Saparmyrat Nyýazow

Einræðisherra í Túrkmenistan (1991-2006)
(Endurbeint frá Türkmenbaşy)

Saparmyrat Ataýewiç Nyýazow (19. febrúar 194021. desember 2006) (stundum ritað Saparmurat Niyazov, en það er ensk umritun á nafninu byggð á umritunarkerfi fyrir rússnesku) var valdamesti maður Túrkmenistan frá 1985 til andláts hans 2006. Hann var einnig þekktur sem „Serdar Saparmyrat Türkmenbaşy hinn mikli“, eða einfaldlega „Türkmenbaşy“ (oft ritað Turkmenbashi á ensku).

Saparmyrat Nyýazow
Forseti Túrkmenistan
Í embætti
2. nóvember 1990 – 21. desember 2006
ForsætisráðherraHan Ahmedow (1990–92)
VaraforsetiOrazgeldi Aýdogdyew
Gurbanguly Berdimuhamedow
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurGurbanguly Berdimuhamedow
Persónulegar upplýsingar
Fæddur19. febrúar 1940
Gypjak, túrkmenska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
Látinn21. desember 2006 (66 ára) Asgabat, Túrkmenistan
ÞjóðerniTúrkmenskur
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Túrkmenistan (1962–1991)
Lýðræðisflokkur Túrkmenistan (1991–2006)
MakiMuza Niyazova
BörnMurat og Irina
HáskóliTækniháskólinn í Leníngrad

Nyýazow vakti mikla athygli um allan heim fyrir sérviskulega og jafnvel stórskrýtna stjórnarhætti í landi sínu, en hafa ber í huga að hann var í raun einráður í landinu.

Æviágrip

breyta

Samkvæmt opinberri ævisögu Nyýazows dó faðir hans í orrustu við Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni og það sem eftir var fjölskyldunnar fórst í öflugum jarðskjálfta 1948, jarðskjálfta sem nánast jafnaði borgina Aşgabat við jörðu. Hann var því aðeins átta ára þegar honum var komið fyrir á sovésku munaðarleysingjahæli, en nokkru seinna var honum komið fyrir hjá fjarskyldum ættingjum. 1962 gekk hann í kommúnistaflokkinn og fékk þar skjótan frama. Hann varð formaður kommúnistaflokks Túrkmenistan 1985 og studdi byltinguna gegn Míkhaíl Gorbatsjov í Rússlandi 1991. Eftir fall Sovétríkjanna hélt Nyýazow völdum og varð fyrsti forseti landsins.

Þann 22. október 1993 gaf hann sjálfum sér titilinn Türkmenbaşy (eða Түркменбашы) sem þýðir lauslega „Foringi allra Túrkmena“. Hinn 29. desember 1999 kaus þing landsins, Majlis, hann forseta til lífstíðar. Þess ber að geta að þingið var oft sagt algjörlega undir hæl Nyýazows. Í nóvember 2006 greindi hann frá því að hann væri veill fyrir hjarta og lést hann í desember sama ár.

Persónudýrkun

breyta

Nyýazow var einræðisherra og þekktur fyrir yfirgengilega persónudýrkun. Þar sem hann trúði því staðfastlega að Túrkmenistan vantaði þjóðarímynd reyndi hann að móta landið eftir eigin skoðunum. Hann endurnefndi borgina Krasnovodsk við Kaspíahaf Türkmenbaşy eftir sjálfum sér, auk þess sem hann nefndi nokkra skóla, flugvelli og jafnvel loftstein í höfuðið á sjálfum sér. Árið 2002 skipaði hann svo fyrir að brauð skyldi hér eftir kallað Gurbansoltan Eje eftir látinni móður hans, í stað venjulega túrkmenska orðsins yfir brauð, chorek.

Andlit Nyýazows var á öllum peningaseðlum og andlit hans vakti yfir almenningi með stórum plakötum á opinberum stöðum. Styttur af honum og móður hans voru á víð og dreif um Túrkmenistan, jafnvel í miðri Kara Kum-eyðimörkinni, og stór gullstytta af honum var á toppi hæstu byggingar Aşgabat. Styttan snerist þannig að Nyýazow sneri alltaf að sólu. Þá ákvað hann að byggja risavaxna höll í Aşgabat til að minnast stjórnartíðar sinnar. Þótt ótrúlegt sé lét Nyýazow hafa eftir sér að hann væri ekkert mikið fyrir þessa persónudýrkun „Ég er persónulega á móti því að sjá myndir og styttur af mér úti á götu – en þetta er það sem fólkið vill.“

Menntakerfið kenndi ungum Túrkmenum að elska Nyýazow, og skrifaði hann sjálfur meginhluta kennsluefnisins. Aðalnámsefnið er saga eftir Nyýazow, Ruhnama, eða „Bók sálarinnar“. Námsbækur frá Sovéttímabilinu hafa verið bannaðar og er því lítið að finna í bókasöfnum landsins annað en verk Nyýazows.

