Gurbanguly Berdimuhamedow

Einræðisherra í Túrkmenistan

Gurbanguly Mälikgulyýewiç Berdimuhamedow (f. 29. júní 1957) er túrkmenskur stjórnmálamaður sem var forseti Túrkmenistan frá árinu 2006 til ársins 2022. Hann tók sér opinbera heiðurstitilinn Arkadag (ísl. Verndarinn). Berdimuhamedow fór fyrir einræði sem einkenndist af mikilli persónudýrkun á forsetanum.

Gurbanguly Berdimuhamedow
Gurbanguly Berdimuhamedow árið 2019.
Forseti Túrkmenistan
Í embætti
21. desember 2006 – 19. mars 2022
VaraforsetiRaşit Meredow
ForveriSaparmyrat Nyýazow
EftirmaðurSerdar Berdimuhamedow
Formaður Alþýðuráðs Túrkmenistan
Núverandi
Tók við embætti
14. apríl 2021
ForveriEmbætti endurstofnað
Persónulegar upplýsingar
Fæddur29. júní 1957 (1957-06-29) (66 ára)
Babarap, túrkmenska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
ÞjóðerniTúrkmenskur
StjórnmálaflokkurLýðræðisflokkur Túrkmenistan (til 2013)
MakiOgulgerek Berdimuhamedova
Börn4, þ. á m. Serdar
HáskóliTúrkmenski ríkislæknaháskólinn
AtvinnaTannlæknir

Árið 2022 sagði hann óvænt af sér og lét son sinn, Serdar, taka við forsetaembættinu. Gurbanguly Berdimuhamedow er þó enn í reynd valdamesti maður landsins sem formaður Alþýðuráðs Túrkmenistan og ber jafnframt titilinn „þjóðarleiðtogi túrkmenskrar alþýðu“.

Æviágrip breyta

Gurbanguly Berdimuhamedow fæddist þann 29. júní 1957 í héraðinu Badarap í núverandi héraðinu Ahal í túrkmenska sovétlýðveldinu, sem þá var innan Sovétríkjanna. Hann er úr Teke-ættbálknum og var einkasonur í sex barna systkinahópi.

Faðir Gurbanguly, Malikguly Berdimuhamedow, var embættismaður í fangelsisvarðadeild innanríkisráðuneytis Sovétríkjanna. Hann fór á eftirlaun árið 1982 og hafði þá tign undirofursta innan lögreglunnar.[1][2] Afi Gurbanguly, Berdimuhamed Annaýew, vann sem skólakennari.[3] Hann gegndi þjónustu í rauða hernum í seinni heimsstyrjöldinni og herdeild hans var meðal þeirra fyrstu sem náðu yfir Dnjeprfljót í september 1943.[4] Hann lét lífið í Asgabatjarðskjálftanum í október árið 1948.[5]

Gurbanguly Berdimuhamedow útskrifaðist frá túrkmenska læknaháskólanum árið 1979 og hóf feril sem tannlæknir í Asgabat. Nokkrum árum síður ferðaðist hann til Moskvu til að hefja doktorsnám í læknavísindum. Þegar hann sneri heim til Túrkmenistan varð hann prófessor við tannlæknadeild Læknaháskóla Túrkmenistan árið 1990. Nokkru síðar hlaut hann stöðu við heilbrigðisráðuneyti landsins árið 1995 og var útnefndur heilbrigðisráðherra árið 1997. Árið 2001 var hann útnefndur fyrsti varaforseti ríkisstjórnarinnar með umsjón yfir mennta-, vísinda- og heilbrigðismálum.[3]

Valdataka breyta

Þegar Saparmyrat Nyýazow forseti lést þann 21. desember árið 2006 var Berdimuhamedow falið að stýra nefnd sem hafði umsjón með útför forsetans. Á tíma Sovétríkjanna höfðu þeir sem stýrðu ríkisútförum látinna leiðtoga gjarnan tekið við völdum í kjölfarið.

Stjórnarskrá Túrkmenistan kvað á um að ef forsetinn dæi í embætti ætti forseti þingsins að taka við forsetaembætti til bráðabirgða. Samkvæmt þessu hefði Öwezgeldi Ataýew átt að verða forseti en strax eftir dauða Nyýazow hófst opinber rannsókn á meintum embættisglæpum hans sem kom í veg fyrir að hann tæki við embætti. Öryggisráð Túrkmenistan útnefndi Berdimuhamedow starfandi forseta landsins fram að kosningum.[3]

Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. túrkmensku stjórnarskrárinnar mátti starfandi forseti ekki sjálfur gefa kost á sér í forsetakosningunum. Þessu var hins vegar breytt áður en kosningarnar voru haldnar og Berdimuhamedow var því leyft að gefa kost á sér ásamt fimm öðrum frambjóðendum sem þingið samþykkti þann 26. desember 2006.

