Sr. Hjörleifur Guttormsson

Hjörleifur Guttormsson (f. 31. maí 1807 á Hofi í Vopnafirði, d. 1. ágúst 1887 á Lóni í Kelduhverfi) var prestur víða á norðurlandi um miðja 19. öld.

Sr. Hjörleifur Guttormsson. Teikning eftir mynd Arngríms málara en hann var tengdasonur Hjörleifs.

Foreldrar Hjörleifs voru sr. Guttormur Þorsteinsson sem lengi var prestur á Hofi og kona hans Oddný Guttormsdóttir. Hjörleifur varð stúdent frá Bessastaðaskóla 1832. Hann var vinur og skólabróðir Jónasar Hallgrímssonar sem orti um hann furðulegar vísur „Hjörleifs reiði ríður mér á slig“... Hjörleifur hlaut prestvígslu 8. júní 1835 og gerðist aðstoðarprestur sr. Björns Vigfússonar í Kirkjubæ í Hróarstungu og gekk sama ár að eiga Guðlaugu dóttur hans.

Eftir fjögur ár í Kirkjubæ fluttu þau á Galtastaði ytri og bjuggu þar í 10 ár en í ársbyrjun 1849 var Hjörleifi veittur Skinnastaður í Axarfirði. Þar þjónaði hann í 21 ár, eða til 1870. Síðustu sjö árin embættaði hann einnig á Garði í Kelduhverfi. Eftir þetta flutti hann með skyldulið sitt í Svarfaðardal. Hann var prestur á Tjörn til 1878 en flutti sig þá yfir í Velli og sat þar þangað til hann hætti prestsskap 1884. Sr. Hjörleifur þótti glaðvær maður og jafnlyndur, gestrisinn og vinsæll, kennimaður sæmilegur. Maddama Guðlaug var fædd á Eiðum 1813. Hún var sögð gáfuð rausnarkona, læknir góður og var fræg ljósmóðir. Mest orð fór þó af tónlistargáfum hennar og söngrödd og þótti það lengi koma fram í afkomendum hennar. Hún lést á Tjörn 26. október 1875. Þau hjón áttu átta börn sem á legg komust:

Heimildir

breyta
  • Hjörtur E. Þórarinsson (1992). Tjarnarkirkja 100 ára, 1892-1992. Sóknarnefnd Tjarnarkirkju.
  • Kristján Eldjárn (1983). Arngrímur málari. Iðunn, Reykjavík.