Stórmæri
Stórmæri (latína: Regnum Marahensium, gríska: Μεγάλη Μοραβία, Megale Moravia; tékkneska: Velká Morava; slóvakíska: Veľká Morava; pólska: Wielkie Morawy, þýska: Grossmähren) eða einfaldlega Mæri[1][2][3] var fyrsta stóra ríki Vestur-Slava sem varð til í Mið-Evrópu og stóð frá 833 til um 907.[4] Það náði að öllum líkindum yfir landsvæði sem í dag eru hlutar af Tékklandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Austurríki, Þýskalandi, Póllandi, Rúmeníu, Króatíu, Serbíu og Úkraínu. Eina slavneska ríkið sem kom á undan því var Ríki Samós sem stóð frá 631 til 658.
Kjarnaland ríkisins var þar sem í dag heitir Mæri í austurhluta Tékklands, meðfram ánni Morava, sem það dregur nafn sitt af. Í þessu ríki myndaðist slavnesk bókmenning á kirkjuslavnesku og útbreiðsla kristni, fyrst með trúboðum frá Austur-Frankíu og síðan með komu Kýrils og Meþódíusar frá Miklagarði 863 og þróun glagólítísks leturs, fyrsta letursins sem gert var fyrir ritun slavneskra mála. Það þróaðist síðan í það sem var nefnt kýrillískt letur.
Ekki er vitað hvar landamæri ríkisins lágu nákvæmlega. Stórmæri náði hátindi sínum í valdatíð Svatopluks 1. sem ríkti frá 870 til 894. Klofningur og innanlandsátök eftir dauða hans leiddu til hruns þegar Magýarar réðust inn í ríkið og lögðu núverandi Slóvakíu undir sig. Nákvæmlega hvenær það gerðist er ekki vitað, en talið að það hafi verið milli 902 og 907.
Menningarleg vakning varð í Stórmæri í valdatíð Rastislavs konungs, með komu trúboðanna Kýrils og Meþódíusar árið 863. Róm hafði áður hafnað beiðni Rastislavs um trúboða, svo hann sneri sér til Býsantíum og óskaði eftir kennurum í bókmenntum og lögum. Bræðurnir Kýrill og Meþódíus þróuðu nýtt ritmál og messusöng á slavnesku. Hadríanus 2. páfi samþykkti það síðarnefnda að lokum.[5] Kýrill þróaði líklega glagólítíska letrið sjálfur og byggði ritmál sitt á slavneskri mállýsku sem hann og bróðir hans þekktu frá Þessalóníku. Kirkjuslavneskan var því talsvert ólík þeirri slavnesku sem var töluð í Stórmæri, sem var undanfari slavnesku mállýskanna sem í dag eru talaðar í Mæri og vesturhluta Slóvakíu.
Seinna rak Svatopluk 1. lærisveina Kýrils og Meþódíusar frá Stórmæri og sveigði opinber trúarbrögð ríkisins aftur að vestrænum sið. Það hafði aftur mikil áhrif á þau lönd þar sem lærisveinarnir settust að og héldu trúboði sínu áfram, sérstaklega í Suðaustur-Evrópu og Austur-Evrópu. Kirkjuslavneska varð opinbert ritmál í Búlgaríu frá 893 og er stundum kölluð fornbúlgarska þar. Kýrillískt letur, sem var þróað í Búlgaríu, tók við af því glagólítíska þótt það notaði sum tákn þaðan.[6][7][8][9]
Tilvísanir
breyta- ↑ Bowlus 1995, bls. 1.
- ↑ Barford 2001, bls. 108–112.
- ↑ Curta 2006, bls. 124–133.
- ↑ Drulák 2012, bls. 91.
- ↑ Elvins, Mark Twinham (1994). Towards a People's Liturgy: The Importance of Language. ISBN 9780852442579.
- ↑ Auty, R. Handbook of Old Church Slavonic, Part II: Texts and Glossary. 1977.
- ↑ Dvornik, Francis (1956). The Slavs: Their Early History and Civilization. Boston: American Academy of Arts and Sciences. bls. 179.
- ↑ Curta 2006, bls. 221–222.
- ↑ J. M. Hussey, Andrew Louth (2010). „The Orthodox Church in the Byzantine Empire“. Oxford History of the Christian Church. Oxford University Press. bls. 100. ISBN 978-0191614880.