Berdimuhamedow hlaut 89,23 % atkvæðanna í forsetakosningum Túrkmenistan þann 11. febrúar 2007 og hóf kjörtímabil sitt formlega þann 14. febrúar sama ár. Nýi forsetinn lofaði að efla einkageira landsins, varðveita velferðarþjónustuna og skapa ný störf. Hann var endurkjörinn í febrúar árið 2012 með 97,14 % atkvæða og árið 2017 með 98 % atkvæða.[6][7]

Eftir valdatöku sína lét Berdimuhamedow fljótt hefja greiðslu lífeyra á ný sem forveri hans hafði lagt niður, aflétti hömlum á utanlandsferðir Túrkmena og lét aftur lengja grunnskólanám úr níu árum í tíu. Þrátt fyrir þessar breytingar viðhélt stjórn Berdimuhamedow einræðislegu stjórnarfari að hætti Nyýazow. Margar myndir af Nyýazow á opinberum stöðum, sem voru um allt í Asgabat, voru teknar niður og þeim skipt út með myndum af Berdimuhamedow.[3]

Einræði breyta

 
Berdimuhamedow ásamt Vladímír Pútín árið 2017.

Stjórn Gurbanguly Berdimuhamedow er skilgreind sem einræðisstjórn af ýmsum óháðum eftirlits- og mannréttindastofnunum. Meðal annars er þá vísað til persónudýrkunar á leiðtoganum, skorts á frjálsum kosningum og til fokdýrra opinberra framkvæmda eins og byggingar „Gleðihallarinnar“ sem var vígð með mikilli fyrirhöfn á tuttugu ára sjálfstæðisafmæli Túrkmenistan. Undir lok maímánuðar árið 2015 var afhjúpuð 21 metra há gullhúðuð bronsstytta af Berdimuhamedow á hestbaki í Asgabat.[8]

Afhjúpun styttunnar þótti minna á stjórnarhætti forvera Berdimuhamedow, Saparmyrat Nyýazow, sem hafði látið reisa gullstyttu af sér sem snerist svo hún sneri alltaf að sólu. Eftir dauða Nyýazow lét Berdimuhamedow færa þá styttu frá miðbæ Asgabat til úthverfanna.[9] Berdimuhamedow lét jafnframt fjarlægja bækur eftir Nyýazow úr bókasöfnum landsins og setti þeirra í stað bækur eftir sjálfan sig um margvísleg efni líkt og veggteppalist, tesmökkun og túrkmenska heimspeki.[10][11]

Allir ríkisfjölmiðlar Túrkmenistan eru þátttakendur í persónudýrkuninni á forsetanum. Forsetinn hefur meðal annars tekið þátt í og „unnið“ kappakstur á Bugatti-bifreið,[12] auk þess sem hann hefur gjarnan tekið þátt í og „unnið“ kappreiðar á hesti.[13] Ríkisfjölmiðlar Túrkmenistan hafa jafnframt birt myndband af Berdimuhamedow þar sem hann birtist sem plötusnúður í afmælisveislu sonarsonar síns[14] og upptökur af honum að lesa ljóð sem hann hefur ort.[15] Hann hefur jafnvel birst í opinberum myndböndum að spila lag á gítar sem hann orti til heiðurs verkalýðs landsins.[14]

Árið 2016 var gerð breyting á stjórnarskrá Túrkmenistan sem nam úr gildi leyfðan hámarksaldur forsetaframbjóðenda og lengdi kjörtímabil forsetans úr fimm árum í sex.[8]

Árið 2018 var Túrkmenistan í 161. sæti af 180 ríkjum á spillingarlista Transparency International. Mannréttindavaktin hefur sagt að í Túrkmenistan sé enn við lýði ein mesta kúgun sem þekkist í nokkru ríki í dag og að frammistaða stjórnarinnar í mannréttindamálum sé hörmuleg.[10]

Árið 2019 birti Berdimuhamedow myndband af sér þar sem hann sást keyra torfærubíl í kringum Hlið vítis (brennandi gíg í Karakum-eyðimörkinni) til að bera af sér orðróma um að hann væri dauður.[16]

Frá upphafi alþjóðlega kórónuveirufaraldursins hefur túrkmenska stjórnin fullyrt að COVID-19 hafi alls ekki náð til Túrkmenistan og að engin tilfelli hafi greinst í landinu. Veirufræðingar og aðrir sérfræðingar í læknisfræði, meðal annars hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, telja þessa fullyrðingu ómögulega. Túrkmenistan var, ásamt Norður-Kóreu, eitt fárra ríkja sem gaf ekki út neinar sýkingatölur til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eða til heimsbyggðarinnar. Jafnvel nágrannaríki Túrkmenistan, Íran, sem varð hvað verst fyrir faraldrinum af öllum Mið-Austurlöndum, fullyrti að sýkin hefði náð til Túrkmena.

