Sumarólympíuleikarnir 1912
Sumarólympíuleikarnir 1912 voru haldnir í Stokkhólmi í Svíþjóð 5. maí til 22. júlí.
Aðdragandi
breytaÁkvörðunin um Stokkhólmsleikana var tekin árið 1909. Berlín lýsti áhuga á að halda leikana en að lokum náðist samkomulag milli Svía og Þjóðverja um að þeir síðarnefndu biðu í fjögur ár. Stokkhólmur varð því eina umsóknarborgin.
Stjórnendur Alþjóðaólympíunefndarinnar voru ósáttir við framkvæmd leikanna í Lundúnum sem sumir töldu að hefðu fallið í skuggann af ýmsum ótengdum uppákomum og sýningarhaldi. Markmiðið með Stokkhólmsleikunum var því að færa Ólympíuleikana aftur til upphaflegu hugsjónarinnar sem einföld íþróttakeppni.
Reistur var nýr Ólympíuleikvangur sem tók um 12 þúsund áhorfendur. Er það einhver minnsti aðalleikvangur í sögu leikana.
Keppnisgreinar
breytaKeppt var í 102 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.
|
|
|
Þáttakendur
breytaEinstakir afreksmenn
breytaBandaríkjamaðurinn Jim Thorpe (réttu nafni Jacobus Fransiscus Thorpe) sigraði í fimmþraut og tugþraut, sem keppt var í í fyrsta sinn. Thorpe, sem var hálfur indíáni, þótti geysifjölhæfur íþróttamaður og keppti m.a. í hafnarbolta, körfuknattleik og ruðningi á löngum ferli. Hann var eftirlæti áhorfenda meðan á Ólympíuleikunum stóð, en að þeim loknum var hann sviptur verðlaunum fyrir brot á áhugamannareglum. Alþjóðaólympíunefndin sneri þeirri ákvörðun við mörgum áratugum síðar.
Matt McGrath frá New York sigraði auðveldlega í sleggjukasti. Hið stysta af sex köstum hans var lengra en lengstu köst næstu manna. Ólympíumet hans á leikunum var ekki slegið fyrr en í Berlín 1936.
Finninn Hannes Kolehmainen vann til þriggja verðlauna í hlaupakeppninni: í 5.000 metra hlaupi, 10.000 metra hlaupi og víðavangshlaupi. Hann varð þar með fyrstur í röð finnskra hlaupagarpa sem einokuðu nánast langhlaupin á næstu árum.
Suður-Afríkubúinn Kenneth McArthur varð hlutskarpastur í Maraþonhlaupinu. Það varpaði skugga á hlaupið að portúgalskur keppandi lést í miðri keppni að völdum hjartaáfalls. Var það fyrsti íþróttamaðurinn til að deyja á Ólympíuleikum.
Konur tóku í fyrsta sinn þátt í sundkeppni leikanna. Fanny Durack sem keppti undir merkjum Ástralasíu sigraði í einstaklingskeppninni. Hún var öflugasta sundkona heims á seinni hluta annars áratugarins og handhafi flestra heimsmeta.
Keppt var nútímafimmtarþraut í fyrsta skipti, en greinin var hugarfóstur Pierre de Coubertin leiðtoga Ólympíuhreyfingarinnar. Svíar höfðu mikla yfirburði og röðuðu sér í átta af tíu efstu sætunum. Um miðjan hóp keppenda lenti Bandaríkjamaðurinn George S. Patton, sem síðar varð einn kunnasti herstjórnandi tuttugustu aldar.
Þátttaka Íslendinga á leikunum
breytaÞegar leið að Ólympíuleikunum í Stokkhólmi, vaknaði áhugi íslenskra glímumanna að endurtaka leikinn frá Lundúnaleikunum fjórum árum fyrr. Sigurjón Pétursson, kenndur við Álafoss var helstur forystumaður íslenskra glímukappa. Íþróttasamband Íslands var stofnað í ársbyrjun 1912, ekki hvað síst til að geta sótt um þátttökurétt á leikunum.
Sendir voru sjö glímumenn til keppni, en glíma var formlega viðurkennt sem önnur af tveimur sýningargreinum leikanna, en þetta var í fyrsta sinn sem boðið var upp á formlegar sýningargreinar. Keppt var um sérstakan verðlaunagrip og stóðu vonir til að glíma yrði fastur liður á dagskrá leikanna í framtíðinni. Formaður og gjaldkeri hópsins var Hallgrímur Benediktsson
Auk þess að keppa í íslenskri glímu tók Sigurjón Pétursson þátt í grísk-rómverskri glímu. Áttundi Íslendingurinn í hópnum, Jón Halldórsson, tók þátt í 200 metra hlaupi en komst ekki áfram úr sínum riðli.
Verðlaunaskipting eftir löndum
breytaNr. | Land | Gull | Silfur | Brons | Samtals |
---|---|---|---|---|---|
1 | Bandaríkin | 25 | 19 | 19 | 63 |
2 | Svíþjóð | 24 | 24 | 17 | 65 |
3 | Bretland | 10 | 15 | 16 | 41 |
4 | Finnland | 9 | 8 | 9 | 26 |
5 | Frakkland | 7 | 4 | 3 | 14 |
6 | Þýskaland | 5 | 13 | 7 | 25 |
7 | Suður-Afríka | 4 | 2 | 0 | 6 |
8 | Noregur | 4 | 1 | 4 | 9 |
9 | Kanada | 3 | 2 | 3 | 8 |
9 | Ungverjaland | 3 | 2 | 3 | 8 |
11 | Ítalía | 3 | 1 | 2 | 6 |
12 | Ástralasía | 2 | 2 | 3 | 7 |
13 | Belgía | 2 | 1 | 3 | 6 |
14 | Danmörk | 1 | 6 | 5 | 12 |
15 | Grikkland | 1 | 0 | 1 | 2 |
16 | Rússland | 0 | 2 | 3 | 5 |
17 | Austurríki | 0 | 2 | 2 | 4 |
18 | Holland | 0 | 0 | 3 | 3 |
Alls | 103 | 104 | 103 | 310 |