Einnig ber að nefna að Nyýazow skipti um stafróf Túrkmena og er nýja stafrófið byggt á því latneska (en það gamla á kýrillísku). Þá breytti hann árið 2002 nöfnum daga og mánaða eftir frægum Túrkmenum. Þannig hét janúar „Türkmenbaşy“ í höfuðið á honum sjálfum og apríl hét „Gurbansoltan Eje“ í höfuðið á móður hans. Ríkisstjórn Túrkmenistans breytti mánuða- og daganöfnunum í fyrra horf tveimur árum eftir dauða Nyýazow árið 2006.

Forsetatilskipanir

breyta

Nyýazow, forseti til lífstíðar, gaf út margar forsetatilskipanir. Sem dæmi um þær eru:

  • Sjónvarpsfréttamönnum var bannað að nota farða þar sem Nyýazow átti í erfiðleikum með að greina í sundur mennina og konurnar
  • Óperur voru bannaðar sem og ballett, en Nyýazow lýsti þeim sem „ónauðsynlegum“
  • Nyýazow ákvað að banna reykingar á almannafæri árið 1997, en þá þurfi hann einmitt sjálfur að hætta að reykja eftir hjartaaðgerð
  • Það að hreyfa varirnar við tónlist var bannað (e. lip syncing)
  • 2001 var ungum mönnum bannað að hafa sítt hár eða skegg
  • 2003 rak hann 15.000 heilbrigðisstarfsmenn og skipaði þess í stað hermönnum (með enga þjálfun) að ganga í störf þeirra
  • Í mars 2005 fyrirskipaði hann lokun allra spítala fyrir utan Aşgabat og sagði að ef fólk væri veikt gæti það snúið sér til höfuðborgarinnar.
  • Nyýazow fyrirskipaði einnig lokun allra bókasafna í sveitum landsins og kvað ástæðuna vera þá að hinn almenni Túrkmeni læsi hvort eð er ekkert.
  • Hann bannaði líka það að ungt fólk fengi sér gullfyllingar eða gullbrýr í tennur. Þess í stað ráðlagði hann því að tyggja bein í staðinn, það ætti að vernda tennurnar.
  • Í ágúst 2005 bannaði hann spilun tónlistarupptaka í sjónvarpi, á almannafæri eða í brúðkaupum. Ástæðan var sú að hann vildi vernda tónlistarhefð Túrkmena.
  • Í nóvember 2005 fyrirskipaði hann að læknar skyldu sverja honum eið í stað hins venjubundna Hippókratesareiðs.
  • Í desember 2005 bannaði hann tölvuleiki, enda væru þeir allt of ofbeldisfullir fyrir unga Túrkmena.
  • Sama mánuð vakti hann athygli fyrir að fyrirskipa olíumálaráðherrra landsins að læra ensku á 6 mánuðum eða taka poka sinn ella.

Stjórnarstefna og utanríkistengsl

breyta

Nyýazow vakti athygli fyrir stjórnarstefnu sína. Þannig fyriskipaði hann í ágúst 2004 byggingu risavaxinnar íshallar í miðri eyðimörk og fyrir stuttu réðst hann í byggingu dýragarðs. Nyýazow hefur lagt mikla áherslu á að fá mörgæsir í dýragarð sinn, enda telur hann hungur blasa við þeim vegna hlýnandi loftslags.

Einungis tveimur trúfélögum var leyft að hafa tilbeiðsluhús í Túrkmenistan: rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og súnní-múslimum, en þeir síðarnefndu hafa meiri stuðning ríkisins. Starfsemi erlendra menningarsamtaka var með öllu bönnuð í landinu.

Eftir meinta morðtilraun hinn 25. nóvember 2002 handtóku yfirvöld stóran hóp meintra samsærismanna og fjölskyldumeðlimi þeirra. Gagnrýnendur halda því fram að tilræðið hafi verið sviðsett til að gefa yfirvöldum ástæðu fyrir fjöldahandtökunum og slá þannig á vaxandi mótstöðu við forsetann.

Sumarið 2004 var dreifiblöðum og bæklingum dreift í höfuðborginni Aşgabat, þar sem hvatt var til þess að Nyýazow yrði steypt af stóli og hann látinn svara til saka. Stjórnvöld áttu í erfiðleikum með að stöðva herferðina og varð það til þess að Nyýazow rak innanríkisráðherrann og skólastjóra lögregluskólans í beinni útsendingu ríkissjónvarpsins.

Sem fyrr segir fyrirskipaði hann að 15.000 heilbrigðisstarfsmenn létu af störfum og óþjálfaðir hermenn kæmu í stað þeirra. Í febrúar 2005 spurði hann „Af hverju ættum við að sóa hæfileikum góðra heilbrigðisstarfsmanna í þorpin þegar þeir ættu með réttu að vera að vinna í höfuðborginni?“ Í mars 2005 fylgdi hann þessum ummælum sínum eftir og lokaði öllum sjúkrahúsum utan höfuðborgarinnar.

Árið 2004 hitti hann kanadíska fyrrum forsætisráðherrann Jean Chrétien til að ræða olíusamning kanadísks fyrirtækis í Túrkmenistan. Kanadíska stjórnarandstaðan brást hin versta við fregnum af fundinum.

Árið 2005 kom Nyýazow öllum á óvart og lofaði að halda frjálsar og opnar kosningar fyrir árið 2010.

Tenglar

breyta


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Túrkmenistan
(2. nóvember 199021. desember 2006)
Eftirmaður:
Gurbanguly Berdimuhamedow