Þann 10. nóvember 2020 afhjúpaði Berdimuhamedow sex metra háa, gullhúðaða styttu í nýju íbúðahverfi í Asgabat af uppáhalds hundategund sinni, mið-asíska fjárhundinum.[17][18]

Valdaskipti breyta

Sonur Gurbanguly Berdimuhamedow, Serdar, er einnig stjórnmálamaður. Hann var útnefndur varautanríkisráðherra landsins í mars árið 2018 og hafði áður setið á þingi landsins. Í janúar 2019 var hann útnefndur varasveitarstjóri Ahal-héraðs og síðan aðstoðarforsætisráðherra árið 2021.[19] Serdar hafði lengi verið álitinn sennilegur arftaki föður síns sem þjóðhöfðingi[20] og hann bauð sig loks fram í forsetakosningum landsins árið 2022.[21] Serdar vann kosningarnar og tók við sem forseti Túrkmenistan þann 19. mars 2022.[22]

Tilvísanir breyta

  1. „US embassy cables: Turkmenistan president 'not a very bright guy' (enska). 2. desember 2010. Sótt 18. maí 2023.
  2. „В Туркмении поставили памятник отцу президента“. Lenta.ru (rússneska). 22. október 2012. Sótt 18. maí 2023.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Bess Brown (3. september 2008). „Gurbanguly Berdymukhammedov Turkmenistan & Biography“. www.britannica.com (enska). Britannica. Sótt 18. maí 2023.
  4. „Events of occasion of the 75th anniversary of the Great Victory are held with participation of the Head of the State“ (enska). State Migration Service of Turkmenistan. Sótt 18. maí 2023.
  5. „Turkmenistan marks Day of Remembrance“ (enska). Sótt 18. maí 2023.
  6. Le président turkmène réélu par 98% des voix, Le Figaro, 13. febrúar 2017.
  7. Ævar Örn Jósepsson (13. febrúar 2017). „Rússnesk kosning í Túrkmenistan“. RÚV. Sótt 18. maí 2023.
  8. 8,0 8,1 „Turkmenistan's constitutional amendment allows president to serve for life“. dw.com. Deutsche Welle. 14. september 2016. Sótt 18. maí 2023.
  9. Le président turkmène s'offre une statue en or de son vivant, Midi libre, 25. maí 2015.
  10. 10,0 10,1 Pierre Avril, « Le « Protecteur » des Turkmènes vers un nouveau sacre », Le Figaro, 12. apríl 2017, bls. 7.
  11. „Turkmenistan President Berdymukhamedov reappears after death rumours“ (bresk enska). BBC News. 12. ágúst 2019. Sótt 18. maí 2023.
  12. „Turkmenistan president Gurbanguli Berdymukhamedov wins country's maiden race“. www.cbsnews.com (bandarísk enska). CBS News. 9. apríl 2012. Sótt 3. mars 2022.
  13. Adam Taylor (25. maí 2015). „Turkmenistan's leader, infamous for falling off a horse, unveils a giant statue of himself riding a horse“ (bandarísk enska). Washington Post. Sótt 18. maí 2023.
  14. 14,0 14,1 Shaun Walker (1. febrúar 2017). „Turkmenistan's singing dictator heralds upcoming elections“. theguardian.com (enska). Sótt 18. maí 2023.
  15. Deutsche Welle (13. febrúar 2017). „Gurbanguly Berdymukhamedov re-elected as Turkmen president“. dw.com (bresk enska). Sótt 18. maí 2023.
  16. „Turkmenistan's leader does doughnuts next to flaming crater to prove he's not dead“ (enska). ABC. 7. ágúst 2019.
  17. Robin Tutenges (12. nóvember 2020). „Le président du Turkménistan dévoile une statue géante en or de son chien préféré“. Slate.fr. Sótt 18. maí 2023.
  18. „Le président turkmène inaugure en grande pompe une statue de son chien favori“. Courrier international. 12. nóvember 2020. Sótt 18. maí 2023.
  19. Atli Ísleifsson (12. febrúar 2021). „Gerir soninn að aðstoðarforsætisráðherra“. Vísir. Sótt 18. maí 2023.
  20. „Turkmenistan: President's son and presumed heir gets new top job“ (enska). EurasiaNet. 2. janúar 2019.
  21. „Turkménistan : Serdar Berdimoukhamedov, le fils du dirigeant sortant, remporte l'élection présidentielle“. Le Monde og AFP. 15. mars 2022.
  22. Atli Ísleifsson (15. mars 2022). „Sonur túrmenska einvaldsins vann yfirburðasigur í forsetakosningum“. Vísir. Sótt 18. maí 2023.


Fyrirrennari:
Saparmyrat Nyýazow
Forseti Túrkmenistan
(21. desember 200619. mars 2022)
Eftirmaður:
Serdar Berdimuhamedow