Sigríður Ásdís Snævarr

(Endurbeint frá Sigríður Snævarr)

Sigríður Ásdís Snævarr (f. 23. júní 1952) er íslenskur sendiherra. Sigríður er fyrsta íslenska konan sem skipuð var sendiherra í íslensku utanríkisþjónustunni. Hún var skipuð sendiherra Íslands í Svíþjóð þann 1. febrúar 1991.

Sigríður er fædd og uppalin í Reykjavík og foreldrar hennar eru Valborg Sigurðardóttir (1922-2012) uppeldisfræðingur og skólastjóri Fósturskóla Íslands og Gunnsteinn Ármann Snævarr (1919-2010) prófessor, háskólarektor og hæstaréttardómari. Sigríður er elst fimm systkina. Eiginmaður hennar er Kjartan Gunnarsson (f. 1951) lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.[1] Þau eiga einn son fæddan árið 2007. Sigríður er talin vera elsta íslenska konan til að ala barn svo vitað sé.[2]

Menntun og starfsferill

breyta

Sigríður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972. Hún lauk diplomanámi í ítölsku frá Università per gli Stranieri í Perugia á Ítalíu og stundaði nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands um skeið.[3] Hún lauk B.Sc. Econ prófi frá London School of Economics árið 1977 og hélt þaðan til Bandaríkjanna þaðan sem hún lauk MA-námi í Fletcher School of Law and Diplomacy árið 1978.

Hún var leiðsögumaður erlendra ferðamanna á Íslandi 1970-1977 og íslenskra ferðamanna á Ítalíu 1973 og 1974. Árið 1978 var í fyrsta skipti auglýst eftir embættismönnum til starfa í íslensku utanríkisþjónustunni.[3] Sigríður var meðal umsækjenda og hóf störf í utanríkisþjónustunni sama ár. Hún var fulltrúi í utanríkisþjónustunni frá 1978-1979, sendiráðsritari í Moskvu 1979-1980, fulltrúi í utanríkisráðuneytinu árið 1980, varafastafulltrúi hjá Evrópuráðinu í Strasbourg 1982-1983, blaðafulltrúi utanríkisráðuneytisins árið 1983-1986, sendiráðunautur frá 1984, í sendiráði Íslands í Bonn í Þýskalandi frá 1987 og sendifulltrúi þar frá 1988-1991.[1]

Árið 1991 var Sigríður skipuð sendiherra fyrst íslenskra kvenna. Hún var sendiherra Íslands í Svíþjóð og Finnlandi með aðsetur í sendiráði Íslands í Stokkhólmi frá 1991-1996, prótókollsstjóri utanríkisráðuneytisins og jafnframt sendiherra í Namibíu, Suður-Afríku og Mósambik frá 1996-1999. Frá 1999-2004 var hún sendiherra Íslands í Frakklandi, Spáni, Ítalíu, Portúgal og Andorra og jafnframt fastafulltrúi Íslands hjá OECD í París, FAO í Róm og UNESCO í París, með aðsetur í sendiráði Íslands í París. Hún starfaði í utanríkisráðuneytinu frá 2004-2007 og um skeið frá 2008-2012.[1][4] Frá árinu 2017 hefur Sigríður veitt deild heimasendiherra í utanríkisráðuneytinu forstöðu en auk þess er hún sendiherra Íslands gagnvart Páfagarði, Singapúr og Ástralíu.[5]

Árið 2008 stofnaði Sigríður ásamt Maríu Björk Óskarsdóttur hvatningar- og stuðningsverkefnið Nýttu kraftinn til að aðstoða fólk í atvinnuleit. Þær héldu fjölmörg námskeið og fyrirlestra og gáfu jafnframt út bókina Nýttu kraftinn sem kom út árið 2013.[4]

Sigríður var formaður sendinefndar Íslands á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Nairobi í Kenía árið 1985, var ritari nefndar um samskipti Íslands og Vestur-Íslendinga 1983-1986 og í stjórn Listvinafélags Hallgrímskirkju frá 1983-1986. Hún var frumkvöðull að stofnun Félags kvenna í embættisstörfum í Stjórnarráðinu. Hún sat í nefnd um aðkomu ríkisins að skipulagi og fjármögnun ferðaþjónustu árið 2008, var um tíma í stjórn Alliance Francaise og var varaformaður stjórnar Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá 2006-2010.[4]

Viðurkenningar

breyta

Sigríður var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1988. Hún hefur hlotið finnsku Ljónsorðuna, þýsku Verdientsorðuna og hina spænsku Orðu Isabellu hinnar kaþólsku.[1] Árið 2019 var hún sæmd þakkarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).[5]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn J-Ö bls. 797-798, (Reykjavík, 2003)
  2. Visir.is, „Fimmtíu og fimm ára gömul íslensk kona ól barn í gærkvöldi“ (skoðað 1. febrúar 2021)
  3. 3,0 3,1 Visir.is, „Það var við múrinn sem hugmyndin vaknaði“ (skoðað 1. febrúar 2021)
  4. 4,0 4,1 4,2 „Bjartsýn baráttukona“, Morgunblaðið, 23. júní 2012, (skoðað 1. febrúar 2021)
  5. 5,0 5,1 Stjornarradid.is, „Sigríður Snævarr sæmd þakkarviðurkenningu FKA“ (skoðað 1. febrúar 2021)