Robert Jenkinson, jarl af Liverpool
Robert Banks Jenkinson, annar jarlinn af Liverpool, (7. júní 1770 – 4. desember 1828) var breskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Bretlands frá 1812 til 1827. Hann leiddi Bretland í Napóleonsstyrjöldunum þegar gæfan snerist gegn Napóleon og Frakkland var sigrað. Liverpool hafði áður verið utanríkisráðherra í ríkisstjórnum Williams Pitt yngri og Henry Addington.
Jarlinn af Liverpool | |
---|---|
Forsætisráðherra Bretlands | |
Í embætti 8. júní 1812 – 9. apríl 1827 | |
Þjóðhöfðingi | Georg 3. Georg 4. |
Forveri | Spencer Perceval |
Eftirmaður | George Canning |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 7. júní 1770 London, Englandi |
Látinn | 4. desember 1828 (58 ára) Kingston upon Thames, Surrey, Englandi |
Stjórnmálaflokkur | Torýar |
Maki | Louisa Hervey (g. 1795; d. 1821) Mary Chester (g. 1822) |
Foreldrar | Charles Jenkinson, fyrsti jarlinn af Liverpool; Amelia Watts |
Háskóli | Christ Church (Oxford) |
Undirskrift |
Þótt Liverpool hafi verið forsætisráðherra þegar Bretland vann Napóleonsstyrjaldirnar er hans aðallega minnst fyrir harðræði sitt eftir að þeim lauk. Árið 1819 gerði riddaraliðssveit árás á samkomu um 60.000–80.000 friðsamlegra mótmælenda í Manchester sem kröfðust umbóta í kjördæmakerfinu. Fimmtán manns létu lífið og 400–700 særðust. Eftir uppákomuna, sem var kölluð „Peterloo-fjöldamorðin“, setti ríkisstjórn Liverpool ýmis lög sem takmörkuðu borgaraleg réttindi, þar á meðal með heftingu á tjáningarfrelsi og takmörkun á rétti til réttarhalda og til að halda fjöldasamkomur. Lögin voru svo óvinsæl að misheppnað samsæri var gert til að koma Liverpool og öðrum ríkisstjórnarmeðlimum fyrir kattarnef.[1]
Á Vínarfundinum hvatti Liverpool Evrópuveldin til þess að banna þrælahald og heima fyrir hvatti hann til þess að lög sem bönnuðu verkamönnum að mynda stéttarfélög yrðu afnumin.[2] Mestallan feril sinn var Liverpool á móti því að kaþólikkar fengju borgaraleg réttindi á Bretlandi og sagði að endingu af sér árið 1827 þegar George Canning mælti formlega með því að ríkisstjórnin styddi lagafrumvarp þess efnis.
Á ráðherratíð Liverpool háði Bretland stríð við Bandaríkin í annað og síðasta sinn. Ríkisstjórn Liverpool bannaði einnig innflutning á hveiti með kornlögunum svokölluðu árið 1815 til þess að hækka verð á brauði í Bretlandi. Lögin leiddu til fjöldamótmæla og uppþota í London.[3]
Tilvísanir
breyta- ↑ Ann Lyon (2003). Constitutional History of the UK. Routledge. bls. 319.
- ↑ W. R. Brock. Lord Liverpool and Liberal Toryism 1820 to 1827. CUP Archive. bls. 3.
- ↑ Hirst, F. W. (1925) From Adam Smith to Philip Snowden. A history of free trade in Great Britain, London: T. Fisher Unwin, bls. 15.
Fyrirrennari: Spencer Perceval |
|
Eftirmaður: George Canning |