunum. Framkvæmdirnar kostuðu andvirði um 1,8 milljarða íslenskra króna. Meðal aðgerðanna sem ríkissjóðurinn greiddi fyrir var bygging sundlaugar og útileikhúss á setri Zuma.[10] Stjórnlagadómstóll staðfesti árið 2014 að Zuma hefði brotið gegn stjórnarskrá landsins.[11] Í kjölfarið var kallað eftir afsögn hans og árangurslaus tilraun gerð til þess að lýsa yfir vantrausti gegn honum á suður-afríska þinginu. Talið er að Zuma hafi á forsetatíð sinni kostað suður-afríska efnahaginn andvirði um það bil 9000 milljarða íslenskra króna.[12] Zuma hefur einnig verið sakaður um óeðlileg fjárhagstengsl við hina ríku og voldugu Gupta-fjölskyldu. Zuma tókst að tolla í embætti þrátt fyrir fjölmargar vantrauststillögur, bæði á suður-afríska þinginu og innan Afríska þjóðarráðsins.

Þann 18. desember árið 2017 var Cyril Ramaphosa kjörinn til að taka við af Zuma sem formaður þjóðarráðsins á 54. flokksþingi þess.[13] Á næstu mánuðum var í síauknum mæli ýtt á eftir afsögn Zuma sem forseta Suður-Afríku. Loks lagði þjóðarráðið fram formlega kröfu um afsögn hans. Er þingið undirbjó enn eina vantrauststillöguna lýsti Zuma yfir að hann myndi segja af sér þann 14. febrúar 2018.[14] Ramaphosa tók við embætti hans næsta dag.

Zuma var dæmdur í fimmtán mánaða óskilorðsbundið fangelsi í júní 2021 fyrir að sýna spillingarnefnd í Jóhannesarborg vanvirðingu.[15] Í september 2021 staðfesti dómstóllinn sakfellingu Jacob Zuma í 15 mánaða fangelsi.[16]

Tilvísanir breyta

  1. „Zuma kjör­inn for­seti S-Afr­íku“. mbl.is. Sótt 23. júlí 2018.
  2. Þórgnýr Einar Albertsson. „Zuma sagði af sér í skugga vantrausts“. Vísir. Sótt 23. júlí 2018.
  3. Mbuyazi, Nondumiso (13. september 2008). „JZ receives 'death threat'. The Star. bls. 4. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. maí 2009. Sótt 23. júlí 2018 2008.
  4. Gordin, Jeremy (31. ágúst 2008). „So what are Msholozi's options?“. Sunday Tribune. Sótt 23. júlí 2018.
  5. Lander, Alice (19. desember 2007). „Durban basks in Zuma's ANC victory“. BBC News. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. desember 2007. Sótt 23. júlí 2018.
  6. „Jacob Gedleyihlekisa Zuma“. The Presidency. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. febrúar 2009. Sótt 23. júlí 2018.
  7. SA News/Staff Reporter (22. maí 2014). „Jacob Zuma elected president“. iafrica.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. júní 2014. Sótt 23. júlí 2018.
  8. „SA's Mbeki says he will step down“. London, UK: BBC News. 20. september 2008. Sótt 23. júlí 2018.
  9. Conway-Smith, Erin (18. desember 2012). „Jacob Zuma re-elected as head of ANC“. The Telegraph. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. janúar 2014. Sótt 27. nóvember 2013.
  10. Ævar Örn Jósepsson. „Zuma biður suður-afrísku þjóðina afsökunar“. RÚV. Sótt 23. júlí 2018.
  11. Kristján Róbert Kristjánsson (31. mars 2016). „Zuma sekur um stjórnarskrárbrot“. RÚV. Sótt 23. júlí 2018.
  12. „Budget 2018 is Zuma's Costly Legacy“. Mail & Guardian. Sótt 23. júlí 2018.
  13. Herman, Paul (18. desember 2017). „Ramaphosa wins ANC presidency – AS IT HAPPENED“. News24 (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 18. desember 2017.
  14. „Time's up: Jacob Zuma has resigned“. Mail & Guardian. 14. febrúar 2018. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. febrúar 2018.
  15. Ásgeir Tómasson (29. júní 2021). „Jacob Zuma í 15 mánaða fangelsi“. RÚV. Sótt 29. júní 2021.
  16. Ásgeir Tómasson (29. júní 2021). „Jacob Zuma í 15 mánaða fangelsi“. RÚV. Sótt 29. júní 2021.


Fyrirrennari:
Kgalema Motlanthe
Forseti Suður-Afríku
(9. maí 200914. febrúar 2018)
Eftirmaður:
Cyril Ramaphosa