Norma Leah McCorvey

(Endurbeint frá Roe v. Wade)

Norma Leah McCorvey (fædd 22. september 1947 - dáin 18. febrúar 2017), betur þekkt undir dulnefninu „Jane Roe“, var stefnandi í bandaríska dómsmálinu Roe gegn Wade. Málið markaði þáttaskil í þarlendri réttarsögu, en um var að ræða lög um fóstureyðingar þar sem hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp dóm þess efnis að bann við fóstureyðingum samræmdist ekki stjórnarskránni. Samkvæmt henni ættu bandarískar konur rétt á því að taka ákvörðun um hvort þær létu eyða fóstri á fyrsta og öðrum þriðjungi meðgöngu án afskipta yfirvalda.

Norma Leah McCorvey árið 1989 fyrir framan Hæstarétt Bandaríkjanna.

Ævi og menntun breyta

Norma Leah fæddist í Simmesport í Louisiana en var alin upp í Houston í Texas af Vottum Jehóva. Foreldrar hennar skildu þegar hún var mjög ung og ólst hún upp hjá móður sinni sem var ofbeldisfullur alkahólisti. Faðir hennar lést 27.september árið 1995. Skólagöngu hennar lauk þegar hún var fjórtán ára gömul og tveimur árum síðar giftist hún Woody McCorvey en hélt því fram að hann beitti hana ofbeldi og fór frá honum á meðan hún gekk með sitt fyrsta barn, Melissu (f.1965). Norma Leah varð ófrísk aftur árið eftir en það barn var gefið til ættleiðingar. Eftir það flutti hún aftur til móður sinnar sem síðar afneitaði henni þegar hún trúði henni fyrir því að hún laðaðist kynferðislega að konum og tók yfir forræði dótturdóttur sinnar, Melissu.

Roe gegn Wade breyta

Norma Leah varð barnshafandi árið 1969 í þriðja sinn. Hún hafði hug á því að fara í fóstureyðingu í Dallas og bar því við að sér hafi verið nauðgað þar sem fóstureyðingar voru heimilaðar í Texas í tilfellum þar sem um nauðgun eða sifjaspell hafði verið að ræða. Henni varð hins vegar ekki að ósk sinni, þar sem engar sannanir voru til sem staðfestu að henni hafi í raun verið nauðgað.

Í kjölfar þess að hafa verið synjað um fóstureyðingu eftir löglegum leiðum leitaði hún til aðila sem stunduðu ólöglega starfsemi á þessu sviði en kom þar að lokuðum dyrum því starfseminni hafði verið lokað. Henni var hins vegar ráðlagt að leita til tveggja lögfræðinga, Linda Coffee og Sarah Weddington. Það leiddi til málaferla er tóku þrjú ár, þar sem lögfræðingar hennar tókust á við Henry Wade fulltrúa Texas ríkis um niðurstöðu í málinu. Meðan á málaferlunum stóð ól Norma Leah barn sitt en gaf það til ættleiðingar.

Nokkrum dögum eftir að úrskurður hafði verið kveðinn upp í hæstarétti kom Norma Leah fram í fjölmiðlum með yfirlýsingu þess efnis að hún væri í raun Jane Roe en það nafn hafði verið notað til að verja einkalíf hennar. Jafnframt sagðist hún vera atvinnulaus og auk þess þjást af þunglyndi og því hefði henni verið mikið í mun að enda meðgönguna.

Sinnaskipti breyta

Síðar, þ.e. á níunda áratugnum, hélt hún því hins vegar fram að hún hafi verið notuð af lögfræðingunum tveim er fóru með mál hennar. Hún taldi lögfræðingana einungis hafa þurft einhvern stefnanda með mál af þessu tagi, til að sækja gegn Texas ríki og fá þannig þáverandi lögum um fóstureyðingu breytt.

Í seinni tíð kvaðst Norma Leah hafa breytt afstöðu sinni og hún varð virk í andstöðu sinni gegn fóstureyðingum. Árið 1994 skrifaði Norma Leah bók byggða á reynslu sinni málinu og heitir hún I am Roe. Fjórum árum síðar, þ.e. árið 1998, skrifaði hún síðan aðra bók sem hún nefndi Won by love og fjallar um hugarfarsbreytingar sínar gagnvart fóstureyðingum.

Í viðtali sem tekið var við McCorvey stuttu fyrir dauða hennar viðurkenndi hún að henni hefði lengi verið mútað til að tala gegn þungunarrofum. Hún sagðist í raun enn styðja rétt kvenna til aðgangs að þungunarrofum.[1][2]

Tilvísanir breyta

  1. Blake, Meredith (19. maí 2020). „The woman behind 'Roe vs. Wade' didn't change her mind on abortion. She was paid“. Los Angeles Times. Sótt 20. maí 2020.
  2. Hesse, Monica (20. maí 2020). 'Jane Roe,' from Roe v. Wade, made a stunning deathbed confession. Now what?“. The Washington Post. Sótt 20. maí 2020.